Með Ferðalokum styrkir Arnaldur Indriðason þann grun að krimmakonungurinn ætli að gera sögulegar skáldsögur að varanlegri aukabúgrein á ritvelli sínum. Ekki ósvipað kartöflunum sem fjárbóndinn og hákarlafangarinn Sigurður á Geirseyri setur niður í Sigurverkinu, innblásinn af Birni í Sauðlauksdal og undir hæðnisflissi frá íhaldssamari sveitungum sínum.
Ferðalok og Sigurverkið eru steyptar í svipað mót formlega séð. Tveimur sögum vindur fram í hvorri. Annarri í „núi“ sögunnar meðan hin er upprifjun sem atburðir í núinu draga fram í hugskoti aðalsöguhetjunnar. Upprifjaða sagan er í báðum tilfellum glæpasaga og gerist á Íslandi en rammasagan í Kaupmannahöfn. Báðar fjalla þær um Íslendinga þar í borg á fyrri hluta nítjándu aldar, sú nýja nokkrum áratugum eftir að Jón úrsmíðameistari Sívertsen kom klukku Danakonungs í gagnið á ný undir lok Sigurverksins, og lauk við harmsöguna af föður sínum og heitkonu hans sem lenda í tannhjólum Stóradóms og siðlauss yfirvalds.
Sakamálasögurnar í þessum sögulegu bókum Arnaldar byggja vitaskuld brú yfir í hinn glæsta feril hans sem á því sviði, auk þess sem tvöföld tímalína af þessu tagi er algeng í þeirri grein, og þá líka í krimmum Arnaldar.
Að þessu sinni er Arnaldur með öllu frægari mann fyrir miðju en í Sigurverkinu. Í upphafi Ferðaloka rankar listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, við sér í fleti sínu við St. Pederstræde eftir að hafa skreiðst þangað illa meiddur. Eftir erfiða nótt gerir hann loksins vart við sig og er fluttur á sjúkrahús þar sem honum hrakar hratt, opið fótbrotið bætist þar ofan á bágt ásigkomulag almennt, í boði drykkjuskaps og vosbúðar. Við vitum öll hvernig sú saga endar.
Áður en að því kemur gefst honum þó tími til að rifja upp eitt og annað af ævi sinni. Flest sem fangar huga hans er dapurlegt, svo sem Voðaatburðurinn þegar efnismaðurinn Skafti Tímóteus fer í síkið, og Jónas telur sig eiga nokkra sök á að svo fór. Kátleg smásaga um aðdraganda að viðreynslu ævintýraskáldsins H.C. Andersen við okkar mann er af öðru tagi. Mest staldrar Jónas þó við sumarið 1828 og tvo lykilatburði sem þá gerast.
Annars vegar heimferðin norður í Öxnadal í fylgd séra Gunnars Gunnarssonar og Þóru dóttur hans, ástin sem kviknar á milli þeirra en fær ekki hljómgrunn hjá hinum ábyrga föður. Á banasænginni fyllist Jónas efasemdum um að hann hafi gert rétt í að hella tilfinningum sínum og minningum um þessa örlagaferð í kvæði sem verið er að þrykkja í prentsmiðjunni ásamt öðru efni í áttunda tölublað Fjölnis.
Öllu plássfrekari er þó minning um voðaatburð sem verður í dalnum þetta sumar. Þorkell Pálsson, pasturslítill sveimhugi sem bláfátækir foreldrar hafa komið fyrir hjá vandalausum, hverfur sporlaust. Honum er vel trúandi til að hafa farið sér að voða upp á eigin spýtur, en kannski síður til að hafa strokið í aðrar sveitir, þó flest voni að það sé skýringin á hvarfi hans.
Skapbræði húsbónda hans er vel þekkt og fljótlega fer af stað sveitaslaður um að sennilega hafi Keli fyrirfarið sér í örvæntingu vegna illrar meðferðar, ef Sigurður á Þverbrekku hafi ekki hreinlega ráðið honum bana í bræðiskasti.
Hvers vegna sækir þetta gamla mál svona á hinn dauðvona Jónas? Jú, hann þekkti Kela og gat að mörgu leyti speglað sín örlög í hans. Báða dreymdi um menntun og frama, aðeins öðrum þeirra auðnaðist að ná þeim markmiðum. Jónas hafði lofað að skrifa sveitunga sínum og segja frá lífinu í skólanum fyrir sunnan, en ekki sinnt því. Og síðast en ekki síst: hann hafði þetta sumar ort hið torskilda kvæði Galdraveiðina heima á Steinsstöðum, sem má túlka sem innlegg í umræðuna, ákúrur til þeirra sem eru „virkir í athugasemdum“ í dalnum, um hvað mögulega hafi gerst, og þar reynst á sinn myrka hátt taka svari hinna seku, eins og síðar átti eftir að koma í ljós. Það er skilningur Hannesar Péturssonar í ritgerð um Galdraveiðina, sem telja má líklegt að Arnaldur hafi stuðst að einhverju leyti við þegar hann spann þennan tiltekna þráð inn í Ferðalok sín.
Þungamiðja bókarinnar er samt óhjákvæmilega dauðastríð Jónasar sjálfs. Því er lýst af þeirri fáguðu og dálítið fjarlægu næmni sem öðru fremur einkennir stíl Arnaldar, sérstaklega þegar hann lýsir hörmungum og dauða, sem hann þarf auðvitað oft að gera.
Tvennt verður til að draga úr áhrifunum að þessu sinni. Annað er hvernig sjálf mynd skáldsins nær ekki alveg flugi. Kannski mest áberandi í samskiptunum við Konráð Gíslason. Þar vantar tilfinningahitann, og líka enduróminn af ærustuni, galgopahættinum. Og kannski umfram allt, málsniðið. Allar sletturnar og orðaleikina sem við vitum að einkenndi samskipti þessra manna. Alvöruþunginn sem ríkir hér er vissulega viðeigandi, en hvernig hefði hann getað litast af því sem við vitum um þá félaga? Það er eitthvað ófullnægjandi að svona svipmikið fólk tali eins og hverjar aðrar persónur í bók höfundar með jafn ráðandi stíl og Arnaldur Indriðason, eins ágætur og hann vissulega er.
Hitt er hvernig höfundur notar straum heimsókna að dánarbeði Jónasar til að koma á framfæri fróðleiksmolum. Vissulega er viðeigandi að líta yfir genginn æviveg við þessar kringumstæður, en þetta verður nokkuð áreynslukennt á stundum, sérstaklega þegar sögurnar eru laustengdar efninu og sterk tilfinning fyrir að þær séu rifjaðar upp til bragðbætis einvörðungu,
Dæmi um þetta eru frásögnin af doktorsvörn Þorleifs Repp, afglöp Finns Magnússonar í rúnarannsóknum sínum, og svo hvernig frægðarmönnum aldarinnar, t.d. Søren Kierkegaard og Charles Darwin, er skotið inn í frásögnina, að því er virðist til þess eins að skreyta hana.
Það hvernig Arnaldur rekur hið sorglega mál Kela, aðdraganda þess sem gerðist og teiknar upp í fáum skýrum dráttum persónuleika þeirra sem við sögu koma er síðan sterkasti þáttur bókarinnar. Þar er höfundurinn á heimavelli ef svo mætti segja. Þríeykið á Þverbrekku; Sigurður bóndi, Valgerður húsfreyja og ekki síst Stebbi vinnumaður, og samspil þeirra er spennuþrungið og trúverðugt. Sömuleiðis foreldrar drengsins. Og hvar er Arnaldur á skýrari heimavelli en að rekja og ráða í dularfull mannshvörf fyrr á tíð, líkt og hans frægasta sköpunarverk, rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur, er svo upptekinn af? Eins er Jónas sjálfur fléttaður inn í þessa ráðgátu og mögulega lausn hennar af hófstilltri fimi, án þess að ofbjóða trúgirni lesenda.
Það er eitthvað við Jónas Hallgrímsson sem rennur okkur alltaf úr greipum. Ekki ósvipað laxinum lævísa sem stekkur andartak inn í Galdraveiðina, en verður, ólíkt honum, ekki fanginn. Það tekst Arnaldi ekki fyllilega hér heldur, en örlög Kela, eftirmál þess, og djúp eftirsjá skáldsins, eftir ástinni sem rann honum úr greipum, skila sér vel í þessari bók.
Þorgeir Tryggvason, nóvember 2024