Beint í efni

„Þögn eða útlegð“

Reykjavíkurborg og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur bjóða til sýningar á heimildarmyndinni „Silence or Exile“ í Bíó Paradís, fimmtudaginn 15. nóvember klukkan 18:00, á Alþjóðadegi fangelsaðra rithöfunda. Í myndinni er brugðið upp myndum af lífi fimm rithöfunda sem allir hafa hrakist í útlegð vegna skrifa sinna og þurft að byrja frá grunni þar sem þeir hafa fundið skjól. Hlutskipti þeirra er skoðað á nærfærinn en opinskáan máta svo áhorfandanum birtist saga um ofbeldisfullan, fáránlegan og óréttlátan heim. En mitt í því öllu halda höfundarnir áfram að trúa á mátt skáldskaparins og mikilvægi gagnrýnnar umræðu í mannlegu samfélagi. Meðal þeirra höfunda sem koma fram í myndinni eru tveir sem eru gestir ICORN skjólborgaverkefnisins í Osló og París, þau Philo Ikonya frá Kenýa og Mana Neyestani frá Íran, en hin eru Horacio Castellanos Moya frá El Salvador (fyrrum gestur ICORN í Frankfurt og Pittsburg) búsettur í Iowa City (Bókmenntaborg UNESCO), Svetlana Alexievitch frá Hvíta-Rússlandi (fyrrum gestur ICORN í Gautaborg) búsett í Berlín og Ma Jian frá Kína sem búsettur er í London. Reykjavíkurborg gerðist skjólborg og þáttakandi í ICORN (International Cities of Refuge Network) haustið 2011 og er fyrsti gestur hennar palestínska ljóðskáldið Mazen Maarouf. Sýningu kvikmyndarinnar „Silence or Exile“ er meðal annars ætlað að gefa almenningi tækifæri til þess að kynnast verkefninu nánar. Leikstjóri myndarinnar er hin franska Marion Stalens sem hefur sérhæft sig í gerð heimildamynda um efni sem snerta mannréttindi ásamt því að vinna með systur sinni Juliette Binoche að ólíkum verkefnum. Þess má geta að hin magnaða skáldsaga Fásinna eftir Horacio Castellanos Moya kom út hjá Bjarti haustið 2011 og var hann gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík það ár. Sýningin er haldin í félagi við PEN á Íslandi en það er aðili að PEN International, alþjóðasamtökum rithöfunda, helsta samstarfsaðila ICORN á heimsvísu og í einstökum skjólborgum. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.