Theodóra Thoroddsen (1863-1954) skáld er einkum þekkt fyrir þulur sínar. Þær voru fyrst gefnar út á bók árið 1916 með myndskreytingum Guðmundar Thorsteinsson (Muggs), systursonar hennar. Bókin var endurútgefin árið 1938 og myndskreytti Sigurður Thoroddsen ásamt Muggi þá útgáfu sem hefur síðan verið endurútgefin þrisvar, síðast árið 2000. Ritsafn Theodóru kom síðan út árið 1960.
Kvæði, stökur og sagnir Theodóru birtust víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna í Reykjavík (1911-1931). Hún þýddi sögur úr öðrum málum og safnaði einnig þjóðsögum. Islandsk folketru var útgefin í Kristjaníu árð 1924, eftir handriti hennar. Theodóra var einnig listfeng hannyrðakona og hafa sýningar verið haldnar með verkum hennar.
Theodóra var gift Skúla Thoroddsen og eignuðust þau þrettán börn. Þótti uppeldi þeirra nokkuð frjálslegt á þeirra tíma mælikvarða. Fjölskyldan flutti í Vonarstræti 12 árið 1908, en húsið var flutt í Kirkjustræti árið 2010 þar sem það stendur nú og er það í eigu Alþingis. Í bakhúsinu var prentsmiðja sem Skúli rak og þar var dagblaðið Þjóðviljinn til að mynda prentað um tíma.
Söguleg skáldsaga Ármanns Jakobssonar, Vonarstræti (2008) fjallar um þau Theodóru og Skúla og er ekki síst helguð sögu þessa sögufræga húss.
Sjá grein um húsið í Vonarstræti 12 í Morgunblaðinu 19. mars 2002.
Mitt var starfið
Mitt var starfið hér í heimi
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga.
Eg þráði að leika lausu við
sem lamb um grænan haga,
en þeim eru ekki gefin grið,
sem götin eiga að staga.
Langaði mig að lesa blóm
um langa og bjarta daga,
en þörfin kvað með þrumuróm:
„Þér er nær að staga.“
Heimurinn átti harðan dóm
að hengja á mína snaga,
hvað eg væri kostatóm
og kjörin til að staga.
Komi hel með kutann sinn
og korti mína daga,
eg held það verði hlutur minn
í helvíti að staga.