Wheeler Centre í Melbourne, Bókmenntaborg UNESCO í Ástralíu, efnir til alþjóðlegrar skáldadagskrár nú í maí undir heitinu Ten Writers, Five Double-Bills, þar sem erlendum skáldum er boðið að koma og kynna verk sín. Alls eru tíu erlend skáld á hátíðinni og er þeim skipt upp í fimm pör sem hvert fær sitt kvöld til að kynna sig og verk sín. Fyrsta parið er kynnt í kvöld, 14. maí, og er það tileinkað skáldum frá tveimur öðrum Bókmenntaborgum UNESCO, Dublin og Reykjavík. Teflt verður saman rithöfundunum Sjón og Roddy Doyle og segir í frétt frá Wheeler Centre að þar séu á ferð skáld sem vinni út frá arfleið sinni sem umbreytist á síðum bóka þeirra. Þeir nýti nærumhverfi sitt sem óþrjótandi sagnabrunn sem lifni við í meðförum þeirra. Spyrlar í kvöld eru þau Alan Brough rithöfundur og sjónvarpsmaður hjá ABC sjónvarpsstöðinni og Blanch Clark blaðamaður. Sjón þarf vart að kynna en eftir hann liggja margar skáldsögur og ljóðabækur. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín hér heima og erlendis, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2005. Skáldsaga hans, Rökkurbýsnir í enskri þýðingu Victoriu Cribb (From the Mouth of the Whale), er nú tilnefnd til Independent Foreign Fiction Prize í Bretlandi. Í kynningu Wheeler Centre er hann kallaður "rock 'n' roll renaissance" maður. Roddy Doyle er einnig þekktur hérlendis en þrjár bóka hans hafa komið út í íslenskum þýðingum, Ég heiti Henry Smart sem Bjarni Jónsson þýddi (1999), Konan sem gekk á hurðir í þýðingu Sverris Hólmarssonar (1997) og Paddy Clarke, ha-ha-ha, einnig í þýðingu Sverris (1998). Sjá nánar á vef Wheeler Centre.
Sjón gestur Bókmenntaborgarinnar Melbourne
