Af bókarkápu:
Skrifstofu umdeilds fornleifafræðings er breytt í heiðinn blótstað og Embla Þöll er kölluð á vettvang. Þar með hefst æsispennandi háskaför sem dregur hana og kærasta hennar, Adam Swift sem lesendur þekka úr Hnífi Abrahams, djúpt ofan í heim svika, haturs og gamalla leyndarmála sem teygja sig aftur til landnámsmanna Íslands.
Sólkross er sagnfræðileg spennusaga sem sækir í víkingafortíð Íslendinga. Höfundurinn byggir bókina á róttækum kenningum um fyrstu landnámsmennina sem leiða lesandann í eltingaleik um týnd hof, norræna goðafræði, horfna kirkjugrunna og sífellt nær elsta leyndarmáli þjóðarinnar.
Úr Sólkrossi:
12. kafli
Það ríkti grafarþögn inni á skrifstofunni. Báðir lögreglumennirnir stoðu þöglir og biðu þess að Embla útskýrði hvað hún ætti við - hvernig hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að glæpurinn hefið ekki verið framinn í flýti vegna þess að í dag væri miðvikudagurinn 21. mars.
,,Á vorjafndægrum hófust víkingaferðir á ný eftir veturinn og mönnum og dýrum var þá fórnað til heiðurs Óðni, útskýrði Embla og það small í hælum stígvélanna þegar hún gekk um ljóst parketið. ,,En það er ekki nóg með að vorjafndægur séu í dag, heldur eru þau á sjálfum degi Óðins, Miðvikudegi.
Það tók Grím ekki langan tíma að átta sig á því hvað hún átti við. hann tók gleraugun af sér og lagði æðabera höndina ofan á sköllótt höfuðið. ,,Hvaða geðsjúkling eigum við eiginlega í höggi við? hvíslaði hann og starði tómlega í gaupnir sér.
,,Hvað áttu við með degi Óðins? spurði Hörður aftur á móti, augljóslega ekki eins vel að sér í mannkynssögu og hin tvö.
,,Dagarnir eru nefndir eftir norrænum guðum hér í Norður-Evrópu, svaraði Embla, ,,og það sama gilti á Íslandi þangað til íslensku vikudögunum var breytt í núverandi horf. Embla sleppti því að útskýra að Jóni Ögmundarsyni biskup fannst ganga guðlasti næst að kenna íslensku vikudagana við heiðin goð og linnti því ekki látum fyrr en hann fékk nöfnum þeirra breytt. ,,Þetta sést ennþá vel í tungumálum eins og dönsku. 'Tirsdag' er nefndur eftir Tý, 'Torsdag' eftir Þór, 'Fredag' eftir Frey og 'Onsdag' - miðvikudagur - eftir Óðni.
,,Ætlun morðingjans virðist þá ekki fara á milli mála, er það nokkuð? spurði Hörður.
Embla var ekki hætt, því skyndilega smellpössuðu öll brotin saman. ,,Vorfórnir til Óðins voru stríðsfórnir. Þá hófust stríðsferðir víkinganna. Það tíðkaðist líka að fórna stríðsmanni í upphafi stríðs svo víkingarnir hlytu blessun Óðins, enda var hann stríðsguð og guð dauðans.
,,Áttu við að þetta sé ... stríðsfórn? spurði Hörður hlessa og leit á kringum sig, á illa útleikna skrifstofuna. Óhugnaður málsins og dulúðin sem því fylgdi virtist engan endi ætla að taka.
,,Hugsanlega, svaraði Embla.
,,En í hvaða stríði? bætti Hörður við.
,,Því miður, sagði Embla og leit spekingslega í kringum sig. Í aðra röndina var hún glöð, í raun stolt yfir því að hafa tekist að ráða glæpinn, en hins vegar fann hún enn meira til með Grími. ,,Ég get ekki svarað því. Hún hafði varla sleppt orðinu þegar þau heyrðu öskur fyrir utan húsið, einhvern kalla ,,stoppaðu! og loks fótatak upp steintröppurnar við hús Baldurs. Örskömmu síðar sáu þau ljóshærðan strák með svört plastgleraugu og farsíma hátt á lofti birtast í anddyri hússins og á fætur honum komu tveir lögregluþjónar askvaðandi.
,,Við eigum rétt á að fá að vita sannleikann! sagði Valgarð hátt og stefndi hratt að Herði, Grími og Emblu - að skrifstofu Baldurs - og beindi farsímanum að þeim.
,,Stöðvið hann! öskraði Grímur samstundis, tyllti gleraugunum aftur á nefið á sér og strunsaði á móti stráknum. Það mátti ekki leka í fjölmiðla hvað hafði gerst inni á skrifstofu Baldurs.
,,Hvað kom fyrir bróður þinn? spurði Valgarð, bersýnilega búinn að kynna sér málið í þaula. ,,Stangast það ekki á við vinnureglur að þú sért að vinna í málinu? Voruð þið Baldur nánir? Hvernig líður þér? romsaði fréttasnáðinn upp úr sér á hlaupunum.
,,Ekki leyfa honum að komast hingað inn! öskraði Grímur á lögreglumennina handan stráksins.
Þegar Valgarð sá blóðpollinn á gólfinu undir víkingasverðinu beindi hann farsímanum umsvifalaust að honum og tók upp á innbyggðu kameruna. ,,Þið getið ekki komið svona fram við okkur. Við búum við lýðræði og málfrelsi! öskraði hann í von um að milda skaposfsa Gríms og hinna lögreglumannanna, enda var hann króaður af og vissi að hann yfirgæfi ekki heimili Baldurs nema í fylgd þeirra.
Annar lögreglumannanna kom upp að Valgarð, greip um axlir hans og reif svo farsímann af honum.
,,Hvað ertu að gera? Þú hefur engan rétt til að taka eignir mínar af mér! Þetta er ekki fasistaríki! öskraði hann.
Grímur strunsaði upp að fréttamanninum unga og augu hans skutu eldi og brennisteini. ,,Nei, þú ert heppinn, því annars værirðu núna á leiðinni á aftökupallinn! æpti hann, hrifstaði í peysu stráksins og togaði hann leifturhratt að sér. ,,Hvað í fjandanum heldurðu að þú sért að gera?! spurði hann jafn hátt og áður og frussaði um leið framan í fréttamanninn.
,,Færa Íslendingum sannleikann ... svaraði Valgarð ósannfærandi, linur af ótta vegna nærverunnar við þennan gamla jálk. Hann þurrkaði ekki slefið úr andlitinu á sér.
Við látum ykkur vita þegar við vitum eitthvað, skilurðu? Í hundraðasta skiptið! sagði Grímur og herti takið um hálsmál stráksins svo mjóslegni skrokkurinn hans virtist ætla að hverfa inn í sjálfan sig.
,,Já, svaraði Valgarð, jafn aumingjalega og áður. Munnvatnið úr Grími var ennþá framan í honum og byrjað að leka niður eftir enninu.
,,Gott, sagði Grímur og leit á lögreglumennina tvo sem elt höfðu Valgarð inn í íbúðina. ,,Farið með hann niður á stöð.
,,Ha? hváði Valgarð hissa og þurrkaði loks bleytuna af enninu. ,,Ætlarðu að handtaka mig?
,,Nei, svaraði Grímur og sleppti takinu af peysunni. ,,Líttu frekar á það sem tækifæri til að fjalla um öryggisgeymslur lögreglunnar. Spennandi? Svo sneri yfirmaðurinn sér aftur við og þrammaði inn á skrifstofu Baldurs, án þess einu sinni að gefa því gaum þegar lögreglumennirnir leiddu Valgarð út úr húsinu.
(49-51)