Beint í efni

ORT: Ewa Lipska á Bókmenntahátíð í Reykjavík

Bókmenntahátíðin í Reykjavík er handan við hornið og þar kennir ýmissa grasa. Sautján rithöfundar hvaðanæva að úr heiminum sækja þá Bókmenntaborgina heim, bókelskum íbúum og gestum hennar til ómældrar ánægju. Á meðal rithöfunda á hátíðinni er pólska ljóðskáldið Ewa Lipska, en koma hennar til Íslands er hluti af pólsk-íslenska ljóðlistarverkefninu ORT. Ewa Lipska, fædd árið 1945 í Kraká, er á meðal virtustu ljóðskálda Póllands og hefur unnið til fjölda bókmenntaverðlauna. Þó fæðingarár og útgáfutími fyrstu bókar hennar (Wiersze, 1967) gefi til kynna að hún teljist til skálda pólsku „nýbylgjunnar“ svokölluðu hefur Ewa aldrei talið sig tilheyra sérmerktum hópi eða kynslóð listamanna og hefur hún á markvissan hátt sýnt fram á að ekki er hægt að draga hana í listræna dilka. Ljóð hennar eru umfram allt persónuleg, þó í þeim megi einnig greina pólitískar víddir, þar sem hún afhjúpar áróðursorðræður og beinir um leið sjónum að vanköntum tungumálsins sem skyn- og tjáskiptatæki. Ljóð hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála og birtust á íslensku í þýðingu Geirlaugs Magnússonar árið 1993 (Í Andófinu: safn pólskra nútímaljóða). Ewa Lipska mun taka þátt í höfundaspjalli í Norræna húsinu 11. September á Bókmenntahátíð í Reykjavík og lesa upp úr verkum sínum 15. September. Frekari upplýsingar um dagskrá Bókmenntahátíðar má nálgast á heimasíðu hennar.

ORT – ljóðarkir

Markmið verkefnisins ORT er að kynna íslenska ljóðlist í Póllandi og pólska ljóðlist á Íslandi. Tuttugu skáld frá Póllandi og Íslandi verða kynnt fyrir lesendum beggja þjóða og ljóð þeirra gefin út í þýðingum, á bæði prentuðu og rafrænu formi. Pólsk og íslensk ljóð verða gefin út í ljóðörkum, sem hægt er að brjóta sundur og saman og hengja upp. Hér að neðan má sjá hluta úr örk með ljóðum Ewu Lipska, sem þýdd hafa verið af íslensku skáldunum Óskari Árna Óskarsyni, Braga Ólafssyni og Magnúsi Sigurðssyni fyrir verkefnið. Ljóðörkinni verður dreift ókeypis á meðan Bókmenntahátíð stendur. Bakhjarl verkefnisins ORT er Bókmenntamiðstöð Póllands og er það styrkt af Evrópusjóðnum „Promotion of Diversity in Culture and Arts within European Cultural Heritage“. Samstarfsaðilar á Íslandi eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, ÚTON og Norræna húsið. [gallery link="file" ids="5512,5506,5507,5505,5522"] Hönnun ljóðarkanna: Grażka Lange.