Listasafn Reykjavíkur opnar sýningu í Ásmundarsafni 11. maí næstkomandi helgaða verkum Ásmundar Sveinssonar sem vísa með einum eða öðrum hætti í bókmenntir og sagnahefð. Mánudaginn 20. maí, á 120 ára afmælisdegi Ásmundar, verður frítt inn á safnið í tilefni dagsins. Sýningin stendur yfir til 30. desember 2013. Ásmundur Sveinsson (1893–1982) fór mismunandi leiðir í listsköpun sinni og sótti m.a. innblástur í helgisögur, goðsagnir, Íslendingasögur og þjóðsögur. Á sýningunni gefur að líta 20 höggmyndir í eigu Listasafns Reykjavíkur sem eru allar til vitnis um þann mikla sögumann sem Ásmundur Sveinsson var. Meðal verka á sýningunni er hið magnaða verk Helreiðin en Ásmundur sagði m.a. um það: ,,Þetta er draugurinn frá Hel, stríðsguðinn. Hann er auðvitað á hesti úr Hel. Þegar ég gerði fyrstu skissurnar að Helreiðinni hafði ég þjóðsöguna um Djáknann á Myrká í huga. En svo fannst mér ég þurfa að sleppa konunni og þá varð úr þessu Helreiðin, sótt í Eddu: Hel á allt. Allt er vígt dauðanum, blóm, jörð og menn.“ Verkin á sýningunni eru unnin á árunum 1922-1968 og sýna flest tiltekna atburði. Hver mynd er ákveðið tímaskeið, oftast það dramatískasta og áhrifamesta úr hverri sögu. Ásmundur velur dauðastund Grettis úr Grettissögu í verkinu Dauði Grettis, í verkinu Davíð og Golíat sýnir Ásmundur þegar Davíð þeytir völunni í höfuð Golíat og í verkinu Móðir mín í kví kví sjáum við þegar barnið birtist móðurinni.