Beint í efni

Sumarhrollur

Sumarhrollur
Höfundur
Quentin Bates
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Glæpasaga sem gerist á Íslandi. Í sumarlok verður meinleysislegur smiður, sem stundum tekur að sér verkefni á mörkum gráa hagkerfisins, aðgangshörðum handrukkara að bana í nauðvörn og felur líkið. Handrukkarans er saknað, mannshvarf tilkynnt til lögreglu og rannsóknarlögreglumennirnir Gunnhildur og Helgi fá málið í sínar hendur. En hinn horfni átti einnig sína félaga úr undirheimum sem nú vilja jafna metin og einn þeirra fer að leita að morðingjanum. Brátt er lögreglan á hælum beggja manna en smiðurinn er alltaf skrefinu á undan. Mun hann sleppa úr netinu sem stöðugt þrengist að honum? 

Sumarhrollur er fimmta bókin um lögregluforingjann Gunnhildi sem kemur út á íslensku.

Úr bókinni

Logi var mættur snemma og sötraði bjórinn sinn hægt, vitandi vits að Danni yrði hvort eð er seinn fyrir. En það var þægilegt að slappa af eftir langan vinnudag á gamla sveitabænum. Þetta var meiri erfiðisvinna en hann kærði sig um þessa dagana, en fjandinn hafi það, launin voru góð og hann þurfti svo sannarlega á þeim að halda ef miðað var við þau símtöl og textaskilaboð sem Sandra lét dynja á honum um hvað krakkarnir þyrftu. Hann dreypti á bjórnum og fylgdist sér til skemmtunar með hópi ungra kvenna sem troðið höfðu sér umhverfis borð utandyra með sífellt meiri skrækjum og gargi eftir því sem þær urðu drukknari.
   Hann var hundleiður á blankheitunum, á því að eiga aldrei neitt aukreitis í bankanum sem varaforða, á því að þurfa að nurla saman lifibrauði með því að ná rétt svo í tæka tíð að stökkva úr einni íhlaupavinnu í aðra. Sem hæfur smiður með sveinspróf í farteskinu ætti hann að geta séð sér farborða, en óvarkárni og misheppnaður atvinnurekstur fyrir nokkrum árum hafði leitt til þess að fólk réð hann ekki í stærri verkefni og hann vissi að erfiðleikar hans við að hafa stjórn á skapinu höfðu oftar en einu sinni komið honum í koll.
   Hugur hans snerist aftur um byssuna sem hafði fundið fyrr um daginn og hann velti fyrir sér hvað hann ætti að gera við hana. Sú hugsun hvarflaði ekki að honum eitt andartak að skila henni inn og hann velti fyrir sér hvernig hann gæti gert sér mestan pening úr henni. Sem borgarstrákur hafði hann aldrei lært að umgangast skotvopn á jafn auðveldan hátt og frændur hans úr sveitinni sem höfðu dregið hann barnungan í fáeinar kaldar og blautar ferðir að veiða gæsir og rjúpu. Þótt hann vissi að það sem leyndist undir gólfinu í sveitabænum væri einhvers konar skammbyssa náði þekking hans á slíkum hlutum ekki mikið lengra.
   Hann heyrði í Danna áður en hann sá hann. Hneggjandi hlátur hans barst um allt og hafði komið barþjóninum til að hlæja, en kona aftan við barborðið hristi höfuðið og lét sem hún hefði ekki móðgast. Dann var enn hlæjandi þegar hann mjakaði sér áleiðis að glugganum þar sem Logi sat og fylgdist með hópi táningsstelpnanna fyrir utan verða sífellt háværari.
   "Þessi dökkhærða þarna, mundi ég halda," sagði Danni um leið og hann settist og dáðist að útsýninu. "Og síðan þessi granna þarna næst."

(s. 11-12)

Fleira eftir sama höfund