Beint í efni

Reimleikar í Smáralind

Reimleikar í Smáralind
Höfundur
Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Barnabækur,
 Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Verslunarmiðstöðvar leika stórt hlutverk í samfélagi okkar og nútímamenningu, enda fyrir finnst varla sú manneskja sem ekki hefur komið í Kringluna eða Smáralind á einhverjum tímapunkti. Unglingar hanga þar á göngunum á meðan aðrir versla eða spóka sig. Þrátt fyrir mannlífið og fólksfjöldann sem arkar um flesta daga er eitthvað við verslunarmiðstöðvar sem gerir þær svolítið skuggalegar. Þau sem hafa komið inn í slíka seint að kvöldi, kannski til að fara í bíó eftir að búðirnar hafa lokað, hafa ef til vill fundið ónotatilfinningu fara um sig, að vera ein í þessu risastóra rými með endalausum krókum og kimum. Jafnvel þegar þær eru fullar af fólki getur óhugur læðst að manni, því allir eru niðursokknir í sitt og enginn sérstaklega að velta fyrir sér næsta manni. Það er auðvelt að láta fjöldann gleypa sig. Smáralindar-Móri eftir Brynhildi Þórarinsdóttur er hrollvekjandi nútíma draugasaga sem gerist í Smáralind og segir frá reimleikum í verslunarmiðstöðinni, sem sagan segir hafi fylgt húsinu frá upphafi. Notast er við hversdagslega atburði og hluti sem flestir kannast við til að færa óhugnaðinn nær lesandanum.

Sagan hefst í október árið 2000, þegar Smáralind er enn í byggingu. Tveir unglingsstrákar brjótast inn á byggingarsvæðið seint um kvöld í leit að einhverju spennandi að gera. Strákarnir, þeir Patti og Flóki, stökkva á milli vinnupalla en Patti er mun fimari en Flóki, sem vill heldur fara að koma sér heim og kúra sig með bók en að taka þátt í þessu hættuspili. Patti er rétt á undan Flóka, en allt í einu er hann horfinn eitthvert ofan í húsgrunninn. Flóki, sem var alls ekki spenntur fyrir þessum hasar, sér fram á að hann neyðist til að leita að Patta inni í skuggalegri nýbyggingunni. Hann finnur sér leið inn í húsið en það er kalt og dimmt og hvernig sem hann leitar tekst honum ekki að finna Patta.

Sagan spannar rúmlega 20 ára tímabil, frá því að Smáralind var byggingarsvæði um aldamótin og til dagsins í dag og lýsir einum degi á ári hverju, 10. október, afmæli Smáralindar. Á meðan aðrir koma saman á alls konar skemmtunum og afmælishátíðum, mæta til vinnu í verslunum eða fara í verslunarleiðangra eða bíóferðir, heltekur leitin að Patta Flóka. Hann er á sífelldum þönum um Smáralind að leita, en fljótlega verður ljóst að það er eitthvað sem stemmir ekki. Flóki er orðinn eitthvað undarlegur, á meðan tískan breytist í kringum hann ár frá ári er hann eins, bara örlítið sóðalegri með hverju árinu, gamla úlpan hans farin að láta á sjá. Lífið utan Smáralindar, áður en Patti hvarf, verður æ fjarlægara í huga hans og ekkert annað kemst að en hvað varð um Patta. Ári eftir að verslunarmiðstöðin er vígð er unglingsstelpan Lotta í Smáralind með vinkonum sínum að versla föt fyrir ball. Hún er eitthvað útundan í hópnum en þegar hún sér Flóka tilsýndar er eins og hún dáleiðist. Enginn virðist sjá þennan dularfulla, heillandi strák nema hún en henni finnst eins og hún verði að ná í skottið á honum. Vinkonum hennar líst ekki á blikuna og reyna að stöðva hana, en allt kemur fyrir ekki. Lotta ætlar sér að finna hann og ekkert má koma í veg fyrir það. Fyrr en varir eru þau orðin tvö sem ráfa um ganga Smáralindar, Flóki í leit að Patta og Lotta að elta að Flóka, bæði föst í endalausum eltingaleik þar sem lokamarkið hverfur jafnóðum, ef það er yfirleitt til. Smáralind verður þekkt fyrir að þar sé reimt, krakkarnir í hverfunum í kring hafa ýmsar sögur að segja af ásókn tveggja drauga, sem láta öllum illum látum á afmæli Smáralindar.

Þau Flóki og Lotta eru orðin Smáralindar-Móri og Smáralindar-Skotta. Þau eru nútíma útgáfa af fylgjum, sem voru illir draugar sem ásóttu ákveðið fólk eða fjölskyldur, eða ákveðna staði eins og í þessu tilfelli. Flóki gengur, líkt og þjóðasagnamórar, í rauðri úlpu og er yfirleitt með hettuna uppi til að skýla sér. Skottan Lotta sýgur á sér fingurna og gengur með húfu, sem er vissulega ekki skotthúfa eins og þjóðasagnaskottur gengu yfirleitt með, heldur öllu nútímalegri derhúfa. Þau eru bæði, hvort í sínu lagi, full gremju og bæði gestir og gamlir vinir sem verða á vegi þeirra fá að finna fyrir reiði þeirra. Lotta leggur sérstaka áherslu á að herja á gömlu vinkonur sínar, þegar þær koma í Smáralind til að sækja vinnu eða versla. Henni finnst hún eiga harma að hefna eftir að þær reyndu að halda aftur af henni þegar hún rauk af stað til að elta Flóka á árs afmæli Smáralindar. Aðrir gestir lenda samt líka í þeim og þau birtast á ljósmyndum og í speglum, hlutir fara á flug og lítil börn eru dáleidd og ráfa í burtu. Ógeðsleg sæt (ná)lykt fylgir Lottu og þau sem eru svo óheppin að verða á vegi hennar finna fnykinn af henni áður en hún birtist þeim.

Smáralindar-Móri er stutt og spennandi saga þar sem vel tekst til að vekja hroll. Þó að lesandanum verði fljótt ljóst að leit Flóka að Patta muni seint bera árangur, er ýmislegt sem kemur á óvart í sögunni, og spennan helst þannig alveg fram á síðustu síður. 

Grátóna myndir eftir Elías Rúna ná vel að fanga draugaganginn og ýta undir hrollvekjuna, myndirnar eru skuggalegar þar sem má sjá Flóka og Lottu bregða fyrir á þeim.

Sagan einblínir aðallega á draugana tvo, annars vegar frá þeirra eigin svolítið brenglaða sjónarhorni og svo frá sjónarhorni þeirra sem verða á vegi þeirra, stundum oftar en einu sinni. Tengingin við þjóðsögur er skemmtilega útfærð og gefur sögunni ákveðna dýpt, á meðan sögusviðið Smáralind er nútímalegt og tengir söguna við veruleika sem flestir þekkja og gerir þennan hversdagslega stað svolítið framandi og óhugnanlegan.
 

María Bjarkadóttir, nóvember 2023