Steinunn Kristjánsdóttir hlaut í gær Viðkenningu Hagþenkis fyrir árið 2017 við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Viðurkenninguna fær Steinunn fyrir rit sitt Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:
„Það eitthvað þægilega spennandi við bækur sem bera titil sem byrjar á orðunum Leitin að... Við förum í ákveðnar stellingar…
Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur hefur nú bæst við. Okkur í viðurkenningarráðinu þótti það heldur betur góð bók – og já, hún er líka spennandi og fær mann til að hugsa á nýjan hátt um lífið og tilveruna á Íslandi á fyrri öldum. Útgefandi bókarinnar er Sögufélag í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Eins og þekkt er vann Steinunn ítarlega og merka rannsókn á klaustrinu að Skriðu í Fljótsdal. Bókin sem nú er verðlaunuð fjallar um rannsókn hennar á „hinum“ klaustrunum. Markmið Steinunnar með rannsókninni var að leita nýrra heimilda um klaustur á Íslandi og rekja sögu þeirra með öllum tiltækum heimildum og nútíma tækni sem stendur fornleifafræði til boða. Sérstök áhersla var á leifar klaustranna í jörðu.
Afrakstur rannsóknarinnar varpar nýju ljósi á sögu kirkjunnar og hugmyndir manna um mikilvægt hlutverk klaustra í íslensku samfélagi. Með rannsókninni er auk þess lagður traustur grunnur að frekari klausturrannsóknum.“
Steinunn Kristjánsdóttir sagði meðal annars í þakkarræðu sinni:
„Mér er það sannur heiður að taka við Viðurkenningu Hagþenkis hér í dag fyrir bók mína, Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Ég lít á viðurkenninguna sem staðfestingu þess að efnislegar leifar geti ekki síður en skjöl – eða aðrar heimildir – varpað ljósi á sögu okkar og fortíð. Þetta kann að hljóma sjálfsagt í eyrum margra en það er ekki svo því gjarnan er litið þannig á að það sem ekki hefur verið skráð eða skrifað niður sé hreinlega ekki til. Að bein sjúklings með sárasótt segi minna en skjal um kaup á jörð. Eða eins og að þjóð án ritmenningar eigi sér enga sögu. Í mínum huga segja varðveitt skjöl aðeins hálfa söguna, rétt eins og bein sjúklingsins. Sem fornleifafræðingur vil ég halda því fram að hinar efnislegu leifar – efnismenningin – veiti jafnan upplýsingar um hversdaginn á meðan þær rituðu sýni öðru fremur hvernig lífið og tilveran hefði átt á að vera: hið æskilega líf út frá sjónarhorni þess sem skráði. Hafa ber sömuleiðis í huga að sá sem stundar fræðistörf hefur alltaf val um nálgun á viðfangsefni sín. Ekkert ratar til dæmis af sjálfsdáðum á spjöld sögunnar því hún er sjálf sett saman og mótuð af þeim sem hana ritar.“
Hagþenkir - félag höfunda fræðirita og kennslugagna
Hagþenkir– félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings.
Viðurkenningarráð Hagþenkis 2017 er skipað fimm félagsmönnum: Auður Styrkársdóttir, Helgi Björnsson, Henry Alexander Henrysson, Guðný Hallgrímsdóttir, Sólrún Harðardóttir.
Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna getur hlotnast. Öll fræðirit og námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem komu út á íslensku árið 2017 komu til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum.
Tilnefndir höfundar árið 2017, rit og ályktunarorð:
Aðalheiður Jóhannsdóttir. Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd. Háskólaútgáfan. Heildstætt rit um flókinn heim skipulagsréttar. Handbók sem gagnast bæði lærðum og leikum.
- Ásdís Jóelsdóttir. Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun. Háskólaútgáfan. Margþætt rannsókn í textílfræði sem lýsir samspili handverks, hönnunar og sögu prjónaiðnaðar í fallegri útgáfu.
- Egill Ólafsson † og Heiðar Lind Hansson. Saga Borgarness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna. Borgarbyggð og Opna. Áhugaverð saga sem á sér skýran samhljóm í þróun Íslandsbyggðar almennt, studd ríkulegu og fjölbreyttu myndefni.
- Hjálmar Sveinsson og Hrund Skarphéðinsdóttir. Borgin – heimkynni okkar. Mál og menning. Fróðleg hugvekja og framlag til þjóðfélagsumræðu um skipulag, lífshætti og umhverfismál í borgarsamfélagi.
- Stefán Arnórsson. Jarðhiti og jarðarauðlindir. Hið íslenska bókmenntafélag. Einstaklega ítarlegt rit um auðlindir í jörðu og brýn áminning um að huga að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðæfa.
- Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Háskólaútgáfan. Skýr og aðgengileg greining á þróun eigna og tekna á Íslandi og misskiptingu auðs í alþjóðlegum samanburði.
- Steinunn Kristjánsdóttir. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands. Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.
- Unnur Jökulsdóttir. Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Mál og menning. Óvenju hrífandi frásagnir af rannsóknum við Mývatn og sambandi manns og náttúru.
- Úlfar Bragason. Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Háskólaútgáfan. Næm lýsing á sjálfsmynd, væntingum og viðhorfum vesturfara við aðlögun þeirra að samfélagi og menningu Norður-Ameríku.
- Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Sögufélag. Aðgengilegt og vel skrifað rit sem sýnir hvernig vinnufólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hversdagslegu andófi og óhlýðni.
Viðurkenningarhafar og rit frá upphafi er hægt að sjá hér.