Beint í efni

Svartur á leik

Svartur á leik
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Svartur á leik í þessari skáldsögu Stefáns Mána, þar sem fjallað er um undirheima Reykjavíkurborgar, glæpi og ofbeldi, undirmálsfólk og lögbrjóta. Þetta er því glæpasaga sem þó sker sig að verulegu leyti frá öðrum íslenskum glæpasögum. Stefán Máni lýsti því í viðtölum fyrir útgáfu bókarinnar hvernig hann lagðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á undirheimum Reykjavíkur við vinnslu hennar.

Kápumyndina hannaði myndlistarmaðurinn Jón Sæmundur Auðarson.

Svartur á leik var tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna, 2006.

Úr Svartur á leik

Þunglamaleg og rykfallin rimlagluggatjöld úr brúnu tré héldu vorbirtunni úti. Inni á Blúsbarnum var stofuheitt rökkur sem lyktaði af áfengi, tóbaki, tekkolíu og gömlum teppum. Á veggjunum voru snúnir koparlampar með grænum glerkúpli, fyrir innan barborðið voru upplýstar vínflöskur á glerhillum og yfir því héngu bjórkönnur á hangföngunum og vínglös á hvolfi. Í loftinu snerist þögul vifta hring eftir hring og yfir auðum borðum og leðurklæddum stólum sveif lífsreynd röddin í þeldökka blúsaranum John Lee Hooker, sem á þessari stundu söng lagið On The Waterfront.
Lagið endaði, það ískraði í viftunni.
Tvöfaldan Highland Park, engan ís, sagði skeggjaður og sólbrúnn náungi með kringlótt, fjólublá sólgleraugu á nefinu og kveikti sér í hálfreyktum vindli.
Hann var á að giska þrítugur, hraustlegur, en bauð ekki af sér góðan þokka, klæddur í dökkbláa sjóarapeysu og veðraðan gallajakka, með skítuga prjónahúfu á höfðinu og lyktaði af fiski, gömlum rakspíra og svartolíu. Undir fingurnöglunum voru breiðar sorgarrendur og hárið sem stóð niður undan húfunni var tjásulegt og kleprað.
Sjálfsagt, sagði ég, búinn að setja hárið í tagl, þvo mér í framan og klæða mig í hreina vínrauða skyrtu og svart leðurvesti, og strauk með rakri tusku yfir barborðið og tók fram hreinan öskubakka og litla glerskál með salthnetum áður en ég afgreiddi drykkinn.
Það hafði verið lítið að gera á barnum þetta kvöld og ég hafði staðið einbeittur á svip í sömu sporunum í næstum því klukkutíma og strokið ryk með bréfþurrku innan úr lítið notuðum staupum og litið upp af og til, en hafði samt ekki tekið eftir því þegar þessi illa lyktandi náungi kom inn og settist við endann á barborðinu.
Tvöfaldur Highland Park, enginn ís, gjörðu svo vel, sagði ég eftir að hafa hellt tveimur sjússum af þessu úrvalsviskíi í glas með þykkum botni. Það gera sjöhundruð krónur sléttar.
Settu það bara á miða, vinur, sagði náunginn með mjúkri bassarödd og brosti dauft. Ég geri svo upp þegar ég fer, og þá fer ég.
Hvert er nafnið? spurði ég og náði í minnisblokk og penna í hægri vestisvasann.
Herra Nemó, svaraði maðurinn hægt og skýrt. Skrifaðu bara Nemó, vinur minn. Minn nafnlausi vinur.

(6-7)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira