Ljóðlistarverkefninu ORT: Ljóð frá Íslandi/Ljóð frá Póllandi verður formlega ýtt úr vör laugardaginn 18. maí næstkomandi á Miłosz bókmenntahátíðinni í Kraká, Póllandi. Verkefnið felur í sér umfangsmikla kynningu á pólskri og íslenskri ljóðlist og er Bókmenntaborgin Reykjavík á meðal samstarfsaðila þess.
Ljóðin takast á loft
ORT nær yfir fjórar árstíðir og mun ljóðlistin ferðast milli Póllands og Íslands í allri sinni fjölbreytni á þessu tímabili: á pappír, á vefnum, á götum og í almenningsvögnum. Ljóð verða flutt í útvarpi og á bókmenntahátíðum og viðburðum, þau munu ganga inn í bókasöfn, skóla og leikskóla og prýða götur Reykjavíkur og borga í Póllandi.
„Hugsjón
ORT er að leyfa ljóðinu að takast á loft af síðunni og finna sér leið inn í opinber og óvænt rými,“ segir í fréttatilkynningu verkefnisins. „Verkefninu er ætlað að opna fyrir samræður milli skálda og listamanna þjóðanna beggja í gegnum viðburði, þýðingar og vinnusmiðjur – og þar með byggja brú milli eyjunnar og meginlandsins. Aldrei fyrr hefur verið ráðist í jafn víðfeðma kynningu á íslenskri ljóðlist í Póllandi og pólskri ljóðlist á Ísland, en yfir 20 skáld frá Póllandi og Íslandi munu taka þátt í verkefninu.“
Vorútgáfa verkefnisins hefst, sem fyrr segir, á
Miłosz hátíðinni í Kraká, með þátttöku Braga Ólafssonar, Óskars Árna Óskarsson og Sjóns. Skáldin þrjú munu lesa upp verk sín á endurvöktu
Smekkleysukvöldi, þar sem tónlistarmennirnir Sigtryggur Baldursson og Ásgerður Júníusdóttir auk hljómsveitanna Ghostigital og Captain Fufanu koma einnig fram. Á meðan kvöldinu stendur verður ljósmyndum sem Ólafur J. Engilbertsson hefur tekið saman um sögu Smekkleysu varpað upp á tjald. „Viðburðurinn á að blása nýju lífi í hugmyndina um listrænt samstarf, sjálfsprottna tilraunagleði og umfram allt tefla saman lifandi flutningi ljóða og tóna,“ segir í tilkynningunni. „Með þessu er hugmyndin að baki
Orðið tónlist, fjölljóðahátíð sem Smekkleysa hefur áður staðið fyrir, endurvakin.“
Bakhjarl verkefnisins
ORT er
Bókmenntamiðstöð Póllands og er það styrkt af Evrópusjóðnum „Promotion of Diversity in Culture and Arts within European Cultural Heritage“. Samstarfsaðilar á Íslandi eru
Miðstöð íslenskra bókmennta, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO,
ÚTON og
Norræna húsið. Ríkisútvarp Póllands er sérstakur velunnari verkefnisins. Á meðal aðila sem koma að skipulagningu viðburða eru
Viðburðadeild Kraká (Kraká Festival Office),
Bókmenntahátíðin í Reykjavík, Bókmenntahátíðin í Sopot, Spoke’n’Word hátíðin í Varsjá, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafn Reykjavíkur.