Í frásögnum sínum af lífinu á Barrey rekur Roy Jacobsen sögu Barrey-fjölskyldunnar frá fyrsta áratug 20. aldar og fram yfir miðja öldina en þau eru eigendur og einu íbúar samnefndar smáeyjar í norska skerjagarðinum. Miðpunktur frásagnarinnar er Ingrid Barrey, einkadóttir Barrey-hjónanna og erfinginn að eynni, en sagan fylgir henni frá því að hún er ungt barn og fram yfir miðjan aldur. Ingrid er þó yfirleitt umkringd ættingjum, nágrönnum og vinum af öðrum eyjum og meginlandinu og sagan fjallar ekki síður um líf þeirra. Jacobsen skapar stóran og fjölbreyttan hóp persóna og við fylgjumst með þeim fara misjafnar leiðir í lífinu og sjáum hvernig lífsferill þeirra mótast af bæði persónueiginleikum og aðstæðum. Mannleg tengsl eru krafturinn sem knýr þetta litla samfélag og gefur lífi íbúanna merkingu.
Bækurnar um Barrey eru fjórar, Hin ósýnilegu, Hvítt haf, Augu Rigels og Bara móðir, og komu út á Íslandi í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar á árunum 2019-2022. Þær eru fjölbreyttar hvað varðar frásagnarform en í Hin ósýnilegu og Bara móðir teygir sagan sig yfir mörg ár, jafnvel áratugi, og gerist að mestu á Barrey og í nærumhverfi hennar. Í Hvítt haf og Augu Rigels segir hins vegar frá stuttum tímabilum í lífi Ingridar, annars vegar tæpu ári og hins vegar nokkrum mánuðum, og sögusviðið er stærra. Hvítt haf gerist að stórum hluta á Barrey en segir líka frá atburðum á meginlandinu en Augu Rigels er ferðasaga Ingridar sem ferðast fótgangandi um meginland Noregs stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Fjölskyldan á Barrey stundar að mestu sjálfsþurftarbúskap og Jacobsen lýsir af gaumgæfni hvernig þeim tekst að nýta náttúruauðlindir eyjarinnar og hafsins í kring. Til að draga fram lífið á eynni þarf mikla hefðbundna verkkunnáttu en líka sköpunarkraft og útsjónasemi. Það nægir þó aldrei alveg til og alltaf reynist nauðsynlegt að eiga samskipti við umheiminn og verða sér úti um peninga með því að selja afurðir á aðaleynni og vinna á meginlandinu. Þannig verður til lítill einkaheimur sem einkennist af einangrun, sjálfstæði og nægjusemi en er á sama tíma tengdur umheiminum órjúfandi böndum. Þetta er jaðarheimur sem liggur utan við þá menningarlegu og landfræðilegu miðju sem eru þorpið á aðaleynni og meginlandið Noregur.
Í fyrstu bókinni, Hin ósýnilegu, byrjar Jacobsen strax að móta og skýra Barrey sem sögusvið. Frásögnin hefst á heimsókn sóknarprestsins Malmberget sem ferðast út í ey í fyrsta sinn til að ræða skírn Ingridar. Jacobsen markar skýr skil á milli eyjarinnar og heimaþorps prestsins þar sem hann stendur og horfir í land.
En þegar hann hefur komið sér upp úr bátnum og slangrað fáein skref upp grjótgarðinn lítur hann augum nokkuð sem hann hefur aldrei áður séð, sína eigin heimabyggð undir fellunum inni á aðaleynni, eins og hún er til að sjá frá Barrey, sér þar Verslunina og þorpshúsin, býlin, trjálundina og smábátaflotann.
– Nú dámar mér, hvað þetta er smátt, ég sé varla húsin.
Hans Barrey segir:
– Ég sé þetta alveg.
– Þá sérðu víst betur en ég, segir presturinn og starir yfir um í átt að byggðinni sem hann hefur þjónað síðustu þrjátíu árin en aldrei séð frá svona ankannalegu sjónarhorni.
– Tja, þér hafið aldrei komið hér áður.
– Þetta er nú tveggja tíma róður.
– Eigið þér ekki seglbát? spyr Hans Barrey.
– Það er blankalogn, segir presturinn, enn með augun við heimahagana, því sannast sagna er hann skíthræddur við sjóinn og nötrar óstyrkur þar sem hann stendur, enn lífs eftir hinn hæga róður yfir. (Hin ósýnilegu 5-6)
Þótt Hans, föður Ingridar, þyki presturinn mikla fyrir sér ferðalagið er greinilegt að hafið myndar einhverskonar mörk eða skil sem hann hefur farið yfir og horfir nú á sinn kunnuglega hversdagsheim frá nýju sjónarhorni. Frá sjónarhóli eyjabúanna lítur allt aðeins öðruvísi út. Þeir eru staddir hinum megin við mörkin og eyjan sem er jaðarinn í heimsmynd annarra er miðpunkturinn í heimsmynd þeirra. Þannig snýst við hið hefðbundna augnaráð sem horfir frá miðjunni og út á jaðar og þess í stað horfum við með Barreyingum á aðaleyna sem virðist lítil og ankannaleg hinum megin við hafið.
Samband Barreyinga við eyna sína er flókið. Þrátt fyrir tíð samskipti við nágrannaeyjar eru þau einangruð og samgöngur geta verið erfiðar. Það er óhemju vinna að halda býlinu gangandi og byggja það upp og fjölskyldan virðist aldrei langt frá gjaldþroti. Á sama tíma er eyjan snar þáttur í sjálfsmynd íbúanna. Jacobsen notar bæði náttúrulýsingar og lýsingar á vinnu og verklagi til að skapa andrúmsloft sem endurspeglar líðan og hugsanir persónanna og gerir Barrey að hluta af persónunum og jafnvel stundum persónu í sjálfri sér. Eyjan á jaðrinum verður þá ekki bara landfræðileg miðja fyrir íbúa hennar heldur líka huglæg miðja, hluti af sjálfsmynd fólksins sem á þar rætur. Þannig er Hans Barrey farið þegar hann siglir heim í ey dag einn.
Hann varð sjaldan upprifinn yfir því að koma aftur heim á eyna sína, hann sem kunni þá kúnst upp á tíu að sakna síns heima án þess að bogna en þarna heima hjá prestinum hafði það endanlega opinberast honum að þegar allt ætlar að gliðna stendur eyjan þó traust, það vissi hann auðvitað fyrir en hafði ekki skynjað það eins trúrænt og nú þegar veröldin stóð á fallandi fæti og byrðar hans þyngri en nokkru sinni. Þetta var hann að hugsa þegar hann felldi seglið fyrir utan vörina og lét bátinn skríða síðustu faðmana uns kjöljárnið nam við hlunnana. (Hin ósýnilegu 207)
Hér fylgjumst við bókstaflega með Hans sigla inn í örugga höfn á eynni sinni sem hann þekkir og treystir á sama hvað. En það er ekki bara landið sem stendur traust hér heldur sjálfsmynd og sjálfstraust Hans. Hann þekkir bæði eyna sína og sjálfan sig og getur treyst á bæði. Þessi samsömun með eynni sést líka í Hvítt haf þar sem Ingrid ver töluverðum tíma ein á Barrey í upphafi bókarinnar. Þessi tími er einmanalegur og honum er lýst á draumkenndan, jafnvel óraunverulegan hátt. Það er vetur, umhverfið á eynni er annarlegt, kalt og dimmt og hvorki Ingrid né Barrey eru alveg með sjálfum sér.
Hún fór í utan yfir sig og gekk út í hnígandi drífuna, stóð kyrr og virti húsin fyrir sér, hlöðuna og bryggjuna og naustið við sjóinn, allt í einu hissa á öllu því sem hafði bundið hana þessari ey en var strangt til tekið ekki neitt. Ef áttin snerist ekki myndi slyddan senn breytast í regn, eyjan verða brún eins og hrúður og hafið grána. (Hvítt haf 17)
Barrey er eins farið og Ingridi, þegar tengslin við aðra slitna er eins og allt missi merkingu sína. Allt sem gerði Barrey að heimili, húsin, hlaðan, bryggjan og naustið, verða að engu þegar fólkið vantar og eynni er óbeint líkt við hrúður á sári, dautt og litlaust.
Staðsetning Barreyjar utan við miðju á stóran þátt í að skapa þá nánd sem gerir Barreyingum kleift að samsama sig svona með eynni sinni. Að sama skapi mótar staðsetningin viðhorf annarra til eyjunnar en þótt flestir virðist líta á hana sem ómerkilegan útkjálka hefur hún einnig töluvert aðdráttarafl. Í öllum bókunum virðist fólk laðast til Barreyjar og þá sérstaklega þeir sem eiga af ýmsum ástæðum erfitt með að fóta sig á aðaleynni eða meginlandinu. Það má segja að Barrey sé einskonar griðastaður fyrir þá sem eru utanveltu í ríkjandi samfélagi. Þetta sést skýrast á börnunum sem Ingrid tekur til sín smám saman og elur upp með dóttur sinni, Kaju. Í Hin ósýnilegu tekur Ingrid að sér systkinin Súsönnu og Felix, vanrækt börn verslunarstjórans á aðaleynni, eftir að foreldrar þeirra yfirgefa þau. Í Hvítt haf, undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, tekur hún til sín dularfullu flóttastelpuna Nelvy sem enginn veit almennileg skil á og í Bara móðir ættleiðir hún svo drenginn Matthías eftir að móðir hans yfirgefur hann og stjúpfaðir hans deyr. Þessi börn eiga það sameiginlegt að eiga sér engan samastað í ríkjandi samfélagi.
Súsanna og Felix eiga ólíkt sambandi við Barrey. Þegar þau koma til eyjarinnar eru þau bæði ósjálfbjarga og eftir á í þroska en læra á Barrey bæði sjálfstæði og mannleg samskipti. Felix er fljótur að finna sér stað í fjölskyldunni og temja sér lífshætti hennar og verður fljótt Barreyingur. Samband Súsönnu við eyna einkennist hins vegar af togstreitu. Hún er eirðarlaus og ósátt við lífið á jaðrinum og virðist þrá að komast aftur í millistéttina sem hún tilheyrði eitt sinn. Hún yfirgefur Barrey snemma og er í Bara móðir búin að koma sér fyrir í nýrri blokkaríbúð í Osló með miðstöðvarhitun, sorprennum og tómstundaherbergi. Þó fær hún sig aldrei til að snúa alveg baki við eynni og er dugleg að snúa aftur og skrifa „heim“. Lífsmáta hennar er stillt upp sem andstæðu við lífið á Barrey eins og sést í bréfi frá henni sem Ingrid les fyrir Barbro, gamla frænku og staðfastan Barreying.
Ingrid fór upp á loft og sótti jólabréfið hennar Súsönnu, settist og las það aftur, upphátt, fyrir Barbro sem fór höndum um spunaþráð og rokk.
Súsanna hafði komist upp á kant við félagsbústaðina þegar Hege byrjaði í skóla og hún fór sjálf aftur út að vinna. Hún vann við færiband í súkkulaðiverksmiðju og þess vegna vildi hún fá að þvo föt þegar henni hentaði, í sameiginlega þvottahúsinu í kjallaranum.
En það gekk ekki, stóð þarna.
Barbro hló.
Súsanna hafði skipst á þvottadögum við nágrannakonu sem hékk heima og var „sveigjanleg“ eins og þarna stóð. En það mátti ekki heldur, af ýmsum áhugaverðum ástæðum. Og það mátti ekki heldur þvo föt í baðkörum og allra síst þurrka þau á svölunum en þar hafði Súsanna sett upp sex snúrur og fengið að heyra að þetta væri eins og í ítölsku fátækrahverfi, vissar reglur yrðu að vera, Súsanna gæti fengið sekt.
Barbro hló.
Bjarnar kenndi Súsönnu á skíðum, hún var að verða jafn fær og Hege en datt oft og hafði einmitt snúið á sér ökklann fyrir stuttu, hvernig gengur á Barrey, aumingja þið, ég hugsa stöðugt um ykkur og prísa mig sæla að vera ekki þarna í þessu kolamyrkri. (Bara móðir 235)
Eins og sést á viðbrögðum Barbro eru Barreyingar almennt sáttir við stað sinn á jaðrinum sem veitir þeim, þrátt fyrir aðra ágalla, frelsi ólíkt Súsönnu sem hefur samþykkt að hlíta regluverki stærra og flóknara samfélags.
Í Bara móðir kemur svo Matthías til Barreyjar og er, líkt og Felix og Súsanna, yfirgefinn og afskiptur. Hann glímir hins vegar líka við fordóma þorpsbúa á aðaleynni en blóðfaðir hans var þýskur setuliðsmaður í stríðinu og það kvisast fljótt út að móðir hans hafi flúið til Þýskalands til að vera með honum. Hvítt haf, Augu Rigels og fyrsti hluti Bara móðir gerast allar um og rétt eftir stríðslok og eðlilega ásækir stríðið fólk. Hersetu Þjóðverja í Noregi fylgdi m.a. samfélagsleg upplausn og óreiða þar sem hefðbundin siðferðisgildi og hegðunarviðmið virtust falla úr gildi svo að segja á einni nóttu. Þótt hernáminu sé lokið ríkja enn óvissa og óöryggi í samfélaginu. Auk þess þarf fólk nú að horfast í augu við eigin gjörðir og hegðun nágranna sinna og vina í stríðinu en t.d. hvílir mikil skömm yfir öllum samskiptum við þýska setuliðið. Það er ljóst að ekki er hægt að hverfa aftur til þess samfélagsmynsturs sem fólk þekkti fyrir stríð en að sama skapi er erfitt að ímynda sér nýtt samfélag reist á þessum grunni. Því er freistandi að reyna að láta sem stríðið hafi aldrei gerst eða skipti jafnvel ekki máli og margir leggja sig fram um að gleyma þessum árum og einblína á framtíðina. Þá eru börn á borð við Matthías óþægileg áminning um fortíðina og eins er erfitt að finna þeim stað í þeirri framtíð sem fólk vill skapa sér. Nýr sóknarprestur, séra Samúel, lýsir aðstæðum þeirra svona:
Jú, svona börn hafa það ekki gott í landinu núna, friðurinn er þeim helvíti, svo það er gott að drengurinn skuli vera þarna. Samúel segir líka eitthvað um sættir og nauðsyn þess að gleyma. Ingridi finnst hann ekki vera að segja að hún sé bjargræði Matthíasar heldur að eyjan geti orðið það, að allt frá því hann sagði sitt fyrsta orð á Barrey hafi það verið blessun hann skyldi ekki tilheyra heiminum fyrir utan. (Bara móðir 73)
Þegar Matthías kemur til Barreyjar hættir hann að tilheyra „heiminum fyrir utan“ þar sem hann er „svona barn“. Börn þýskra setuliðsmanna mæta fjandsamlegu viðmóti í samfélaginu en svona kemst Matthías hjá því að tilheyra alveg þessum hóp og tilheyrir þess í stað Barrey. Auk Matthíasar dvelja á eynni tveir krakkar í svipaðri stöðu, Kaja og Friðrik, sonur Súsönnu. Faðerni beggja er óljóst, ef ekki mæðrum þeirra þá þorpsbúum á aðaleynni. Bæði eru getin í stríðnu af utanaðkomandi mönnum og þótt þau mæti ekki jafn miklum fordómum og Matthías er tilvera þeirra áminning um tíma sem margir vilja gleyma. Jafnvel á Barrey er þetta viðhorf við lýði og veldur koma „þýskarakrógans“ Matthíasar nokkru uppnámi. Ingrid er hins vegar ákveðin í að Barrey verði, eins og oft áður, griðastaður fyrir fólk sem ekki er rými fyrir annarsstaðar.
Súsanna hélt áfram að stara út um gluggann. Barbro þurrkaði sér um hendurnar og muldraði að það væri best að fara og huga að krökkunum.
Strax og hún var farin gerði Ingrid Súsönnu ljóst að héðan af yrði endi bundinn á allt snakk um hvaðan hver krakki væri kominn, sjálfur Herrann vissi það ekki. (Bara móðir 35)
Ingrid vill taka fyrir að viðhorf ríkjandi samfélags til barnanna nái fótfestu á eynni. Hún mælir fyrir um að hætt verði að grufla í fortíðinni og gerir Barrey að rými þar sem börnin geta alist upp og myndað sér persónuleika á eigin forsendum frekar en að líf þeirra skilgreinist af uppruna þeirra. Það er vegna þess að Barrey er utan við miðju sem hægt er að skapa þetta sjálfstæða rými.
Frásögnin af fjölskyldunni á Barrey nær yfir langt og umbrotasamt skeið í bæði mannkynssögunni og sögu Noregs og fylgir, eins og áður segir, stórum og fjölbreyttum hópi persóna. Jacobsen er laginn við að laga frásögn sína að þeim aðstæðum sem persónur hans standa frammi fyrir hverju sinni og því er hver bók í flokknum sjálfstætt verk að því leyti að þær lúta eigin innra samræmi. Þó er greinilegt að ákveðin þemu eru gegnumgangandi. Þrátt fyrir allar sviptingar erum við fyrst og fremst að lesa um tengsl, tengsl fólks við hvert annað, við hin ýmsu samfélög sem það tilheyrir um ævina, við söguna og við umhverfi sitt. Þegar við skiljum við Ingrid í lok Bara móðir er hún komin á miðjan aldur og býr á Barrey ásamt unglingunum Kaju og Matthíasi. Það er enn frá mörgu að segja og má vona að við fáum að fylgjast frekar með fjölskyldunni og eyjunni í fleiri bókum.
Eva Dagbjört Óladóttir, ágúst 2022