Laugardaginn 27. október standa Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fyrir málþingi um Elías Mar og skáldsögu hans, Vögguvísu, í samstarfi við Landsbókasafn Íslands, bókaforlagið Lesstofuna og ReykjavíkurAkademíuna. Þingið fer fram í Þjóðarbókhlöðunni kl. 13:00 – 15:30. Þar verður fjallað um höfundinn, verkið og sögutíma þess frá ólíkum hliðum, meðal annars út frá karlmennskuímynd, tónlist, matarmenningu og sögu skáldsins Elíasar Marar. Á safninu stendur einnig yfir sýningin VÖGGUVÍSA VERÐUR TIL, en þar má sjá skjöl og myndir úr safni Elíasar, meðal annars á handritinu aðVögguvísu. Einnig eru á sýningunni leiðréttar prófarkir og fleira, en safnið varðveitir einkaskjalasafn skáldsins. Kaffiveitingar verða í boði. Ekkert kostar inn á málþingið og eru allir velkomnir. Málþingið og sýningin eru hluti af dagskrá Lestrarhátíðar í Reykjavík. Dagskrá málþingsins: 13:00–13:20 Þorsteinn Antonsson: Ágrip um Elías Mar + Reykjavíkurþáttur E. M 13:20–13:40 Jón Karl Helgason: „Heldurðu, að ég hafi aldrei átt móður?“ Ungur og einstæður höfundur kveður sér hljóðs 13:40–14:00 Svavar Steinarr Guðmundsson: La bohème: Íslensk uppfærsla 14:00–14:30 Hlé 14:30–14:50 Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Þetta var að vera maður, ekki barn.“ Karlmennskuævintýri Bambínós 14:50–15:10 Tómas R. Einarsson: Ámáttleg djassvein og höfðaletur í rauðviðarfjöl 15:10–15:30 Sólveig Ólafsdóttir: „Mikið skelfing varstu nú orðinn svangur, Bjössi minn.“ Stafræn saga um mat í Vögguvísu