Beint í efni

Rökkurbýsnir eftir Sjón keppir um IFFP-verðlaunin

Ensk þýðing skáldsögunnar Rökkurbýsnir eftir Sjón hefur komist í lokaúrval bresku bókmenntaverðlaunanna Independent Foreign Fiction Prize. Bókin kom út á ensku í fyrra hjá bókaforlaginu Telegram, undir titlinum From the Mouth of the Whale í þýðingu Victoriu Cribb, og hefur hlotið afbragðsdóma hjá breskum bókmenntagagnrýnendum. Fimmtán tilnefndar bækur voru tilkynntar í mars síðastliðnum. Nú hefur listinn verið tálgaður niður í sex titla og hafa ekki ómerkari rithöfundar en Haruki Murakami, Amos Oz og Peter Nadas heltst úr lestinni. Meðal annarra rithöfunda sem hafa náð hafa inn í lokaúrvalið auk Sjóns eru Umberto Eco, Judith Hermann og Diego Marani. Verðlaunin eru veitt þýddum skáldverkum sem þykja hafa skarað fram úr á breskum bókamarkaði á liðnu ári. Þau eru einstök að því leyti að höfundurinn og þýðandinn deila hróðrinum jafnt og undirstrika því mikilvægi þýðinga í að brúa bilið milli tungumála og menningarheima. Höfundurinn og þýðandinn sem bera að lokum sigur úr býtum hljóta að launum 5.000 pund hvor. Frekari upplýsingar um verðlaunin má nálgast  hér.