Eins kvölds sýning í herbergi 403 á Hótel Holti
Laugardaginn 27. júlí kl. 17 opnar sýningin Subtitles á herbergi 403 á Hótel Holti við Bergstaðastræti. Höfundar hennar eru þær Eva Kretschmer og Ulrike Olms, þýskar listakonur sem eru staddar í Reykjavík á vegum Goethe stofnunnar í Kaupmannahöfn og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.
Sýningin stendur aðeins til miðnættis þennan sama dag. Þetta er því eins konar „pop-up“ sýning sem verður ekki endurtekin, ekki hér á landi að minnsta kosti. Þær stöllur sýna stutt myndbandsverk kl. 17:30 í sjónvarpi svítunnar þar sem þær kynna vinnu sína.
Þýska sendiráðið býður upp á léttar veitingar.
Eva og Ulrike hafa dvalið í Reykjavík síðastliðnar sex vikur og halda brátt aftur heim til Berlínar. Þær vinna að verki sem byggir á gömlum ljósmyndum sem þær safna frá einstaklingum, meðal annars hér á landi. Á sýningunni verða myndir sem þær hafa safnað á Íslandi ásamt textum sem þær og aðrir hafa bætt við myndirnar.
Hér má lesa viðtal við Evu og Ulrike í Fréttatímanum.
Allir eru hjartanlega velkomnir á sýninguna.