Emmanuel Carrère er líklega þekktastur fyrir sögu sína Óvinurinn (2000, á íslensku 2002), sem hefur einnig verið kvikmynduð. Verk hans eru af ólíkum toga, en auk þess að skrifa bækur er Carrère þekktur sem kvikmyndagerðarmaður og handritshöfundur.
Skáldsagan Skíðaferðin er skrifuð nokkrum árum áður en Óvinurinn kom út, árið 1995, og fyrir hana hlaut höfundur hin virtu frönsku bókmenntaverðlaun Femine. Segja má að bókin sé í raun einskonar nóvella, stutt skáldsaga, og segir hún frá ungum dreng, Nicolas, og skólaferðalagi sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir líf hans. Nicolas er greinilega ofverndað barn og auðvelt skotmark eineltis í skólanum. Þegar hann fer í skíðaferðalag á vegum skólans virðist allt ætla að fara mjög illa: hann fær ekki að fara með rútunni heldur krefst faðir hans þess að keyra hann og því mætir Nicolas seint. Í ofanálag gleymir faðirinn að skilja farangur drengsins eftir þegar á leiðarenda er komið svo hann neyðist til að fá lánuð náttföt - nokkuð sem hann óar við því hann á það til að pissa undir. Þegar Nicolas vaknar með blautan og klístraðan kvið um miðja nótt verður hann svo miður sín að hann ákveður að farga sér frekar en að þurfa að takast á við niðurlæginguna og óttast sérstaklega fyrirlitningu hins hávaxna og dularfulla Hodkanns, sem er einskonar leiðtogi strákanna og Nicolas dáir mjög. Nicolar reikar út í kuldann og þarsem hann lognast útaf í aftursæti bíls eins kennarans sér hann ljós í skóginum. Sjálfsvígið misheppnast og Nicolas veikist bara svolítið. En svo kemur í ljós að drengur úr þorpinu er týndur.
Í öllum grundvallaratriðum er hér á ferðinni ósköp hefðbundin strákasaga um einelti og átök milli hins veikburða og hins sterka. Lesandi uppgötvar fljótt að eitthvað er ekki eins og það á að vera heima hjá Nicolas og sömuleiðis að samband hans við Hodkann er varhugavert. Sakamálahluti sögunnar er afar fyrirsjáanlegur þó vissulega sé reynt að gera sem flesta grunsamlega.
Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að Skíðaferðin sé ágætis bók. Tök Carrère á þessum hefðbundnu söguformúlum eru kannski ekki sérstaklega frumleg, en hann bætir það upp með fimi í meðhöndlun nóvelluformsins, en þrátt fyrir að bókin sé kannski í lengra lagi til að flokkast sem hreinræktuð nóvella er margt í byggingu hennar sem minnir á það form. Dæmi um þetta er hvernig sögunni er alltaf haldið innan marka skíðaferðarinnar, hún hefst þegar Nicolas stígur inn í skálann og endar þegar hann er keyrður til baka. Inní þetta blandast svo auðvitað minningar og baklit ýmis, auk einnar eftirminnilegrar senu úr framtíð, en sagan er sögð eins og um upprifjun væri að ræða. Carrère kemur miklu til skila í knöppu máli og dregur upp sterka stemningu óvissu og ógnar, sem hefst strax á fyrstu síðu og helst allan tímann.
Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2007