Bókavinningur í hverri viku í allt sumar og reiðskjóti í haust.
Borgarbókasafn og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO efna til sumarlesturs fyrir börn á öllum aldri í sumar. Allir krakkar geta verið með, en þátttakan felst einfaldlega í því að koma í eitthver af sex söfnum Borgarbókasafns þegar bók hefur verið lesin og skrifa nafn sitt, aldur og heiti bókar, ásamt símanúmeri, á blað í formi sólargeisla og koma því fyrir á lestrarsólinni sem skáldfákurinn Sleipnir gætir í söfnunum.
Allar bækur eru gjaldgengar, hvort sem þær hafa verið fengnar að láni í safninu eða ekki, en í Borgarbókasafni er úrval bóka við allra hæfi og börn og unglingar fá þar frítt bókasafnsskírteini.
Vikulega verður nafn eins þátttakanda dregið út og fær hann bók að gjöf frá Forlaginu. Fyrsta nafnið verður dregið úr pottinum mánudaginn 25. júní og síðan bætist nýr verðlaunahafi við hvern mánudag í allt sumar. Í byrjun september verður svo dregið úr nöfnum allra þátttakenda sumarsins og fær einn ljónheppinn lesandi þá reiðskjóta frá versluninni Erninum.
Lestur býður svo sannarlega upp á skínandi skemmtilegt hugarflug í allt sumar og það er til mikils að vinna að vera með í sumarlestrinum.
Hægt er að taka þátt í öllum sex söfnum Borgarbókasafns: aðalsafni í Tryggvagötu 15, Ársafni í Hraunbæ 119, Foldasafni í Grafarvogskirkju við Fjörgyn, Gerðubergssafni í Gerðubergi 3-5, Kringlusafni sem er til húsa í tengibyggingu milli Kringlunnar og Borgarleikhússins og í Sólheimasafni, Sólheimum 27.
Skínandi skemmtilegt hugarflug
