Bókmenntamerkingin var afhjúpuð þann 7. október árið 2015 á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg, sem var tileinkuð Svövu Jakobsdóttur (1930-2004). Svava var rithöfundur og leikskáld og er þekktust fyrir skáldsögur, smásögur og leikrit. Svava sat á Alþingi Íslendinga fyrir Alþýðubandalagið árin 1971-1979.
Um Svövu Jakobsdóttur af Bókmenntavefnum
„Á miðri tuttugustu öld efndi tímaritið Líf og list til smásagnasamkeppni. Sigurvegari var nítján ára stúlka, Svava Jakobsdóttir, og birtist sagan, „Konan í kjallaranum“, í júlíhefti ritsins 1950. Eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta saga Svövu sem gekk á prent. Svava tók hana ekki upp í bækur sínar síðar og hefur ef til vill talið hana til bernskubreka í ritlistinni, en sem innlegg í raunsæishefð íslensku smásögunnar stendur þessi saga vel fyrir sínu. Hún er til vitnis um að Svava hefur snemma fengið áhuga á að kafa undir yfirborð þess sögusviðs sem oft er líkt og sjálfgefinn þáttur í sagnagerð, þ.e.a.s. húsnæðis. Svövu er frá byrjun ljóst að þau híbýli sem mynda umgjörð um líf fólks eru merkingarbær í fleiri en einum skilningi; við köllum slíkt athvarf „húsnæði“, en næðið er stundum takmarkað þegar híbýli eru könnuð sem tilvistarsvið og spegill mannverunnar.“
Ástráður Eysteinsson
Hæg er að lesa meira um Svövu hér á höfundavefnum.