Kristín Ómarsdóttir hefur sent frá sér smásögur, skáldsögur, leikrit og ljóð og má segja að höfundareinkenni hennar skíni skýrt í gegn í öllum formum. Sagnaheimur hennar er uppfullur af undrum, fegurð, grimmd og ofbeldi en líka blíðu – þess konar blíðu sem aldrei er tilfinningasöm. Persónur hennar eru gjarnan á jaðrinum – þótt þær hafni þar af mismunandi ástæðum. Eða kannski væri réttara að segja að fólkið sem hún skrifar um sé alls konar en verði óvenjulegt í því ljósi sem Kristín varpar á það, þannig reynist róninn á bekknum ekkert undarlegri en pena miðaldra konan sem vinnur hjá ríkinu og þegar leiðir þeirra liggja saman geta þau ræðst við sem þeir jafningjar sem þau sannarlega eru frammi fyrir höfundinum og almættinu.
Í Svanafólkinu segir af Elísabetu Evu Unnardóttur og Rúnars sem vinnur við eftirlit hjá leynilegri sérdeild innanríkisráðuneytisins. Elísabet er mikil göngumanneskja og það er á einni göngu sinni út fyrir borgarmörkin sem hún rekst fyrst á svanafólkið – verur sem búa við vatnið og eru álftir að neðan en manneskjur að ofan. Fyrstu viðbrögð Elísabetar eftir fundinn eru að bruna á Bráðamóttökuna í heilaskanna þar sem hún telur sig haldna ranghugmyndum en þar sem allar rannsóknir koma eðlilega út virðist varla annað að gera en að taka mark á sýnunum. Þrátt fyrir að fundir þeirra séu ekki átakalausir finnur Elísabet sig sífellt knúna til að snúa aftur til Svanafólksins en um leið reynist henni erfiðara að halda takti í vinnunni – þar sem hún er m.a. að vinna að skýrslu um uppistand í borginni og enn erfiðara að mæta yfirkonu og hálfgildings vinkonu sinni, Selmu Mjöll.
Sögusviðið er ónefnd borg sem gæti verið önnur útgáfa af Reykjavík en sú sem við þekkjum úr síðdegisfréttunum. Þetta er hliðstæður veruleiki og ekki af því þar finnist verur sem eru hálfar álftir og hálfar manneskjur – þær eru alveg jafn mikið furðuverk þar og þær væru hér. Það er fremur stjórnarfarið sem skilur veruleikana að; í Svanafólkinu býr fólk við mikið eftirlit, undarlegt dómskerfi og vafasama löggæslu – en sennilega lætur höfundurinn lesandanum það eftir að ákveða hversu líkur heimur Svanafólksins er okkar heimi.
Elísabet er einstæðingur. Foreldrar hennar hurfu á málþingi þegar hún var tólf ára gömul og hún og bróðir hennar stóðu ein eftir. Nú er eins og eini vottur af fjölskyldu sem hún á eftir sé fjölskylduvinur, tannlæknir, sem hún gengur til og vísar raunar mörgum sem á vegi hennar verða til sömuleiðis, með misjöfnum árangri. Hún leitar líka alltaf Æsu, systurinnar sem hún og bróðir hennar ímynduðu sér að þau ættu – enda efast hún stórlega um að það verði að vera hefðbundinn getnaður manns og konu að baki öllum fjölskyldutengslum.
Þótt söguheimur Kristínar sé að mörgu leyti heimur furðu og undra eru samt alls staðar vísanir í okkar heim. Deildin sem Elísabet vinnur í er svo leynileg að nákvæmlega hverju hún hefur eftirlit með er aldrei alveg skýrt en alræðisleg stemning liggur í loftinu: „Á ársfjórðungsfresti héldum við Selma í eftirlit á sjúkrahúsin en sérdeildinni bar að fylgjast með því að réttu ástandi væri viðhaldið á sjúkrahúsunum í borginni, að úrvalið af drykkjarvörum í sjálfssölunum héldist takmarkað og sitthvað fleira var það sem við fylgdumst með og ég ætti ekki að tjá mig um, bundin ævilangri þagnarskyldu“ (174) segir hún en hefst um leið handa við að tjá sig um það í beinskeyttu máli sem skýtur föstum skotum að heilbrigðiskerfinu.
Það skýtur reyndar dálítið skökku við að manneskja sem er jafn upptekin af sannleikanum og frelsinu og Elísabet sé komin í svo góða stöðu innan kerfis sem hún hlýtur að vera í stöðugri andstöðu við en á móti kemur að hún er afskaplega fær í því að segja það sem hún telur að fólk vilji heyra – eiginleiki sem þó virðist ekki hjálpa henni í samskiptum við Svanafólkið. Kannski er það ein ástæða þess að hún dregst að þeim. Svanafólkið er bæði menn og dýr og sýna einkenni beggja – þau eru góðir gestgjafar og bjóða Elísabetu til borðs – eða grass – með sér en það er einnig stutt í ofbeldi ef því er að skipta. Elísabet lætur ofbeldið þó ekki stoppa sig í að heimsækja þau aftur og aftur – rétt eins og um sé að ræða hest sem slær til hennar eða hund sem bítur. Hún álítur mögulega að sökin sé hjá sér þegar þau snúast gegn henni – þetta eru jú villt dýr, ekki tamin og hún þarf að fara rétt að þeim.
En einnig má stilla samskiptunum þannig upp að Elísabet leiti aftur til kvalara sinna af því hún sé á einhvern máta brotin, finnist hún eiga refsinguna skilið. Enn önnur skýring er sú að hjá Svanafólkinu sé ofbeldið svo tært og skiljanlegt – ólíkt því þegar kerfið sem hún er hluti af beitir hana ofbeldi. Ofbeldi er auðvitað ekki bundið við villt dýr, manneskjan er sjálf dýr og beitir ofbeldi, en þegar ofbeldi er framið af manneskjum en í nafni kerfisins verður það að hættulegu skrímsli sem við þekkjum víða úr veraldarsögunni. Og það þarf ekki að minna á að slík skrímsli geta stungið upp kolli hérna megin bókar.
Manneskjurnar í bókum Kristínar eru gjarnan sögufólk, Elísabet er sögukona og sömuleiðis fólkið í innanríkisráðuneytinu en Svanafólkið reynist líka vera mikil söguþjóð. Stundirnar sem hún dvelur hjá þeim fyrir utan borgarmörkin minna á köflum á grísk heimspekikvöld skráð af Platóni. Þau sitja saman við vatnið, súpa á ormavíni og narta í eitthvað mis-huggulegt úr gnægtarbrunni náttúrunnar og ræða málefni eins og sannleikann og lygina frá öllum sjónarhornum. Sama á við um samræður sem myndast í vinnuhópnum í ráðuneytinu þar sem ástin og lýðræðið eru meðal umræðuefna. Þessar samræður eru á köflum ansi langar í annan endann en óneitanlega sitja sumar setningarnar eftir að lestri loknum: „Ríkisstyrkir græða sárin sem kapítalisminn skilur eftir“ (127).
Skáldsagan skoðar þannig frásagnir en líka ritaðar sögur þar sem Elísabet veltir fyrir sér myndlíkingum og samlíkingum og vitnar gjarnan í „Handbók fyrir rithöfunda“ þar sem ýmsan fróðleik má finna. Stundum stendur skáldsagan hreinlega sjálfa sig að verki og stoppar sig af: „Veður voru stillt, skýin mjólkurhvít og þung og minntu ekki á brjóst kvenkyns spendýra“ (170). Hér má líka öðrum þræði finna rannsókn á tungumálinu og orðin sjálf eru viðfang persónanna sem velta endalaust fyrir sér merkingu þeirra en ekki síður hljómi, prófa þau á tungunni, setja þau saman og snúa þeim við þannig að stundum kallast textinn á við ljóðið dýra „Únglínginn í skóginum“ eftir Halldór Laxness.
Það má segja að Svanafólkið sé í senn rannsókn á mannfólkinu og hvað það er sem gerir okkur að manneskjum og um leið á tungumálinu – helsta einkenni mannskepnunnar – og hvernig það dugar okkur til skilgreiningar á heiminum og tjáningar á sjálfinu. Í þessari rannsókn eru margir ranghalar og stundum týnir lesandinn áttum en mannúðin og kómíkin sem reka sífellt upp kollinum í textanum draga hann að landi og vísa leiðina áfram.
Maríanna Clara Lúthersdóttir, nóvember 2019