Beint í efni

ORT: Íslensk skáld í Sopot

Rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Þórarinn Eldjárn komu nýverið fram á bókmenntahátíðinni í Sopot, sem fór fram 16.-20. ágúst í Póllandi. Upplestrar Þórarins og Eiríks voru í boði pólsk-íslenska menningarverkefnisins ORT: Ljóð frá Íslandi/Ljóð frá Póllandi, sem hófst í maí síðastliðnum með Smekkleysukvöldi í Kraká. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO er á meðal samstarfsaðila verkefnisins. Á hátíðinni í Sopot lásu Þórarinn og Eiríkur upp úr verkum sínum frammi fyrir áhugasömum gestum í sól og sumaryl, eins og myndirnar sýna. Skáldin tóku einnig þátt í þýðingasmiðju ásamt pólsku skáldunum Jacek Dehnel og Jerzy Jarniewicz. Á hátíðinni voru ljóðarkir með þýddum ljóðum eftir íslensk og pólsk ljóðskáld frumsýnd. Arkirnar eru afrakstur þýðingavinnu verkefnisins og eru hönnuð af Grażka Lange, prófessor við Listaháskólann í Varsjá. Þórarinn Eldjárn hefur þýtt barnakvæðið Pan Maluśkiewicz i wieloryb eftir Julian Tuwim sérstaklega fyrir verkefnið og er það á meðal verkanna sem gefin verða út á örkum af verkefninu ORT. Íbúum og gestum Reykjavíkur gefst tækifæri til að berja ljóðarkirnar augum hér og þar í borginni á Lestarhátíð í Reykjavík, sem fram fer í október næstkomandi.  Á bókmenntahátíðinni í Sopot var skipulögð skapandi vinnusmiðja þar sem börn fengu tækifæri til að gera sínar eigin ljóðarkir og munu krakkar á Íslandi einnig fá tækifæri til þess á Lestrarhátíð í Reykjavík. Næsti leggur verkefnisins ORT mun eiga sér stað á Bókmenntahátíð í Reykjavík, 11.-15. september, þar sem pólska ljóðskáldið Ewa Lipska verður á meðal rithöfunda sem koma fram. Lesa má nánar um Ewu og aðra rithöfunda hátíðarinnar á heimasíðunni bokmenntahatid.is. [gallery link="file" ids="5464,5462,5461,5460,5458,5457,5455,5451"] Ljósmyndir: ©Instytut Książki/Ewa Rasińska