Beint í efni

Sálumessa: í fimm þáttum

Sálumessa: í fimm þáttum
Höfundur
Ari Trausti Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Í Sálumessu tekur Ari Trausti fyrir fimm tímabil í sögu landsins og skrifar út frá þeim langar smásögur eða eiginlega fimm nóvellur. Þættirnir gerast á söguöld, um Siðaskiptin, á fyrri hluta 19. aldar, snemma á síðustu öld og sá síðasti í nútímanum.

Í fyrsta þætti, Kyrie eleison – Drottinn, miskunna þú oss, segir frá Sæmundi fróða, fjölskyldu hans og lífinu í Odda. Sæmundur að gamlast og er með verki í skrokknum. Ari fróði kemur í heimsókn, það er spáð og spjallað um skólamál, klaustur, bækur og landsmálin, ekki langt í að landið lendi undir Noregskonungi. Satt að segja ekki mikið sem gerist en Ara Trausta tekst að fá lesandann með sér aftur í aldir.

Lacrimosa dies – Táraríkir dagar er önnur sagan og gerist í Klaustrinu að Þingeyrum um siðaskiptin, nánar tiltekið 1551-52, um það leyti er Jón Arason og synir hans voru vegnir í Skálholti. Það er sagt frá því er sótt eru lík þeirra feðga og flutt til Hóla. Þau höfðu fyrst verið grafin nærri kirkjunni Skálholti. Einnig segir frá drápinu á Christian Schriver eða Kristjáni skrifara en eins og segir í ævisögu Jóns Arasonar og fleiri ritum þá vógu Hólamenn hann og nokkra Dani aðra, „en talan geigar milli 9 og 14“ eins og segir í Herra Jón Arason eftir Guðbrand Jónsson. Lárentíus gestafaðir er í forgrunni sögunnar en Teitur Einarsson kemur oft við og skýrir honum frá suðurferðum þeirra Norðlendinga sem andsnúnir voru hinum nýja sið. Lárentíus er kyrr á sínum stað en leitar frétta hjá Teiti og fær. Að síðustu verður hann þó að yfirgefa staðinn og reyna að komast úr landi.

19. aldar sagan, Agnus dei – Guðs lamb, greinir frá Sigríði formanni sem rær frá Báreyri. Lýst er lífsháttum í sjóbúðum og björgunarstörfum en óveður skellur á og margir á sjó. Frá þessari verstöð er að rísa þorp og breyttir tímar með þilskipaútgerð í sjónmáli.

Persónan Jón Ármann, sem segir frá í sögunni Lux aeterna – Eilíft ljós, er að einhverju leyti byggð á Jóni Ósmann sem var ferjumaður við Vesturós Héraðsvatna í Skagafirði. Um hann var ort: Við sérhvert handtak frár og fix, / á flestu hefur gætur, / sem Karon fyrr við fljótið Styx, / hann ferjar daga og nætur.” Um fróðlega ævi Jóns Ósmanns ritaði Kristmundur Bjarnason. – Sagan segir frá síðustu dögunum í starfi ferjumannsins um það leyti þegar brúarsmíði er að ljúka. Þetta er albesta saga bókarinnar og sú sem helst situr eftir í sinni. Þarna tekst höfundi afar vel í persónusköpun. Maður sér þennan margræða risa ljóslifandi fyrir sér.

Síðasti þáttur bókarinnar, Libera me – Bjargaðu mér, kemur inn á breytingar í samfélaginu sem eiga sér stað um þessar mundir. Innflytjendur af ýmsum þjóðernum eru fleiri en nokkru sinni en fjöldi Íslendinga er að flytja úr landi vegna afleiðinga kreppunnar. Kona á miðjum aldri kemst í kynni við ungan mann af pólsku/rómönsku þjóðerni og segir af samskiptum þeirra og fjölskyldulífi beggja.

Allar eru þessar sögur dágóðar aldarfarslýsingar. Hver um sig gerist á umbrotatímum í sögu þjóðar. Eða eru kannski allir tímar umbrotatímar? Málfarið er fallegt og virðist hverju sinni hæfa vel umfjöllunarefninu. Þær rísa ekki svo mikið né hníga, sögurnar, heldur eru meira svona hægfljótandi. Sérstaklega er náttúrufari vel lýst. Kannski engin undur ef litið er til höfundar.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2011