Góðar bækur geta svo margt. Fyrir utan að bjóða lesandanum inní nýja heima og krefja hana jafnvel stundum um að hugsa, þá lækna góðar bækur timburmenn, lesnar uppi í rúmi á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Að auki upplyfta þær sálinni og kveikja góðar minningar. Þegar ég les nýjar þýðingar á klassískum bókmenntaverkum á borð við þau sem hér er um fjallað, Theresu eftir François Mauriac og Mírgorod eftir Nikolaj Gogol, þá rifjast upp fyrir mér minningar um bókmenntalegt uppeldi og þá linnulausu gleði sem ég upplifði við að uppgötva nýjar og nýjar sögur og höfunda, nýjar leiðir til að segja sögur, kannski kunnuglegar sögur, og nýjar leiðir til að hugsa um heiminn. Gogol finnst mér ég endilega hafa kynnst í menntaskóla (Dauðar sálir 1987), hafandi alla mína ævi alist upp við þá mætu hugmynd að ekkert væri betra til í heimi hér er rússneskar bókmenntir, sérstaklega Dostojevskíj. Trúr þessari hugmynd sinni gaf afi minn kennarinn mér allar rússneskar þýðingar, meðal annars dýrgripinn Meistarann og Margarítu eftir Búlgakof (1981 í íslenskri þýðingu). Mamma, á hinn bóginn, var hrifin af öllu frönsku, og þó hún hafi aldrei matað mig jafn markvisst og kennarinn á lesefni þá tengi ég alltaf dramatískar franskar bækur hennar áhrifum. Það var síðan önnur kona sem tók áframhaldandi bókmenntalegt uppeldi mitt að sér, en það var ekki fyrr en í háskóla þegar ég slysaðist í bókmenntafræði, sem ég hugsaði sem smá viðdvöl á leið minni í allt annað nám. Þar hóf Álfrún Gunnlaugsdóttir að kynna mér heima franskra, spænskra og suður-amerískra bókmennta, meðal annars las ég Theresu fyrst þá.
Theresa, sem kom fyrst út árið 1927, er bók sem kallast á sérlega áhugaverðan hátt á við tvenna tíma, sinn eigin og svo hinn alræmda nútíma. Þetta kemur ekki einungis fram í skáldsögunni sjálfri heldur þeim ummælum höfundar um eigin sögupersónu, að hún sé ógeðfelld.
Theresa segir frá ungri konu sem giftist ungum manni og eitrar svo fyrir honum. Hann lifir þó af. Hjónabandið er hagkvæmnishjónaband, leifar af hugmyndaheimi fyrri aldar, en Theresa og eiginmaðurinn Bernharður eru afkomendur landeigenda, markmiðið er að sameina jarðir og allt það. Theresa sker sig úr umhverfi sínu fyrir gáfur, það er ítrekað að hún sé ekki fögur, en hafi persónutöfra - gáfurnar teljast henni ekki til tekna. Þó Theresa sé í sjálfu sér ekki mótfallin hjónabandinu þá uppgötvar hún fljótlega hversu mikil mistök það er, og þegar eiginmaðurinn gengur framaf henni með lífhræðslu sinni föndrar hún við að eitra fyrir honum - þó ævinlega með hálfum huga, því aldrei stígur hún skrefið til fulls og Bernharður lifir. Bygging verksins er fræg, en sagan hefst á því að máli Theresu hefur verið vísað frá, því Bernharður vitnar með henni, allt til að tryggja heiður fjölskyldnanna. Meginþorri þessarar stuttu skáldsögu fer í tilraun Theresu til að semja varnarræðu sína sem felst í upprifjun á lífi hennar og sambandi við Bernharð, en síðasti hlutinn er lagður undir tilraun Bernharðar til að temja konu sína og hefna sín á henni.
Í þessari varnarræðu Theresu gætir síðan margra og fróðlegra grasa, en þar skiptir vinátta hennar við hálfsystur Bernharðar, Önnu, lykilmáli og er ljóst að sú vinátta er Theresu annað og meira. Fyrir utan þetta undirliggjandi hinsegin stef er síðan spurningin um gáfur Theresu og samskipti hennar við ungan mann, sem hún hrífst af - ekki sem karlmanni heldur fyrir það menningar- og menntunarumhverfi (París) sem hann hrærist í. Og hver er síðan sjálf vörnin, ástæðan fyrir morðtilrauninni (sem kannski aldrei var nein morðtilraun)? Sumir gagnrýnendur hafa bent á að Mauriac var heittrúaður og glæpur Theresu hafi verið guðleysi umfram annað og konan því ógeðfelld. Fyrir nútímalesanda er hinsvegar fátt ógeðfellt við Theresu en þeim mun meira við Bernharð og fjölskylduna. Hvort sem Mauriac meinti ummæli sín eða ekki, þá er niðurstaða sjálfs verksins, allavega eins og það birtist í dag, sú að það sé eiginlega allt annað en Theresa sem er ógeðfellt (kannski fyryr utan gamla heyrnarlausa frænku hennar, Klöru). Karlveldið með sinni ofuráherslu á fjölskylduna sem verður Theresu skelfilegra fangelsi en nokkuð annað er hér dregið sterkum dráttum óhugnaðar, án þess að eiga nokkuð skylt við femínisma sem slíkan. Á sínum tíma dáðist ég að því að karl skyldi geta skrifað svona um konu og enn get ég ekki annað en undrast og hrifist.
Það er hinsvegar lítið um femínisma, óvæntan eða ekki, í sögum Gogol, en þær einkennast frekar af karlmennsku - þó vissulega séu sumir þeirra karla sem fjallað er um ‘kellingar’ í skilgreiningu Guðbergs Bergssonar. Í Mírgorod eru valdar saman fjórar smásögur, þaraf er ein sem tekur rúmlega hálfa bókina. Þetta er kósakkasagan af Taras Búlba og sonum hans, sem er bæði hetjusaga og stríðssaga, gróteska og ástarsaga. Hinar sögurnar eru „Landeigendur frá fyrri tíð“, „Vij“ og „Sagan af því hvernig í brýnu sló milli Ívans Ívanovitsj og Ívans Nikiforovitsj.“
„Landeigendur frá fyrri tíð“ segir frá gömlum óðalsbóndahjónum sem vilja öllum vel og njóta þess að lifa af gnægtum lands síns, þau elska góðan mat en hafa litla stjórnunarhæfileika því allir, frá lægsta vikapilti til ráðsmannsins, stela af þeim. Án þess þó að högg sjái á vatni, slík eru gæði landsins. Strax er sleginn tónninn fyrir ákveðið kæruleysi gagnvart eigum annarra, auk hömlulausrar gleði í mat og drykk sem rambar á barmi grótesku og rúmlega það. Neyslan er þó sýnu minnst í síðustu sögu bókarinnar, „Sagan af því hvernig í brýnu sló milli Ívans Ívanovitsj og Ívans Nikiforovitsj“, þó þeim síðarnefnda sé lýst svo að hann sé akfeitur og þurfi viðspyrnu til að komast gegnum dyr, en þar tekur Gogol fyrir skrifræðið á sinn einstaka hátt. Sú saga er mjög á léttum nótum eins og sú fyrsta, en hinar tvær eru öllu alvarlegri, þó með kómískum tónum.
„Taras Búlba“ hefst á því að tveir synir koma heim frá námi sínu í prestaskóla og faðirinn heldur strax með þá í kósakkabúðir, móðurinni til mikillar sorgar. Í augnablikinu hefur verið saminn friður fyrir heiðingjana svo ekki er hægt að herja á Soldáninn, en í staðinn eru Pólverjar, með sinn illa kaþólisma, hentugir andstæðingar og Taras, sem óður vill að synirnir herðist í bardögum, hvetur til stríðs. Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu hörmulegar. Sagan er ótrúlega margræð, en þar takast á hetjuljómi hinna bardagaglöðu, drykkfelldu og matgírugu kósakka, og skelfingar stríðsreksturs. Auðugt myndmál Gogol nýtur sín til hins ýtrasta eins og í þessari lýsingu af dauðdaga einnar kósakkahetjunnar: „Hann féll hljóðlega í fang næsta kósakka og ungt blóð hans flæddi eins og fágætt eðalvín sem óvarkár þjónn kemur með í flösku úr vínkjallaranum en hrasar um þröskuld og brýtur flöskuna verðmætu; vínið flæðir yfir gólfið og herrann reitir hár sitt: Hann hafði geymt þetta vín fyrir einstaka stund í lífi sínu, þegar Guð sendir honum í ellinni gamlan æskuvin til að rifja upp með gamla tíma þegar menn skemmtu sér öðruvísi og betur“ (156).
Sagan, „Vij“, er þjóðsagnaskotin hrollvekja um ungan heimspekinema sem norn ein tekur traustataki og notar sem reiðskjóta, líkt og í íslensku þjóðsögunni um gandreiðina. Nema heimspekineminn nær að tuldra nokkrar særingar og bænir sem gamall maður hafði kennt honum og tekst þannig að yfirbuga nornina. En hún lætur hann ekki sleppa og skipar svo fyrir að hann skuli biðja yfir líki sínu þrjár nætur í röð og vegna þess að hún er dóttir auðmanns á fátækur heimspekineminn sér ekki undankomuleið. Þetta er eitt af því sem Rússarnir gera svo ótrúlega vel í sínum bókmenntum, að nýta þjóðsagnaarfinn til að draga upp magnaðar sögur, og þó að mér hafi fundist allar sögurnar skemmtilegar þá er mesti fengurinn í þessari að mínu mati, ekki síst fyrir það hversu áhugavert er að skoða sameiginleg temu þjóðsögunnar milli landa og heimshluta og hvernig hún varpar ljósi á samfélag sitt.
Theresa og Mírgorod eru nýjustu dæmin um það metnaðarfulla starf Hávallaútgáfunnar að gefa út vandaðar þýðingar á klassískum bókmenntaverkum, starf sem Mál og menning sinnti vel á sínum tíma, en er nú hvergi stundað á markvissan hátt (þó vissulega birtist bók og bók hér og þar). Af öðrum útgáfum má nefna Dauðann í Feneyjum eftir Thomas Mann (sem líkt og Theresa er angandi af hinsegin anda) og annað verk Gogol, Pétursborgarsögur. Bækurnar eru gefnar út í fallegum og eigulegum kiljum og fyrir utan einstaka stafsetningarvillu og villtar gæsalappir er vel að frágangi staðið. Þáttur þýðinga í íslenskri menningu er því miður iðulega vanmetinn, og því er þörf á að ítreka hvað útgáfa slíkra verka er mikilvæg og í raun ómetanleg.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2006