Beint í efni

Skráning í bilað ljóðaslamm 2013 er hafin

Ljóðaslamm Borgarbókasafns og Bókmenntaborgarinnar verður haldið í sjötta sinn föstudagskvöldið 8. febrúar, á safnanótt, og hefst kl. 20.30. Þema slammsins þetta árið er BILUN.   Slammið er ætlað ungu fólki á aldrinum 15-25 ára og er skilgreint sem hverskonar ljóðagjörningur, þar sem áherslan er ekki síður lögð á flutninginn en á ljóðið sjálft. (Hefðbundinn ljóðaupplestur telst því ekki til ljóðaslamms). Keppendur fyrri ára hafa rappað, sungið, kyrjað, farið með stutta leikþætti og leiklesið undir myndefni eða dansi, svo eitthvað sé nefnt. Verðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin. Upptökum af siguratriðunum verður dreift á miðlum Borgarbókasafns og Bókmenntaborgarinnar. Skráningarfrestur er til 21. janúar. Hægt er að skrá sig í öllum útibúum Borgarbókasafns eða með því að senda póst á bjorn.unnar.valsson@reykjavik.is . Dómnefnd kvöldsins verður skipuð þeim Maríu Þórðardóttur, Óttarri Proppé, Ragnheiði Eiríksdóttur, Stefáni Mána og Úlfhildi Dagsdóttur. Kynnir verður Ugla Egilsdóttir.   Ljóðslamm er nú orðin einn af árlegum viðburðum á Borgarbókasafni. Keppnin fer fram á Safnanótt, í aðalsafni í Tryggvagötu 15 og er hún ætluð ungu fólki 15-25 ára. Ákveðið þema er hvert ár og hafa þau verið spenna, hrollur, væmni, sjálfstæði og myrkur. Hægt er að sjá upptökur af slömmum fyrri ára á vef ljóðaslammsins. Almenn viðmið fyrir þátttakendur (og dómnefnd):   Hvert atriði taki í mesta lagi 5 mínútur í flutningi. Ljóðið verður að vera á íslensku. Gæta verður velsæmis í orðbragði og þess að vera ekki særandi gagnvart einstaklingum og / eða hópum. Tæknimál verða að vera einföld (einn skjávarpi og tjald, ekki eru aðstæður fyrir sviðsmynd nema það sem fólk getur auðveldlega tekið með sér inn á sviðið).  Hámarksfjöldi í hóp: 5 manns. Nánari upplýsingar fást hjá Birni Unnari Valssyni bjorn.unnar.valsson@reykjavik.is, sími 411 6100.