Æviágrip
Thor Vilhjálmsson fæddist í Edinborg í Skotlandi 12. ágúst 1925. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944, nam við norrænudeild Háskóla Íslands 1944-1946, við Háskólann í Nottingham 1946-1947 og við Sorbonne háskóla í París 1947-1952. Hann var bókavörður á Landsbókasafni Íslands frá 1953-1955, starfaði við Þjóðleikhúsið 1956-1959 og var einnig leiðsögumaður og fararstjóri erlendis.
Thor gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda og listamenn, hann var meðal annars í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1972-1974 og forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1975-1981. Þá sat hann í þjóðfulltrúaráði Samfélags evrópskra rithöfunda 1962-1968, í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík 1976-1980 og í undirbúningsnefnd kvikmyndahátíðar 1978 og 1980. Hann var stjórnarmeðlimur Alliance Francaise árum saman. Thor var einn stofnenda Bókmenntahátíðar í Reykjavík og sat í stjórn hátíðarinnar frá upphafi. Hann var formaður Júdófélags Reykjavíkur í nokkur ár og var um tíma formaður íslenska PEN-klúbbsins. Thor var einn stofnenda menningartímaritsins Birtings árið 1955 og sat í ritstjórn þess til 1968.
Fyrsta verk Thors, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950 og síðan sendi hann frá sér fjölda verka af ýmsu tagi, meðal annars skáldsögur, smásögur, ljóð og ferðasögur auk fjölda greina og pistla um menningu og listir. Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og verk hans hafa verið þýdd á fjölmörg erlend mál. Thor þýddi einnig verk eftir erlenda höfunda á íslensku, meðal annars eftir Umberto Eco og André Malraux. Auk ritstarfa lagði Thor stund á myndlist og hélt sýningar á þeim verkum sínum.
Thor Vilhjálmsson lést 2. mars árið 2011.
Forlag: Mál og menning.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Brot úr kaflanum „Maðurinn er aldrei einn“ úr viðtalsbókinni Stríð og söngur
Þetta hefur verið mikið stríð. Á yngri árum hreifst maður af mörgu en því má ekki gleyma að vissar hugmyndir lágu í tíðinni og ólíkir menn geta framkallað þær samtímis án þess að vita hver af öðrum. Í skáldskapnum hef ég ekki aðeins tínt saman það sem mér hefur áskotnast á vegferðinni heldur reynt að skapa samræmi á milli sundurleitra hugmynda og skynjana. Reynslan sem þú aflar þér umbreytist og verður ný í sjálfum þér. Sumir eiga svo mikla sjálfsafneitun að þeir geta skrifað upp verk annarra manna. Ég er of sjálfhverfur til þess, reyni að skrifa minn eigin skáldskap og svara því sem ég þarf fyrir sjálfan mig og aðra. Ég hef sveiflast á milli bjartsýni og svartsýni, trúar og vonleysis, það er ekkert endanlegt í þeim efnum. Þó verður maður alltaf að vera reiðubúinn að rísa gegn þeim öflum sem ógna lífinu og listinni. Þráast við og reyna af öllum mætti. Ég lít á það sem heilaga skyldu að berjast gegn dauðanum og fyrir lífinu. Þó svo ég viti að eitt sinn skal hver deyja.
Fyrsta bókin mín, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950. Þá var ég í Reykjavík og hélt að slegið yrði upp þjóðhátíð, fólk fengi frí úr vinnu og dansað yrði á götum. En þegar ég gekk niður í bæ sá ég að fólk var alveg eins og það átti að sér. Það var eins og ekkert hefði gerst. Á þessum tíma átti ég mér fáa formælendur. Fólk hélt að ég væri hálftrylltur slæpingi að gera einhverja vitleysu. Fáir kunnu að meta texta mína af því að þeir voru ólíkir því sem menn höfðu vanist. Ég var leiður og hneykslaður á móttökunum, vissi ekki fyrr en löngu seinna að bókin hafði haft áhrif á þá sem mestu skipti, ungu mennina. Ég var einn á báti í þessu stríði. Atómskáldin huguðu að sínu og samfylktu undir einu merki. Ég var einn.
Ég á bágt með að sjá fyrir mér þann unga mann sem ég var. Hann er svo fjarlægur í tímanum. Hét bókin ekki Maðurinn er alltaf einn? Ætli hann sé ekki fremur aldrei einn. Þó að þær stundir komi að hann haldi annað býr alltaf eitthvað af öðrum í honum. En mér líkar nokkuð vel við þennan mann sem var þegar ég skoða bækurnar hans. Samt treysti ég mér ekki til að skýra út skáldskap hans. Það býr í mér einhver mótspyrna þannig að þegar ég reyni hlusta ég samtímis á orðin og gagnrýni þau. Ég get ekki sagt af hverju fugl eða fiskur, af hverju ekki dádýr eða einhyrningur. Ég get ekki talað í sundur þá goðsögn sem ég hef skapað með lífi mínu og reyni að tjá í skáldskap. Ég veit þó að ég hreifst mjög af existensíalismanum eins og hann birtist í fyrri verkum Alberts Camus og lífi listamanna í París. Sérstakar mætur hafði ég á L´Étranger eða Hinum framandi manni. Hins vegar varðaði Sartre mig litlu þótt ég sæi spekingnum bregða fyrir á Montparnasse og St. Germaine des Prés. Mér þótti Sartre ósnortinn og kaldur þótt hann talaði um skelfilegustu hluti, líkastur vélheild. Ég vildi bruna, einlægni og ímyndunarkraft. Verk Williams Faulkners skiptu mig miklu máli, einkum skáldsagan The Sound and the Fury. Í henni skynjaði ég jötun sem slagaði að stórleika upp í Dostóéfskí. Eftir að heim kom kynntist ég skáldsögum Becketts og þótti í þeim mikill fengur. Beckett skrifaði mikið um vonleysi og var sagður sætta sig við það. Lífsviðhorf hans eru skyld vissum þáttum í gnostíkinni sem eiga sér aftur hliðstæðu í nýja Kvintettinum hans Lawrence Durell: að maður verði að sætta sig við að djöfullinn ráði heiminum. Sætta sig við að ekki er hægt að steypa honum en standa samt upp í hárinu á honum. Ætli við komumst öllu lengra.
Úr „Maðurinn er aldrei einn“. Matthías Viðar Sæmundsson: Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið 1985.
Um höfund
Og svo framvegis: Um ritlist Thors Vilhjálmssonar
U
Thor Vilhjálmsson gerðist þegar með sínum fyrstu verkum atkvæðamikill nýsköpunarmaður í íslenskri sagnalist. Raunar er erfitt að setja fyrstu bók hann, Maðurinn er alltaf einn (1950), í nokkurn einn flokk bókmennta. Þetta eru 60 textar, flestir ein til tvær blaðsíður að lengd, sumir ljóð, aðrir geta kallast prósaljóð, enn aðrir mega teljast örsögur, svo gripið sé til hugtaks sem nú er farið að nota um mjög stuttar smásögur; og sumar sögurnar mætti þó fremur nefna skissur, myndrænar lýsingar augnablika á vegferð nafnlausra einstaklinga sem eru lesanda í senn framandlegir og kunnuglegir. Í bókinni eru svo reyndar líka níu myndir, teikningar eftir höfundinn, sem hefur alla tíð fengist við myndlist í hjáverkum og haldið nokkrar sýningar á þeim verkum sínum.
Fyrsta bók Thors er því að sínu leyti fjöllistaverk og forspá um þá miklu umbreytingasemi sem einkennir mörg síðari verk höfundarins og það frjálsræði sem hann leyfir sér í efnistökum, lítt hamlaður af reglum bókmenntategunda og framsetningar. En bókin er líka barn síns tíma. Oft hafa fyrstu verk Thors verið bendluð við franska tilvistarstefnu, enda dvaldi hann um hríð í Frakklandi á eftirstríðsárunum. Það var þegar Albert Camus og Jean-Paul Sartre þóttu klófesta tíðarandann og bregða upp þeirri heimsmynd sem hægt væri að sækja styrk til, þótt existensíalismi þeirra biði enga einfalda huggun í guðlausum heim sem á sér engan gefinn tilgang. „Líf vort liggur í hring frá því að vera ekki að því að vera ekki“, eins og segir í einni sögu Thors og minnir kannski á tilvistarstemmningu hjá Steini Steinarr í Tímanum og vatninu, en þessi mælandi reynist vera á gangi í París; hann fylgist með öðrum gera það sama og hann gerir og svo eyðist munurinn milli hans og annars, „ég“ verður „hann“.
Og allt er svo undarlegt og óskiljandi að hann þorir ekki að hugsa um hvers vegna og hvernig allt er, nei hann gengur um fylltur ótta við sína eigin hugsun, hún má ekki losna, verð að binda hana, ekki hugsa hvernig, ekki hugsa hvað, ekki hugsa – aðeins hugsa lítið smátt og dreift, ekki leysa hugsunina, sokkar, sokkar sokkar hugsa um sokka hugsa um svoleiðis grá föt skinnfeldi í Grænlandi hundaveður mandarína í heimsókn í Timbuktu tómatsafa í rúmið á morgnana Úralvatn og Astrakan stjörnuna Úranus og geislavirk efni kvenfólk – jahá þarna kom það loksins: hugsa um kvenfólk ekki eina margar […] (Maðurinn er alltaf einn, s. 32)
Í lok textans gengur hann áfram og
[…] horfir á nafnlausan fjöldann sem kemur honum ekki við og horfir þess vegna undrandi á hann og hlustar þess vegna undrandi á hann og fjöldinn rennur saman í eina heild sem er eins og tjald sem hreyfist fyrir golu, eins og þytur sem fer um lauf eða eins og eitthvað annað sem hann nennir ekki að hugsa um. Og hann gengur áfram og hugsar óþarfar einskisverðar hugsanir sem mynda saman andlegt líf á virkum degi í óveru og fábreytni hversdagsleikans gráa. Og svo framvegis. (33)
Þessi meginpersóna er nafnlaus einstaklingur og gengur undir fornafni sem ljóstrar að því er virðist eingöngu upp kyni hennar: hann. Slíkar persónur eru dæmigerðar fyrir sagnagerð Thors og setja meðal annars svip á skáldsögur hans á sjöunda og áttunda áratuginum. Nafnleysi „hans“ er tvíeggjað; það dregur fram einsemd hans og „óveru“ (orðið „óvera“ vísar á sinn hátt til þeirra hugsuða sem mest hefur kveðið að í existensíalískri heimspeki, einkum Heideggers og Sartre), en „hann“ rennur þó öðrum þræði saman við „nafnlausan fjöldann“, múginn sem oft hefur verið notaður sem tákn um firringu nútímalífs. En hér kemur líka fram mikilvægur munur á persónunni og miðli hennar, söguhöfundinum, munur sem kjarnast í sögumanninum sem stendur á milli þeirra og tengir þau jafnframt saman. Í tilvitnuninni hér að framan hefði getað staðið: „og fjöldinn rennur saman í eina heild sem hann nennir ekki að hugsa um.“ En þarna á milli hefur sögumaður skotið þessum orðum: „sem er eins og tjald sem hreyfist fyrir golu, eins og þytur sem fer um lauf eða eins og eitthvað annað“. Þessar myndir (sem gætu átt uppruna sinn í huga persónunnar, þótt erfitt sé að fullyrða um það) opinbera að nafnlaus fjöldinn kemur söguhöfundi heilmikið við, hann hellir sér út í hann og finnur þar sköpunarkraft lífsins, býr til úr umhverfinu myndhverfðan merkingarvef.
En þessi vefur er líka einkalegur, hann er spunninn í hugarfylgsnum sem standa langtífrá galopin. Það má ekki drukkna í mannhafinu og persónur Thors glíma iðulega við hugarheim sinn líkt og sjá má í tilvitnun hér að ofan þar sem persónunni er í mun að hafa tök á hugsuninni, láta hana ekki tvístrast. Í sögum Thors fer beinlínis og ítrekað fram umræða um veruleikaskynjun, um hlutverk skynfæranna og hugsunarinnar í tilverunni og gagnvart umheiminum. Maðurinn er einn og verður að geta verið einn með sjálfum sér, átt sín einkavé, en veruleiki hans er samt spunninn að stóru leyti úr lífinu fyrir utan; hann sér margt með ytri augum. Í manninum mæla fleiri en ein rödd og iðulega tekst textinn á við klofna vitund, hugsun eða skynjun sem ekki er hægt að kyrrsetja, því hún virðist koma úr ólíkum áttum og stundum verður samband okkar við aðra svo náið að við hendum ekki lengur röklegar reiður á því andlega samspili. Að þessu leyti liggur nokkuð beinn þráður milli fyrstu bókar Thors og fyrstu skáldsögu hans, Fljótt fljótt sagði fuglinn, sem út kom 1968. Þar segir á einum stað um „hann“:
Þá var hann skorinn sundur og skynjaði á tveimur sviðum en raddirnar hækkuðu og ætluðu að keyra hann inn í æði sitt, það var eins og vitund hans lægi yfir háskaleg takmörk, og hann vafði sig um línuna sem skildi milli, og fálmaði án þess að ná festu til að bjarga sér frá ógnarplani raddanna sem fóru inn í hann og hann var þræddur á strenginn og fann raddirnar fara inn í sig en átti ennþá lítið eftir hinumegin svo þær náðu honum ekki öllum, og geimurinn opnaðist inni í honum og hann var utan við veröldina og fann geiminn þenja sig með nýjum hvínandi stjarnþokum, og raddirnar hækkuðu og urðu að geimþyrli, ofhæðarsón, hann var að hverfa þangað; en hann áttaði sig og sá hund með rófuna milli fótanna og sitt kalda vota trýni niðri við jörð horfa með sakleysi sinna augna á hann […]. (Fljótt fljótt sagði fuglinn, s. 257-258)
Þessari málsgrein er ekki lokið, ég verð að benda lesendum á frumtextann vilji þeir sjá hana í heild en mun þó koma aftur að henni í því sem hér fer á eftir.
Athyglisvert er að titlar og einkunnarorð beggja bókanna, Maðurinn er alltaf einn og Fljótt fljótt sagði fuglinn, eru sótt til T.S. Eliot, þess áhrifamikla módernista. Í fyrrnefndu bókinni er vitnað til ljóðleiksins The Cocktail Party og sótt þangað m.a. þessi orð: „There is nothing to escape from / And nothing to escape to. One is always alone.“ Í þeirri síðari standa þessi orð úr Four Quartets: „Other echoes / Inhabit the garden. Shall we follow?“ en næstu orð hjá Eliot eru: „Quick, said the bird, find them […]“. Ætla má að Thor hafi nokkurt eftirlæti á Four Quartets, því þangað sækir hann líka einkunnarorð fyrir Grámosinn glóir (1986) og fyrri hluta Náttvíga (1989). Væntanlega hefur hin tilvistarlega sýn Eliots á einsemd, tímann, endurtekninguna og ákall annarra radda skipt Thor miklu máli (þótt ætla megi að hann eigi ekki samleið með Eliot í pólitískum og trúarlegum efnum). Það ákall eða bergmál goðsögulegra viðfangsefna sem setur svo mikinn svip á ljóðabálk Eliots, The Waste Land, er einnig megineinkenni á Fljótt fljótt sagði fuglinn, þótt með öðrum hætti sé.
M<
En hér hefur verið tekið fulllangt stökk frá fyrstu bók Thors til fyrstu skáldsögu hans, sem birtist ekki fyrr en hann er orðinn 43 ára, með mikla reynslu og fjölbreytilegan feril að baki. Þegar Maðurinn er alltaf einn kom út var Thor hálfþrítugur að aldri. Hann fetar sig rólega áfram á ritlistarbrautinni í fyrstu. Fjórum árum síðar birtast Dagar mannsins (1954) með 40 stuttum sögum og 7 teikningum. Titill verksins og fjöldi sagnanna gætu bent á Biblíuna og það virðist undirstrikað með einkunnunarorðum sem sýna hvaðan titillinn kemur: „Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni, þegar vindur blæs á hann er hann horfinn“ (Davíðssálmar, 103, 15-16). Þessari tilvitnun fylgja svo orð Goethes um flökkumanninn á jörðinni, og saman tjá þessar skírskotanir togstreituna í textum Thors milli kyrralífsmynda „á mörkinni“ og eirðarlausra ferðalaga vissra persóna, sem sumar hverjar eru einhverskonar útlagar.
Næsta bók, Andlit í spegli dropans (1957), er að ýmsu leyti sem eðlilegt framhald hinna fyrri; hér eru að vísu nokkrar lengri sögur og stuttu sögurnar eru felldar saman í ríflega hundrað blaðsíðna flokk sem nefnist „Hin“ og ber undirtitilinn „Nokkrar litlar myndir af manneskjunni í hinum stóra heimi“. Ef til vill er fulldjarft að kalla þennan flokk afbrigði við skáldsagnaformið, en höfundinum er þó ljóslega í mun að lesandi sjái samhengi í viðfangsefnum sínum og efnistökum. Þarna kynnast lesendur vissulega aðstæðum og mannlegum samskiptum sem áttu eftir að leita ítrekað á höfundinn í síðari verkum. Í bókinni má sjá hvernig Thor er að ná þeim meistaratökum á mannlýsingum sem gagnast honum drjúgt síðar. Lýsingar á mannverum, ekki síst andlitum, eru dramatískar, og í og með er hér lýst sviðsetningum; þetta er fólk sem treður upp í lífsleikhúsinu. Thor leikur sér gjarnan að því að ýkja drætti og hreyfingar, þannig að stundum er um giska skoplegar myndir að ræða, þótt aðrar lýsingar spanni dýptina í mannlegri einsemd og ólgu ástalífsins.
Næstu bækur Thors eru ferðabækur, þrjár talsins á jafnmörgum árum: Undir gervitungli (1959), Regn á rykið (1960) og Svipir dagsins, og nótt (1961). Hin fyrsta fjallar að mestu um ferð höfundarins um Sovétríkin en í hinum fer hann víða um Evrópu sem er enn að rétta úr kútnum eftir síðari heimsstyrjöldina, en stendur á tímamótum sem vekja ferðalanginn til umhugsunar jafnt um samtíma sem menningarsögu þessarar álfu - þannig eru til dæmis hugleiðingar um húmanistann Erasmus frá Rotterdam spunnar saman við ferðalýsingarnar í Svipir dagsins, og nótt. Skáldið ferðast í lestum milli borga Evrópu og gengur um þær „eins og myndasafnari“ (Regn á rykið, s. 35); lýsir því sem fyrir augu ber, mannlífi, umhverfi og listaverkum, auk þess sem hann hittir fyrir fólk og ræðir við það ýmis málefni. Stundum fer myndskynjun hans og ímyndunarafl á flug; vitundarlífið lætur ekki hemjast af því sem fyrir augu ber og stundum myndast togstreita innra með ferðalangnum: „Sérðu kannski ekki húsin? Sérðu ekki vatnið streyma og streyma? Hvað viltu sjá? En þegar hann finnur að hin fjarlæga mynd úr minnisdjúpinu er komin of nærri og ætlar að flæða yfir hitt sem er, þá kennir hann hættunnar og flýtir sér að forða sér úr fortíðinni frá morgni þessa dags“ (Svipir dagsins, og nótt, s. 143). En við skulum geyma með okkur þessa mynd af mynd sem er um það bil að flæða yfir mynd.
Ferðabækur Thors lýsa einum þræði menningarreisum; þær eru króníkur manns sem drekkur í sig list og bókmenntir úr sögu sem samtíð. Stundum leitar hugurinn heim, eins og þegar skáldið situr á hótelsvölum í Júgóslavíu „og kannski var hann að gá að því hvort hann sæi skemmtisnekkju með stórum seglum flytja skáldleg fyrirheit á milli þarna úti í mistrinu, djarfa fyrir þeim seglum líkt og ósegjanlegu leyndarmáli í lítilli gamalli vatnslitamynd frá Austfjörðum eftir Jóhannes Kjarval“ (Svipir dagsins, og nótt, s. 143). Næsta bók Thors var reyndar Kjarval (1964), þar sem hann leggur til umfjöllun og samræðutexta með myndum þessa málara sem hefur greinilega verið honum mikilvægur. En í ferðabókunum er áherslan þó meiri á þá mynd af Evrópumenningu sem Thor vill sýna íslenskum lesendum sínum. Þessi umfjöllun á sér glögga samsvörun í framlagi Thors til tímaritsins Birtings, sem átti blómaskeið um þessar mundir. Thor sat í ritstjórn tímaritsins ásamt m.a. Einari Braga sem var upphafsmaður þess. Í Birting skrifaði Thor ýmsar greinar um listir, bókmenntir og menningarmál, og var hann t.d. á þeim tíma sá sem lagði hvað mest til íslenskrar umræðu um kvikmyndalist. Í Birtingi birtist einnig leikþáttur eftir Thor: „Ætlar blessuð manneskjan að gefa upp andann?“ (1963).
Thor hélt áfram að skrifa pistla og greinar um listir, menningu og þjóðfélagsmál — úrval þeirra birtist t.d. í bókunum Fiskur í sjó, fugl úr beini (1974) og Faldafeykir (1979) - og hann heldur einnig áfram ferðalögum sínum. Ferðalög hans og menningarumræða eru raunar mjög samofnir lífsþræðir, eins og sjá má í bókunum Hvað er San Marino? (1973) og Fley og fagrar árar (1996).
T
Tímaritið Birtingur var mikilvægur vettvangur módernisma og umræðu um hann á Íslandi. Thor Vilhjálmsson og aðrir sem ritinu stýrðu og rituðu í það voru alla jafna talsmenn róttæks menningarlegs nútíma og vildu stuðla að nýsköpun í bókmenntum og listum, ekki síst með því að veita heim straumum módernisma og fylgjast með úrvinnslu hans meðal samtímamanna á Vesturlöndum. Þegar hér var komið sögu eru um fjórir áratugir liðnir síðan sum þekktustu verk módernismans litu dagsins ljós í Evrópu, en þessi straumur hafði mætt mikilli fyrirstöðu á Íslandi. Skörð voru að vísu komin í ýmsa virkisveggi, en varla þó svo heitið gæti í vígi skáldsögunnar. Þar nær módernisminn ekki að streyma inn fyrr en um og eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar í skáldsögum höfunda eins og Guðbergs Bergssonar, Svövu Jakobsdóttur, Steinars Sigurjónssonar og Þorsteins frá Hamri. Áðurnefnd fyrsta skáldsaga Thors, Fljótt fljótt sagði fuglinn, sem út kom 1968, var eitt af lykilverkum þessarar bylgju, og markar jafnframt upphaf á samfelldu og afar frjósömu tímabili í skáldsagnagerð Thors, sem stóð í rúmlega áratug.
Í verkum sínum ögra módernískir höfundar með einu eða öðru móti því munstri skilnings og boðskipta sem viðtekið er í borgaralegum samfélögum Vesturlanda. Sumir þeirra gera þetta með því að sviðsetja í verkum sínum samræður nútímans og goðsagna, eða opna rás þarna á milli sem sneiðir hjá rökvísi vestrænnar hugsunar og blindni hennar á ýmis öfl sem búa með manninum. Þannig eru könnuð tengslin milli hins innra lífs hans og þeirra grunnþátta mennsku og náttúru sem í honum búa og geta orðið honum skeinuhætt jafnframt því sem þau eiga þó svo drjúgan þátt í lífsvilja hans. Skömmu áður en módernisminn braust fram af hvað mestum þunga á þriðja áratug tuttugustu aldar hafði birst mikið mannfræðilegt verk um forn trúarbrögð og goðsögur, The Golden Bough, eftir James George Frazer (fimmtán bindi 1890-1915; samantekt í einu bindi 1923). Sumir af lykilhöfundum módernismans, t.d. T.S. Eliot og James Joyce, sóttu í smiðju Frazers hugmyndir og minni sem þeir nýttu sér í verkum sínum.
Í skáldsögum Thors er iðulega vísað til goðsagna og ljóst er að höfundur telur að skýringa á mannlegu atferli megi leita þar ekki síður en í skýringakerfum sem rökbundin eru á nútímavísu. Thor hefur meðal annars sótt í áðurnefnt verk Frazers, t.d. í umfjöllunina um skógarkonunginn, sem er í senn holdgervingur lífsþrár, frjósemi og dauðaangistar, en sagan af honum myndar einn af þráðunum í Fljótt fljótt sagði fuglinn. Karlmaðurinn, ferðalangurinn, sem er þungamiðja verksins, þótt óræð persóna sé að ýmsu leyti, á sér vissa samsvörun í skógarkonunginum. En þessi ferðalangur er staddur í evrópskum samtíma, og raunar í Suður-Evrópu, og lendir þar í mannfögnuði í höll hjá málara nokkrum. Höll þessi, sem er birtingarmynd evrópsks menningararfs, verður líka að einskonar völundarhúsi nútímans, þar sem ferðalangnum gefst færi á að dýrka Eros en lendir jafnframt á flakki um ganga þar sem dyr opnast inn á mörg svið, meðal annars út í ógnarviðburði samtímans, eins og stríðið í Víetnam, en einnig inn í hans eigin hugardjúp, minningar, þrár og ótta.
Eitt af því sem ferðalangurinn óttast, eins og þegar hefur komið fram, er að vitundin ókyrrist svo mjög að í henni verði ekki greint á milli radda og tímasviða. Sjálft skáldverkið er í raun birtingarmynd slíkrar ókyrrðar. Víða eru óljós mörk á milli hinna ýmsu persóna, samræðna, hugsana, atburða og tímasviða. Myndflæði verksins lætur ekki stjórnast af röklegum frásagnarlögmálum og sá hversdagslegi tímaskilningur sem virtist búa í áður tilvitnuðum orðum - „og svo framvegis“ - fer úr skorðum og þetta orðalag virðist nú frekar vísa til óræðrar framvindu. Við höldum áfram eftir ganginum, borgarstrætinu eða skógarstígnum en vitum ekki með vissu hvað bera muni fyrir augu við næstu dyr, í næsta rjóðri. Borgin og skógurinn virðast ekki eiga margt sammerkt í nútímanum, umfram það að stórborginni er stundum líkt við frumskóg. En Thor skapar ýmis tengsl á milli þessara tilvistarsviða; borgin er í senn helsta viðmið og náttúrusvið nútímalífs en skógurinn er áminning þess að maðurinn er náttúruvera í dýpri skilningi, sem á sér rætur lengra aftur í tímann en rökvit fær höndlað.
Næsta skáldsaga Thors, Óp bjöllunnar (1970), hefst einmitt í skógi þar sem sjö mannverur eru á gangi. Þær halda til gamallar hallar sem einn maðurinn hefur erft. Að einu leyti eru aðstæður hér með þeim hætti að líkja má við gamalkunnan frásagnarramma: nokkrar manneskjur ferðast eða dvelja saman um stund og skemmta hver annarri með samræðum og sögum. Og líkt og í Fljótt fljótt sagði fuglinn bregður hér fyrir gamalkunnu minni, nefnilega ástarþríhyrningnum. En umfram þessi grunnstef getur orðið erfitt að henda reiður á framvindu sögunnar, ekki síst vegna þess hve óljós skilin eru milli innra lífs persónanna og frásagna af atburðum eða aðstæðum sem þær hafa lent í. Sjónarhornið flöktir iðulega, þannig að lesandi getur ekki ævinlega verið fullviss um hver það er sem skynjar eða hugsar. Skáldsagan er ofin úr misáþreifanlegum lífsþráðum persónanna, fantastísku hugarflugi jafnt sem sársaukafullum minningum og það er sem hin minnstu smáatriði geti breytt miklu, enda er ávallt spurning hvað telst smáatriði ef það hrindir af stað minningum, myndskynjun, eða einhverskonar hugsun, því eins og segir á einum stað: „Hugsunin myndbreytti sviðinu“ - en í framhaldi af því segir: „og tók burt skóginn og setti hraun með laufblautum hríslum […]“ (Óp bjöllunnar, s. 121). Hér sem víðar í sögum Thors er líkt og hið erlenda sögusvið sé dregið frá andartak og fram komi íslensk landslagsskynjun. Raunar er að sjá sem unga stúlkan, sem stendur nálægt miðju þessa skáldverks og leikur stórt hlutverk í lífi að minnsta kosti tveggja karlmanna, sé íslensk.
Í skáldsögunni Mánasigð (1976) er í fyrstu að sjá sem lesandi geti fylgt einni persónu eftir og því náð betri áttum en í áðurnefndum skáldsögum. En einkunnarorðin úr Alice in Wonderland ættu að vera okkur viðvörun, því þar segir m.a.: „How puzzling all these changes are. I'm never sure what I'm going to be, from one minute till another!“ Maður nokkur er staddur í lest en er að hugsa um annan mann, sem farinn er úr lestinni en hafði sagt sögu um baráttu sína við öfl sem ofsóttu hann. Síðar verður óljóst hvort þetta er einn og sami maðurinn eða hvort sá fyrri er að hugsa sér og búa til sögu hins. Þeir verða einhverskonar tvífarar í sögunni, í senn hann og þeir. Skáldsagan er marglaga ferðalag, eins og stundum er raunin í sögum Thors; ein frásögn vex út úr annarri, og svo önnur úr henni, og smám saman er spunninn mikill vefur í kringum þennan tvífara, en ferð hans er öðrum þræði flótti undan öfgaöflum nútímans, pólitískum jafnt sem trúarlegum. Mánasigðin í titlinum gæti m.a. vísað í senn til Sovétríkjanna og til trúarhóps hinna svokölluðu Moonista, en við sögu kemur „doktor Lúna“ nokkur, með boðskap handa þeim sem leita að „himnesku bræðralagi á jörð“ (s. 72). Ástin er þó jafnframt grunnþráður í þessum vef og aldrei er langt undan kona eða konur sem eru tvíförunum samferða og eiga margt við þá saman að sælda, og þó verður stundum ekki betur séð en að „hann“ sé hugarburður „hennar“, en jafnframt gæti verið að sagan öll eigi sér stað í huga ferðamannsins, sem við hittum fyrir í lest á ný á lokasíðum þessarar stærstu skáldsögu Thors.
Í Mánasigð er iðulega minnst á augu sem horfa, og í sögunni er m.a. auga, ef til vill innra auga, sem statt er á Íslandi, þótt atburðasvið sé greinilega í útlöndum. Í næstu skáldsögu Thors, Turnleikhúsinu (1979), verður hins vegar ekki betur séð en ferðalangur okkar sé í upphafi sögu staddur á Fróni og meira að segja í mannþröng fyrir utan Þjóðleikhúsið. Hann berst inn í húsið og þar hvíslar einhver að honum: „Farðu upp í turninn, og talaðu við Ólaf Davíðsson“ (9). Aldrei skýrist til fulls hver þessi Ólafur Davíðsson er, eða hvort þetta er vísun til hins kunna þjóðsagnasafnara á síðari hluta 19. aldar - og þá hugsanlega til þess að ferðin í skáldsögunni sé einn allsherjar þjóðsagnaleiðangur manns í leit að sjálfum sér og sínum sögum. Sú ferð er ævintýraleg í meira lagi, því leikhúsið reynist vera völundarhús þar sem stundaðar eru ýmsar listir og lífsins lystisemdir. Thor hefur löngum staldrað við samfundi karls og konu í verkum sínum og er einn fárra íslenskra höfundar sem lagt hefur listrænan metnað í erótískar lýsingar, en sennilega aldrei eins ákaft og í Turnleikhúsinu, því það fer fyrir ferðalangi þessum eins og Ódysseifi forðum, að konur verða til að tefja för hans og ekki alltaf með óþægilegum hætti.
H
Þau fjögur verk sem rædd eru hér að framan, Fljótt fljótt sagði fuglinn, Óp bjöllunnar, Mánasigð og Turnleikhúsið, eru öll meðal helstu skáldsagna íslensks módernisma. Erfitt getur reynst að kortleggja sögusvið þeirra og mörk persónanna eru iðulega óljós, en þetta er vegna þess að viðfangsefni þessara verka er víðfeðmt og tekur að ýmsu leyti með almennum hætti til stöðu einstaklingsins á Vesturlöndum á tímabili velmegunar og kalda stríðsins. Hver er staða mannsandans á slíkum tíma, hvert er frelsi hans og hvaða hættur steðja að því? Það losnar um ýmis höft á sviði listarinnar en hver er merking hennar í heimi efnishyggju og yfirvofandi ógnar? Og til móts við þessa heimsmynd leiðir Thor ástina, leitina að henni, leitina að förunaut - jafnvel leit að þeim sem er með manni í för - og þetta ferðalag, þar sem skammt er milli nautnar og angistar, reynist vera nátengt baráttu mannsins við að þekkja sjálfan sig.
En þessi stóru, „alvarlegu“ þemu koma ekki í veg fyrir gamansemi, því kímni er viðvarandi einkenni á texta Thors. Hún birtist stundum í lýsingum á persónum og tilburðum þeirra eða í snöggum sagnaspuna útfrá meginrás sögunnar hverju sinni, og oftar en ekki í orðaleikjum, leiftrandi og stundum galsafengnum leik með tungumálið. Fuglaskottís (1975) er sú skáldsaga Thors sem fengið hefur mestan skerf af húmor, sem leynir meira á sér í hliðstæðu samhengi í hinum skáldsögunum. Í Fuglaskottís eru nafngreindar íslenskar persónur staddar í Róm og segir af samveru þeirra og annarra, ekki síst umsvifamiklu samkvæmi þar sem margt er spjallað og stundum virðist sagan þeytast út um víðan völl, með ýkjum og fáránleika öðrum þræði, þótt jafnframt megi hér sjá djúpsigld tilvistarmál og víða er sem sagan snúist inn í sjálfa sig og taki eigin tilvist til skoðunar. Thor skopstælir hér ákveðna íslenska manngerð, hinn galvaska burgeis, sem heitir hér „Ármann“, og er hress og fer mikinn; hann lætur dæluna ganga um hvaðeina og tekur að sér að vera fulltrúi almennings:
Maður á að sjá björtu hliðarnar í tilverunni, segir Ármann: þessvegna á öll músík að vera létt og glaðleg, og listin á að vera til þess að hressa fólk og örva; en ekki draga það niður. Og ég vil hafa myndir sem maður getur séð af hverju þær eru, og það getur maður í þessari gömlu list sem þessi borg er svo full af. Guði sé lof. Ég vil hafa það hressilegt. Ekki neinn drunga eða bölsýni. Eða eitthvað óskiljanlegt; einsog hjá þessum nýmóðins listamönnum sem hafa ekkert samband við okkur þetta venjulega fólk sem tilveran er full af. (Fuglaskottís, s. 93)
Áður hafði Thor farið á kostum í skopstælinu í bókinni Foldu (1972) sem hefur að geyma þrjár sögur og í hverri þeirra er sviðsett íslenskt ferðalag sem er dæmigert með einhverjum hætti: saga af hrakningum á fjöllum, hópferð til framandi lands (Kína - með viðkomu í Kaupmannahöfn og Moskvu), og skemmtiferð á suðrænar slóðir. Ferðalangar í þessum sögum eru býsna ólíkir þeim sem við kynnumst í flestum skáldsögum höfundar, því þetta fólk, þótt það sé á ferð og flugi, er svo rækilega fast í sinni „foldu“ að það opnar lítt hugann fyrir nýjum og framandi veruleika.
Árið 1977 kom út sagnasafnið Skuggar af skýjum, en í því sést ágætlega fjölhæfni Thors sem sagnaskálds. Þar er að finna sögur með skopstælingarbrag, en einnig sögur sem eru í anda áðurnefndra skáldsagna, og sumar enduróma jafnvel stemmningar úr sögum frá sjötta áratugnum, þ.e. í fyrstu bókum Thors.
Eins og áður var drepið á, átti Thor með afbrigðum drjúg og farsæl rithöfundarár frá og með Fljótt fljótt sagði fuglinn. Á tólf árum birtust eftir hann fimm skáldsögur, tvö söfn styttri sagna og þrjú greinasöfn. Turnleikhúsið markar að vissu leyti endalok þessa tímabils. Ætla má að við taki tímabil íhugunar. Lýrík er veigamikill þáttur í sagnaverkum Thors og víða má ætla að prósatexti hans sé beinlínis ortur sem ljóðmál væri. Í fyrstu bók hans voru og nokkur ljóð sem fyrr sagði og nú tekur hann að fást aftur við ljóðið sem form. Árið 1981 kom út í Bandaríkjunum safn ljóða sem Thor orti á ensku: The Deep Blue Sea, Pardon the Ocean, og árið eftir birtist lítil kver, Ljóð Mynd, þar sem saman leika á síðum myndir eftir Örn Þorsteinsson og ljóð eftir Thor. Þar er meðal annars þetta ljóð:
Á lind
sindur
glampar hreyfir vindur bárukvik
önd
bönd
binda ekki leyfir leik um stund
Þeir Thor og Örn áttu eftir að skapa saman tvö slík bókarverk í viðbót: Spor í spori (1986) og Sporrækt (1988). Náin tengsl Thors við myndlistina áttu eftir að koma enn frekar fram á næstu árum, til dæmis í bók hans um Svavar Guðnason (1991) og í samvinnu hans og annars myndlistarmanns, Páls Guðmundssonar á Húsafelli, en Thor hefur ort ljóð við myndverk hans.
Í ljóðinu hér að framan má sjá stuðlun, hljóðlíkingar og rímleik sem Thor iðkar einnig í prósatextum sínum og ljóð hans geyma augnablik og myndir sem útfærðar eru margfaldlega í sögunum. Ströndin og fuglinn, fyrirbæri sem ofin eru inní flókinn vef sagnanna, birtast til dæmis í tærum einfaldleika í eftirfarandi ljóði úr ljóðabókinni Snöggfærðar sýnir (1995):
Strönd
fótspor
af fugli
í spori
mannsinssær
Hitt er svo umdeilanlegt hvort „snöggfærð sýn“ á betur við ljóð eins og þetta - sem er allt eins kyrrlát, íhuguð sýn - eða við myndvefnað Thors í skáldsögunum, þar sem hver snöggfærð sýnin tengist annarri, oft sem á hröðu flugi þess fugls sem hér hefur tyllt fæti andartak í fótspor manns.
O
Í hléi því sem verður á sagnagerð Thors eftir 1979 fæst hann ekki eingöngu við ljóðlist, því hann tekur einnig að sinna þýðingum. Hann hafði komið nálægt þýðingum áður, einkum á leikritum (þýddi t.d. Horfðu reiður um öxl eftir John Osborne 1959) og 1982 þýddi hann hið fræga leikrit Eugene O'Neill, Dagleiðin langa inn í nótt, fyrir Þjóðleikhúsið. Þýðingin var gefin út 1983 og sama ár birtist þýðing hans á öðru víðfrægu verki, skáldsögunni Hlutskipti manns eftir franska höfundinn André Malreux. Fyrir þá þýðingu hlaut Thor Menningarverðlaun DV í bókmenntum. Enn meiri athygli vakti þýðing Thors árið eftir á skáldsögu Umberto Eco, Nafni rósarinnar sem þá var á mikilli sigurför um heiminn.
Þessi þýðing varð til þess að ýmsir lesendur kynntust stílfimi og orðkynngi Thors í fyrsta sinn og voru því kannski fúsari en ella að taka opnum huga mót næstu frumsömdu skáldsögu hans, en hún kom út 1986 og ber heitið Grámosinn glóir. Viðtökurnar voru með ólíkindum; bókin sat efst á metsölulistum en fram að því höfðu sagnaverk Thors almennt selst treglega enda hann haft orð á sér fyrir að vera heldur erfiður og óaðgengilegur höfundur. Nokkuð bar á því viðhorfi að Thor væri loks kominn til fósturjarðarinnar í viðfangsefni sínu jafnt sem sögusviði, auk þess sem hér væri gleggri söguþráður en í fyrri skáldsögum hans. Fyrir bókina hlaut Thor Menningarverðlaun DV 1987 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1988.
Grámosinn glóir snýst um ferð sýslumanns nokkurs og skálds um héruð norðan heiða og síðan dvöl hans á bóndabæ þar sem hann réttar í sakamáli er varðar sifjaspell og afdrif barns sem var ávöxtur þess sambands. Fleiri lenda þá fyrir „rétti“ en systkinin sem í hlut eiga, því að andspænis þessu máli tekur sýslumaður að glíma við sjálfan sig sem manneskju og skáld (þess má geta að sagan er að hluta til byggð á sambærilegu máli sem Einar Benediktsson réttaði í þegar hann var sýslumaður um skeið). Að lokum er sýslumaðurinn óhjákvæmilega „dæmdu“ maður, við sjáum „sársaukann í svip hins niðurbrotna manns sem hafði hrapað af tindi valdsins, fann sér ekki stoð í nauð sinni“ (s. 212). Allt mannlíf sögunnar reynist háð spurningum um ábyrgð og samúð, sekt og sakleysi jafnt athafna sem tilfinninga. En mannlíf verksins og hugarástand persónanna glóir ekki síst vegna þess hvernig það er látið speglast í náttúru landsins. Henni er ljáð mál sem er í senn ríkulegt landslagsmálverk og texti sem í hljómfalli sínu og myndmáli vísar út yfir hlutbundna merkingu.
Sakamálið og ferðin um íslenskt landslag mynda epísk leiðarhnoð í þessu verki, en hinsvegar er vart hægt að tala um að höfundur hafi kúvent frá fyrri frásagnarlist sinni. Reyndar má segja að Grámosinn geti veitt lesendum mikilvæga innsýn í eldri verkin, því í honum verðum við eftir sem áður að mæta þeirri miklu ögrun sem einatt felst í orðabúskap og stíl Thors, í texta þar sem iðulega er klippt á ljósan söguþráð. Þeir sem fá notið hinna margslungnu náttúrulýsinga Grámosans munu einnig skilja það „myndsækna auga“ sem flakkar frá einu sögusviði til annars í fyrri bókunum. En sum hinna eldri verka geta raunar einnig myndað slíkan „inngang“ í sagnalist Thors, þótt á annan hátt sé, til dæmis Folda og Fuglaskottís.
R
Þegar Grámosinn glóir kom út var Thor kominn á sjötugsaldur. Ekki hefur hann slegið slöku við eftir það, heldur verið í senn afkastamikill og fengist við afar fjölbreytileg viðfangsefni. Auk þess að fást við ljóðagerð, sem þegar hafa verið nefnd, hefur hann fengist áfram við þýðingar. Hann hefur þýtt sögur úr spænsku, frönsku, ítölsku og portúgölsku: Hús andanna eftir Isabel Allende (1987), Austurlenzkar sögur eftir Marguerite Yourcenar (1991), Lát hjartað ráða för eftir Susanna Tamaro (1995) og Alkemistann eftir Paulo Coelho (2000). Eins hefur hann haldið áfram skrifum um menningu, þjóðfélagsmál og ferðir sínar um heiminn, og raunar einnig ritað um bernsku sína í bókinni Raddir í garðinum (1992).
Á þessu tímabili hefur hann og samið þrjár skáldsögur, sem eru innbyrðis mjög ólíkar að inntaki og efnistökum. Náttvíg (1989) er samtímasaga úr Reykjavík og er sögumaður leigubílstjóri sem verður nauðugur þátttakandi í glæpaför og tekur síðan einnig þátt í að hafa upp á sakamönnunum í undirheimum borgarinnar. Inní söguna fleygast minningar sögumanns um sjómennskutíð sína, um ástamál og návist dauðans. Skáldsagan er býsna djörf tilraun til að tefla saman annarsvegar þeim þéttriðna og svipmikla stíl, sem Thor beitir allajafna til að lýsa hugarþeli og skynjun, og hinsvegar hráu samtímaumhverfi og rustalega talmáli. Stundum virðast ólík málsnið verksins vera í óþægilegu sambýli, en annarsstaðar finnur höfundur sannfærandi milliveg: „Hausinn á mér var allur í slitrum, einsog ógnarlangur ormur skorinn í ótal iðandi parta, hver með sínum lit og ljósagangi og engdust í loftinu fyrir augum mér undan því að ná ekki saman í sína upphaflegu mynd eða aðra endanlega“ (s. 133).
Í næstu skáldsögu, Tvílýsi (1994), sem ber undirtitilinn Myndir á sýningu, er höfundur á kunnuglegri slóðum, bæði hvað varðar framandi sögusvið og framsetningu. Þessi móderníska saga kallast á við skáldsögur Thors frá sjöunda og áttunda áratugnum; hér er fjölstefja ástarsaga spunnin innan ramma sem markast af dauðamynd: drukknuðum manni er lyft úr sæ við höfn. Innan ramma þessarar myndar (sem birtir dauða og upprisu í senn) blómstrar fjölskrúðugt líf, náttúrulíf borgar þar sem Thor leiðir fram ýmsar aukapersónur sem skera sig úr fjöldanum: trúður, dvergur, heyrnarlaus maður og annar blindur, en þarna eru umfram allt karl og kona að kanna flóknasta samskiptaform veraldar, það sem kennt er við ást.
Morgunþula í stráum (1998), sem færði Thor Íslensku bókmenntaverðlaunin, er söguleg skáldsaga byggð á ævi og örlögum eins þekktasta manns Sturlungaættar á 13. öld, hins rómaða Sturlu Sighvatssonar. Thor endurskapar hetjuna þannig að hún verður líkt og tengiliður við nútímann. Þeir lesendur sem búast við að Thor þræði mjög götur Sturlunga á Fróni kunna að verða hissa á því að stór hluti sögunnar er lagður undir pílagrímsferð Sturlu til Rómar. Sturla segir Solveigu konu sinni að hann þurfi að fara og fá aflausn synda sinna hjá páfanum. „Þú blekkir mig ekki“ segir hún og spyr hvort hann sé ekki bara að næra hégóma sinn (s. 86). En hversvegna fer Sturla í þessa miklu ferð; hversvegna leggst hann í ferðalag sem er svo langt og erfitt að tæknivæddir nútímamenn geta vart gert sér þessa fyrirhöfn í hugarlund? Kannski vegna þess að hann er búinn að týna sjálfum sér á Íslandi; hann þarf að fara til að horfast í augu við sjálfan sig og reynslu sína. Það gerir hann og sú ferð liggur djúpt inn í hann sjálfan. Á ferð um Evrópu er sem hann sjái til botns í hyldýpi þeirrar skálmaldar sem hann er þátttakandi í heima fyrir. Harmleikur sögunnar felst í því að þessi ferð Sturlu er honum samt ekki nægilegur lærdómur, ekki nógsamleg eldvígsla. En ferðin megnar að opna augu lesandans og getur einnig leitt hann til aukins skilnings á mikilvægi hinna mörgu og fjölbreytilegu ferðalaga í höfundarverki Thors Vilhjálmssonar.
© Ástráður Eysteinsson 2001.
Greinar
Almenn umfjöllun
Ástráður Eysteinsson: „Er ekki nóg að lífið sé flókið? Um sögu, sjálf og karlmynd í Grámosinn glóir og fyrri verkum Thors Vilhjálmssonar“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 3. tbl. 1987, s. 310-327
Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 258-276
Ástráður Eysteinsson: „Í útlöndum. Um róttækni Thors Vilhjálmssonar“
Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 417-29
Ástráður Eysteinsson: „Maður með sverð og annar með fuglsfjöður : um Sturlunguskáldsögur Thors Vilhjálmssonar“
Stína 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 6-16.
Ástráður Eysteinsson: „Munaður sálarinnar : blöðum flett í æviverki Thors Vilhjálmssonar“
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 4-19.
Bjarni Benediktsson: „Thor Vilhjálmsson“
Bókmenntagreinar. Reykjavík: Heimskringla 1971, s. 255-259
Guðmundur Andri Thorsson: „Thor“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 47-49
Helga Kress (ritstj.): Fuglar á ferð. Tíu erindi um Thor Vilhjálmsson
Reykjavík: Háskólaútgáfan 1995
Matthías Viðar Sæmundsson: „Einfarar og utangarðsmenn. Um nokkrar sögur eftir Thor Vilhjálmsson og Geir Kristjánsson“
Skírnir, 155. árg. 1981, s. 52-100
Matthías Viðar Sæmundsson: „Maðurinn er aldrei einn“ Viðtal við Thor Vilhjálmsson
Stríð og söngur. Reykjavík: Forlagið 1985, s. 129-165
Matthías Viðar Sæmundsson: „Thor Vilhjálmsson (1925- )
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 349-355
Sigurður Ólafsson og Sölvi Björn Sigurðsson: „Hið djúpa yfirborð.“ Viðtal við Thor Vilhjálmsson og Guðberg Bergsson
Blóðberg, Reykjavík: höfundar, 1998
Sigurður Pálsson: „Thor Vilhjálmsson : in memoriam“ (eftirmæli)
Skírnir 2011, 185. árg., vor, bls. 204-13.
Tómas R. Einarsson: „Að ná hljómi í djúpinu.“ Viðtal við Thor Vilhjálmsson
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 4. tbl. 1994, s. 8-18
Örlygur Sigurðsson: „Thor Vilhjálmsson kominn heim“
Viðtal við skáldið
Líf og list, 1.árg., 7. tbl. 1950, s. 12-13
Örn Ólafsson: Rit Thors Vilhjálmssonar
NN: NN 2016
Um einstök verk
Fljótt, fljótt sagði fuglinn
Kristján Jóhann Jónsson: „Hver er maðurinn? Athugun á nokkrum atriðum í frásagnartækni og tilvísunum“
Reykjavík: Rannsóknarstofnun í bókmenntafræði 1978
Ólafur Jónsson: „Veröld ástar og dauða, 1“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir.
Reykjavík: Iðunn 1979, s. 134-137
Peter Hallberg: „Við vitum ekki hvort þau hafa andlit“
Tímarit Máls og menningar, 33. árg. 1.-2. tbl. 1972, s. 119-134
Sveinn Skorri Höskuldsson: „Fljótt, fljótt sagði fuglinn“
Skírnir, 143. árg. 1969, s. 248-50
Folda
Helga Kress: „Heima er best. Nokkur orð um íslenskan veruleika í Foldu eftir Thor Vilhjálmsson“
Skírnir, 148. árg 1974, s. 195-206
Grámosinn glóir
Ástráður Eysteinnson: „Er ekki nóg að lífið sé flókið? Um sögu, sjálf og karlmynd í Grámosinn glóir og fyrri verkum Thors Vilhjálmssonar“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg. 3. tbl. 1987, s. 310-27
Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 258-276
Halldór Guðmundsson: „Í skuggsjám heilans himnar glitra“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg. 1. tbl. 1988, s. 110-3
Margrét Eggertsdóttir: „Grámosinn glóir“
Skírnir, 161. árg 1987, s. 386-96
Svala Þormóðsdóttir: „...stef vakna að nýju. Um táknræna þætti skáldsögunnar Grámosinn glóir“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg. 2. tbl. 1993, s. 51-61
Ljóð mynd
Halldór Björn Runólfsson: „Ljóð mynd. Ritdómur“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg. 5. tbl. 1983, s. 579-81
Maðurinn er alltaf einn
Berglind Steinsdóttir: „Hversu margur er maðurinn? Hugleiðingar um Maðurinn er alltaf einn“
Mímir, 30. árg. 1991. s. 63-65
Kristinn E. Andrésson: „Maðurinn er alltaf einn“
Um íslenskar bókmenntir; 2. bindi. Reykjavík: Mál og menning 1979, s. 28-29
Mánasigð
Ólafur Jónsson: „Veröld ástar og dauða, 3. Mánasigð“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir. Reykjavík: Iðunn 1979, s. 141-44
Silja Aðalsteinsdóttir: „Mánasigð“
Tímarit Máls og menningar, 38. árg. 3.-4. tbl. 1977, s. 372-5
Morgunþula í stráum
Ásdís Egilsdóttir: „Tvö skáldverk úr heimi miðalda“
Merki krossins, 1999, 1. tbl., s. 13-14
Torfi H. Tulinius: „Snorri og hans slægt i moderne nordisk litteratur“
Ordenes slotte, s. 31-38
Þorleifur Hauksson: „Om tre nordiske historiske romaner : nye billeder af Snorri Sturluson = Three Nordic historical novels : new portraits of Snorri Sturluson“
Nordisk litteratur 2003, s. 148-153
Þorleifur Hauksson: „Nútímasaga af Sturlungum“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg. 1. tbl. 1999, s. 148-153
Nafn rósarinnar (þýðing)
Viola Giulia Miglio: „Tryggð í þýðingum. Nafn rósarinnar á ítölsku og íslensku.“
Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar, s. 329-336. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001.
Náttvíg
Kolbrún Bergþórsdóttir: „Að eiga athvarf í minningum“
Tímarit Máls og menningar, 52. árg. 2. tbl. 1991, s. 101-104
Óp bjöllunnar
Ólafur Jónsson: „Veröld ástar og dauða, 2“
Líka líf: greinar um samtímabókmenntir. Reykjavík: Iðunn 1979, s. 137-141
Raddir í garðinum
Árni Bergmann: „Þrjár skáldsögur“
Skírnir, 167. árg., 1993, s. 531-549
Kristján B. Jónasson: „Aðgangur að fortíðinni“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg. 2. tbl. 1993, s. 98-101
Snöggfærðar sýnir
Ástráður Eysteinsson: „Höfin bíða. Um Tvílýsi og Snöggfærðar sýnir eftir Thor Vilhjálmsson“
Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 335-45
Svipir dagsins, og nótt
Sverrir Kristjánsson: „Svipir dagsins, og nótt“
Tímarit Máls og menningar, 23. árg. 1. tbl. 1962, s. 87-9
Ritsafn: 4. Reykjavík: Mál og menning 1981-1987, s. 201-203
Turnleikhúsið
Jón Karl Helgason: „Týndur í Turnleikhúsinu: tilraun um völundarhús, veruleikasið og tálsýnir“
Ritið 2010, 10. árg., 3. tbl. bls. 95-116.
Tvílýsi
Ástráður Eysteinsson: „Höfin bíða. Um Tvílýsi og Snöggfærðar sýnir eftir Thor Vilhjálmsson“
Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 335-45
Verðlaun
Heiðurslaun listamanna
Heiðursfélagi í Júdófélagi Íslands
Heiðursborgari í franska bænum Rocamadour
1999 - Karen Blixen-orðan
1998 - Foringjaorða lista og bókmennta í Frakklandi
1998 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Morgunþula í stráum
1992 - Norræn bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar
1989 - Grande Ufficiale del Ordo Merito de la Republica d’Italia. (Orða fyrir starf í þágu ítalskrar menningar á Íslandi)
1989 - Riddaraorða lista og bókmennta í Frakklandi fyrir starf í þágu menningarsamskipta Frakka og Íslendinga
1988 - Heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands
1988 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Grámosinn glóir
1987 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Grámosinn glóir
1984 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Þýðing á Hlutskipti manns (La condition humaine) eftir André Malraux
1968 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
1994 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tvílýsi
1989 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Náttvíg
1978 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Mánasigð
1977 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Fuglaskottís
1971 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Fljótt, fljótt sagði fuglinn
La corona d´alloro
Lesa meiraMorgengebet
Lesa meiraMorgenvise i græsset
Lesa meiraArde el musgo gris
Lesa meiraCantilena mattutina nell´erba
Lesa meiraPercorsi
Lesa meiraLjóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui
Lesa meiraIl muschio grigio arde
Lesa meiraSveigur
Lesa meira
Alkemistinn
Lesa meira