Vissulega er ágústmyrkrið fallegt en þó er ekki hægt að segja að myrkrið sé einkenni ljóða Eyþórs Árnasonar. Þvert á móti er bjart um að litast og jafnvel uppljómanir að finna í bókinni, þó reyndar séu einnig nokkur myrk augnablik. Svo að ég komi aftur að ágústmyrkrinu er önnur ljóðabók Eyþórs en hann hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir þá fyrstu, Hundgá úr annarri sveit (2009). Bókin og Eyþór voru vel að verðlaununum komin, þar ber margt skemmtilegt og skrítið við og almennt er verkið bæði fjörlegt og fallegt. Ljóðin bera þess þó nokkuð merki að vera samin yfir lengri tíma og því er heildarmyndin svolítið laus í sér.
Í þessari nýju bók er hinsvegar meira jafnvægi og heildarsvipurinn sterkari. Það þýðir þó ekki að ljóðin séu eitthvað einsleit, en Eyþór leitar víða fanga bæði í viðfangsefnum og formi. Nokkuð er um náttúruljóð, eins og ljóðið um ágústmyrkrið er dæmi um, önnur ljóð fjalla um nútímatækni og svo eru allmörg ljóð sem innihalda tilvísanir í bókmenntir, tónlist og menningarsöguna yfirleitt.
Náttúruljóðin eru hvað hefðbundnust þessara, án þess þó að vera eitthvað klisjuð, en þar birtist vel sú sérstæða tilfinning fyrir myndmáli sem gladdi svo mjög í fyrri bókinni. Þetta sést strax í fyrsta ljóðinu, „Sumarkvöld við ána“, en þar stendur drengur á eyri og greiðir net, en mögulega er hann að dreyma því netið fellur saman við drauma: „Sunnan túnið kemur / dökkur ilmur frá hánni // Hlý fjöll þjóta yfir“. Náttúru- og sveitalífsmyndin á sér hér margskonar myndir í draumum og villtum veruleika. Þetta veruleikaflökt heldur svo áfram í ljóði sem nefnist „Aðkenning að hausti“, en þar hafa haustlitirnir litað lyngið rautt, „þeir segja það góðan felustað fyrir / dumbrauða fiska“. Enn meira stuð er svo komið seinna í bókinni, í ljóðinu „Úr öskustónni“, en það fjallar ekki um öskubusku heldur það hvernig askan leggst yfir eggin og hitar þau „og út klekjast gaddtenntir krókódílar“ sem svamla „í pyttinum / undir Seljalandsfossi“:
Ferðamenn kasta í þá bita
Þeir stækka hratt
Náttúrumyndmálið fellur saman við tæknina í næsta ljóði, „Grátt“, en þar kemur foss aftur við sögu. „Við Skógarfoss / eru nokkrir menn / í verklegum málningargöllum“, þeir eru „að fylla á hvítar fötur / úr fossinum“:
og hrósa happi
því loksins hafa þeir fundið gamla grátónaskalann
sem hefur verið týndur
frá því Ríkissjónvarpið
fór að senda út í lit
Allt er þetta afskaplega skemmtilegt og vel til þess fallið að gefa lesanda nýja sýn á umhverfi sitt og hversdaginn. Ég var til dæmis stödd á Þingvöllum þegar ég las bókina, í algleymi haustlitanna, og sannfærðist alveg um að rautt lyngið hentaði vel sem felustaður samlitra fiska. Í sumar ferðaðist ég um suðurlandið og horfði á landslag umbreytt af ösku, sem gæti svo fullt eins vel falið í sér umbreytingar á dýralífi og náttúru.
Athyglisverðust þóttu mér þó þau ljóð sem kallast á við bókmenntir og menningarsögu, en þar finnst mér Eyþóri takast hvað best upp í því að slá nýjan tón. Sum ljóðanna minna vissulega á það hvernig önnur skáld vísa til þekktra persóna, eins og „Flug yfir Korpúlfsstöðum“ sem er mjög ‚Gyrðislegt‘, en í það heila er meðferð Eyþórs nýstárleg. Íslendingasögur og þjóðsögur koma nokkuð við sögu, óvættir bíða í hellum og einhver draugalýsulog eru hér og hvar, jafnvel þar sem síst skyldi. Í „Leynivopnið 21. ágúst 1238“ veltir ljóðmælandi því fyrir sér „hvernig menn / Gissurar og Kolbeins náðu að koma / yfir vötnin og gersigra Sturlunga“. Niðurstaðan er sú að „það sem gerði útslagið / voru sverðfiskar sem þeir gripu með sér / þegar þeir geystust yfir dýpsta hylinn“ og notuðu til að kljúfa menn í herðar niður „meðan súrefnið í tálknunum entist“. Enn er náttúran full af undrum og sér ekki fyrir endann á því. Önnur hetja íslendingasagnanna kemur við sögu í ‚útrásarljóði‘ sem nefnist „Sængurnar“. „Nálægt gamla kirkjugarðinum / er frægur töframaður úti á svölum / að viðra sængina sína“. Það rýkur úr sænginni sem líklegast er útrásarsæng og ljóðmælandi telur að maðurinn „sé að hrista svefnlausa fortíðina / og vilji berja saman sundursagað land / sem logar í galdrafiðrinu“. Í ljós kemur að þetta er enginn annar en Egill Skallagrímsson „með uppgjafasvip í kvöldkulinu“ líklegast vegna hins glataða silfurs. „En hinum megin við götuna á nýju leiði í garðinum / situr ungur maður með sjálfa Rauðskinnu í höndunum. / Hann gefst aldrei upp“. Hér er nóg fóður fyrir ýmiskonar vangaveltur um útrás fyrr og nú, hlutverk víkinga og galdramanna, kynslóðir og sögu landsins.
Öllu nútímalegri tilvísun, sem einnig tengist útrásinni, er í „Skemmtiskokki 2009“. Ljóðmælandi leggst upp í sófa eftir skokkið og lætur líða úr sér og það glampar á gullpening á brjóstinu. Svo finnur hann fyrir undarlegri tilfinningu innan í sér „og peningurinn tók að rykkjast til“. Svo færumst við yfir í kunna kvikmynd þegar ljóðmælandi finnst hann vera leikarinn John Hurt í Alien því út úr brjósti hans brýst „pínulítill og forljótur 49 ára gamall / útrásarvíkingur sem enginn vill elska“ (hér fjölgar reyndar tilvísunum, þegar Þursaflokkurinn blandast í málið). Hann „hrifsar gullpeninginn og var horfinn / á augabragði út úr stofunni“.
Enn á ný leikur skáldið sér að því að fella saman ólíka tíma og heima og tekst sérlega vel upp, auk þess að sýna framá hvað ljóðið getur verið lúmskur sverðfiskur þegar til á að taka. Annað lymskulegt ljóð, sem einnig tekur til samtímans, er „Strandveiðar“. Þar gengur ljóðmælandi Ægisíðuna á fögrum degi en eitthvað hleypur í hann við gömlu grásleppuskúrana og hann byrjar að „rífa upp fiskana / sem eru steyptir í malbikið í stígnum“, kveikir síðan bál og steikir aflann. Vegfarendum er nóg boðið og þeir hringja. Daginn eftir „er hinsvegar ekki hundi út sigandi // Það er gott enda á ég ekki fyrir sektinni / fyrir að veiða utan kvóta“.
Hér birtist sérlega vel hinn ísmeygilegi kómíski tónn sem einkennir ljóð Eyþórs og gerir þau í senn marglaga og aðgengileg. Merkingin er skýr en þó eru alltaf ýmiskonar tónar sem skapa ljóðunum fjölbreyttan kór radda, hvort sem er í ljúfum haustljóðum eða snarpari samfélagslegum sverðalögum.
Úlfhildur Dagsdóttir, september 2011