Æviágrip
Þorvaldur Þorsteinsson fæddist 7. nóvember 1960 á Akureyri. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri frá 1977-1981, lauk prófi frá nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og frá Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1989. Veturinn 1981-1982 nam hann við heimspekideild Háskóla Íslands. Þorvaldur starfaði jöfnum höndum sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hann hélt rúmlega 40 einkasýningar og tók þátt í tugum alþjóðlegra myndlistarviðburða og sýninga víða um heim. Hann lagði einnig stund á kennslu, flutti fyrirlestra og hélt námskeið, meðal annars í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, California Institude for the Arts í Valencia í Bandaríkjunum, ArtCenter í Los Angeles, AKI í Enschede í Hollandi og víðar. Myndverk eftir hann eru í eigu listasafna og einkasafna hér heima og erlendis og bókverk í eigu Bibliotheque Nationale í París og Victoria and Albert Museum í London.
Þorvaldur skrifaði fjölda leikverka fyrir svið, útvarp og sjónvarp. Meðal annars voru örleikrit hans flutt vikulega í Vasaleikhúsi Ríkisútvarpsins veturinn 1991-1992 og leikritið Við feðgarnir var sett upp af Hafnarfjarðarleikhúsinu Hermóði og Háðvöru 1998. Barnabækur hans um veruna Blíðfinn vöktu mikla athygli og hlaut hann Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1999 fyrir þá fyrstu, Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó. Blíðfinnsbækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála en sú síðasta þeirra, Blíðfinnur og svörtu teningarnir: Lokaorustan, kom út árið 2004. Leikgerð Hörpu Arnardóttur á sögunum er annað tveggja verka hans sem Borgarleikhúsið setti upp leikárið 2001-2002, hitt var leikritið And Björk of course.... sem síðar var einnig gert að sjónvarpsmynd, í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Leikgerð á barnabók hans, Skilaboðaskjóðunni, var sýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1993. Fyrsta skáldsaga Þorvaldar fyrir fullorðna, Við fótskör meistarans, kom út haustið 2001.
Þorvaldur Þorsteinsson lést þann 23. febrúar 2013.
Forlag: Bjartur.
Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Frá höfundi
Ferðalagið í sveitina
Þegar ég var tíu ára var mér tilkynnt að birta ætti eftir mig frásögn í Jólasveininum, en í því merka blaði sem kom út fyrir hver jól í Barnaskóla Akureyrar, var að finna nokkrar úrvalsritgerðir eftir nemendur skólans. Stoltur afhenti ég kennara mínum rigerðina, sem hét að mig minnir FERÐALAGIÐ Í SVEITINA og gat varla hamið eftirvæntinguna þær vikur sem bíða þurfti þar til hún birtist. Loks rann útgáfudagurinn upp og með skjálfandi fingrum opnaði ég brakandi nýtt blaðið í leit að mínu fyrsta ritverki á prenti. En það var sama hvað ég fletti oft í gegnum síðurnar sextán - ritgerðina mína var hvergi að finna. Sært stoltið varð allri heilbrigðri réttlætiskennd sterkari. Ég kaus því að láta sem ekkert væri og krafði kennara minn aldrei skýringa. Ég þóttist nefnilega vita hvar skóinn kreppti: Það hlaut að vera einhver villa í ritgerðinni, svo alvarleg að ekki þætti forsvaranlegt að birta hana í jafn virtu riti og Jólasveininum. Líklega hafði ég beygt KÝR vitlaust eða haft eitt enn í SÆUNNI. Það hvarflaði semsagt ekki að mér að ritgerðin, sem lýsti viðburðasnauðri flugferð milli Akureyrar og Egilsstaða, hefði einfaldlega verið leiðinleg. Innihaldslaus. Ég vissi sjálfsagt sem var að það skiptir meira máli á Íslandi hvort það sem maður segir sé "rétt" eða hljómi vel, en það hvort maður hafi yfirleitt eitthvað að segja.
Mér tókst um sinn að koma í veg fyrir að svona uppákomur endurtækju sig með því að gefa út prívat málgögn þar sem mín skrif fengu ávallt inni. Það leyndi sér ekki að þessi ungi maður gekk með rithöfundinn í maganum þó augljóst væri að vegur hans yrði enn um sinn takmarkaður við eigin útgáfu. Sérstaklega ef miðað var við mælskumennina í MA og síðar HÍ sem aldrei þreyttust á að vitna í höfuðskáldin máli sínu til stuðnings og minna mig á, með sinni leiftrandi orðsnilld, að sá dagur væri langt undan að mín skrif yrðu birt í Jólasveinum bókmenntaheimsins. Það endaði með því að ég meðtók skilaboðin, lagði rithöfundadrauma á hilluna, hætti í íslenskunámi í Háskólanum og færði mig yfir í Nýlistadeild MHÍ. Og fór að skrifa. Ekki sem „penninn“ sem mig langaði að vera heldur sem sá skissublýantur sem ég var. Og til að gera langa sögu stutta, þá var það í gervi myndlistarskussans sem engar reglur kann og ekkert hefur lesið sér til gagns, sem ég laumaði mér einhvern veginn bakdyramegin inn í rithöfundadrauminn aftur. Og svei mér þá ef hann er ekki farinn að rætast örlítið. Bara í allt annarri mynd en mig hafði dreymt um. Sem betur fer.
Þorvaldur Þorsteinsson, 2001
Um höfund
Bókatréð
Í bókinni Heitir þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð eftir Þorvald Þorsteinsson birtist bókavarða nokkur sem virðist eiga lykilhlutverki að gegna í framgangi sögunnar. Bókavarðan er ásýndum eins og hefðbundnar hugmyndir um bókasafnsstarfsfólk gefa til kynna, hún er ímynd „ströngu konunnar“, grindhoruð og í eldri kantinum. Hún er með kisugleraugu og þráhyggju hvað varðar reglu og röð og þegar söguhetjur bókarinnar koma að henni situr hún uppi í ógnarstóru tré umkringd vandlega númeruðum og merktum ritum sem hún var að raða á mismunandi greinar af mestu nákvæmni. Þetta tré er bókatréð. En þessi bókavarða er engin venjuleg bókavarða, því bókasafn hennar geymir sjálfa tilveruna, veröldina, lífsins sögu – og söguna Heitir þú Blíðfinnur? Bókavarða þessi sem raðar og ræður yfir öllum bókunum er því einskonar örlaganorn – eða dís. Svo vill til að þegar þarna er komið sögu er Blíðfinnur í hættu staddur og bókavarðan hefur stolist í söguna og séð hvert hún stefnir. Og hún gerir sitt besta til að leiðbeina vinum Blíðfinns og segir, skýrt og skilmerkilega: „Blíðfinnur er ég get hvar sagt ykkur“ um leið og hún stingur bókinni 398.2 Jón á sinn stað á grein 398 þjóðsögur. Og hún heldur áfram: „Að átt eruð í stefna vitlausa þið. Að snúa við þið þurfið. Að bjarga blíðfinnur er heima honum og verðið þið.“ En vinir Blíðfinns eru óvanir vist á bókasafni og eiga því erfitt með að fylgja hennar góðu leiðbeiningum og bjarga því Blíðfinni ekki í bili. Bókavarðan horfir sár á þá skunda í vitlausta átt og segir við sjálfa sig: „Alls ekki ég ruglingslega tala. Ég í nákvæmlega stafrófsröð tala. Hana nú og!“
Þessi sýn á bókavörðuna sem örlaganorn sitjandi á greinum bókasafnsins er einstök í íslensku bókmenntalífi, hvort sem þar er um að ræða bækur fyrir fullorðna eða börn. Bækurnar um Blíðfinn eru barnabækur en þar er jafnframt verið að vinna með hugmyndir úr bókmenntum „fullorðinna“, bókatré bókaverjunnar sem geymir þá sögu sem verið er að segja minnir á sögur kólumbíska rithöfundarins Jorge Luis Borges um bókasöfn sem spegilmynd, eða jafnvel uppsprettu heimsins. Fyrir Borges býr heimurinn í bók og er í raun bók og við erum öll persónur í þeirri bók. Í einni sögu hans fær hann þessa bók í hendur, en hún heitir sandbókin og rennur eins og sandur í allar áttir, síðurnar eru endalausar í hvora áttina fyrir sig og ómögulegt að fletta á upphafi eða endi. Borgesi líst illa á að geyma þennan grip hjá sér og fer því og finnur henni felustað. Og besti felustaðurinn er auðvitað bókasafn, alveg eins og skipuleg orðaröð bókavörðunnar felur merkingu orðræðunnar í stafrófinu og því getur sagan Blíðfinnur haldið áfram – því ef bókin hefði fundist (Blíðfinnur eða sandbókin) þá myndi sagan enda og með henni heimurinn – því heimurinn er saga.
Orðaröð bókavörðunnar er líka gott dæmi um þá sérstöku sýn sem höfundurinn Þorvaldur Þorsteinsson hefur á tungumálið. Tungumálið, eins og það birtist í orðum bókavörðunnar, er ekki (bara) samskiptatæki, heldur hlutur – bókstafir eða tákn á prenti – sem raða má upp á ýmsan hátt alveg eins og öðrum hlutum: orð má setja saman á fjölmarga vegu eftir ýmsum kerfum, alveg eins og ljósmyndum er raðað í albúm eða bókum í hillu.
Þrátt fyrir að Þorvaldur Þorsteinsson sé hér flokkaður meðal rithöfunda er hann menntaður myndlistarmaður, útskrifaður út Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í myndlist í Hollandi. Sem myndlistarmaður hefur Þorvaldur fyrst og fremst unnið með konseptlist og því mætti segja að rithöfundastörf hans séu einskonar eðlilegt framhald á þeirri vinnu. Í konseptlist sinni vinnur Þorvaldur oft með tungumál og samspil mynda og texta; eitt lítið dæmi er þegar hann setti upp stjörnukort fyrir Reykjavík. Á stjörnukorti þessu var ekki að finna lestur á þýðingu stöðu stjarna við fæðingu einstaklings, heldur birtust þar heimili nokkurra þekktra Reykvíkinga. Fyrir utan barnabækurnar um Blíðfinn hefur Þorvaldur gefið út smásagnasafnið Engill meðal áhorfenda og skrifað leikrit. Hann var leikhússtjóri Vasaleikhússins, en það er leikhús smáleikrita sem flutt voru vikulega á Rás 2 árið 1992.
Engill meðal áhorfenda kom út árið 1992 og er einskonar millistig örleikrita vasaleikhússins og ör- eða smásagna sem voru vinsælt form á þessum tíma. Þannig eru textarnir í Englinum ýmist örstutt leikrit í samtalsformi, eða lýsingar á leiksýningum í smásöguformi. Dæmi um hvorttveggja birtist strax í byrjun bókarinnar en í texta sem nefndur er „Svið“ er því lýst þegar leikari býður uppi á sviði. Sviðið er kennslustofa og hann snýr baki í djúpgræna töfluna og bíður þess að augun venjist myrkrinu. Hann er alveg við það að hnerra af krítarlyktinni en það er of dimmt til að hnerra. Svo stendur hann og bíður þess að finna lykt af áhorfendum þegar tjaldið verður dregið frá. Á þennan hátt er lesandanum stillt upp sem áhorfenda, jafnframt því að höfundur verður að einskonar leikara bókarinnar Engill meðal áhorfenda. Næsta textabrot er hefðbundinn leikþáttur í samtalsformi: „Stefanía og Þráinn vakna og fá sér morgunverð“. Fyrst er sviðinu lýst og svo tekur við stutt samtal þeirra hjúa. Nú eru áhorfendur hvergi nærri, en þó er senan svo hversdagsleg og nærgöngul að lesandi upplifir sig sem áhorfanda að morgunstund Stefaníu og Þráins. Það sem gerir „leikhús“ upplifun Engilsins kannski sérstæðasta er hvernig áhorfendur eru iðulega skrifaðir inn í textann: viðbrögð þeirra við hinu og þessu eru skrifuð inn, svo og er því lýst hvernig þeir upplifa sviðið. Þannig spilar Þorvaldur með allt svið leikhúsreynslunnar, allt frá því að leika sér með margvísleg form leikrita til þess að koma inn á tilfinningu leikarans og upplifun áhorfenda.
Leikhúsið hefur síðan haldið áfram að vera vettvangur fyrir list Þorvaldar, hann hefur gert leikgerðir úr barnabókum sínum en einnig leikrit fyrir fullorðna. Sem dæmi má taka Við feðgarnir sem Hafnarfjarðarleikhúsið setti á svið árið 1999. Við feðgarnir lýsir degi í lífi feðga sem eru tímabundið í fremur stirðri sambúð vegna veikinda föðurins. Systirin kemur til að hjálpa til og einnig blandast í málið nágranni sem reynist gamall vinur fjölskyldunnar. Og svo fara að birtast beinagrindur í skápum. Þorvaldur vinnur vel úr þessari hefðbundnu byggingu og textinn er bæði kómískur og tragískur, og á stundum minnir stemningin á leikrit Harolds Pinter.
Engill meðal áhorfenda vakti nokkra athygli, en það var þó ekki fyrr en með útgáfu barnabókarinnar Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó sem Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar. Fyrri bókin vakti verðskuldaða athygli og með þeirri seinni urðu nöfn Þorvaldar og Blíðfinns að heimilisvinum um allt land. Áður hafði Þorvaldur skrifað aðra barnasögu, Skilaboðaskjóðuna (1986), sem líkt og Blíðfinnsbækurnar gerist í sérstökum ævintýraheimi. Möguleikar slíks ævintýraheims voru þó ekki nýttir til fullnustu fyrr en með sögunni Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó, sem kom út árið 1998 hjá bókaútgáfunni Bjarti. Þetta ár einkenndust bækur þær sem Bjartur gaf út af uppstokkun á hefðbundnum skilgreiningum á bókmenntaformum, skáldsögu, ferðasögu, smásögu eða náttúrufræði og féll barnabók Þorvaldar vel í þann flokk og drap sig úr dróma viðtekinna afmarkana hvað varðar barnaefni.
Það hefur verið mjög greinileg tilhneyging í kvikmyndum á undanförnum árum að gera barnamyndir sem höfða ekki síður til fullorðinna en barna. Það er jú gamall sannleikur að til þess að fá lítil börn í bíó verða fullorðnir að fylgja þeim. Handrit að barnamyndum eru að verða æ „fullorðinslegri“ og virðist þessi þróun haldast í hendur við bætta og breytta tækni. Myndir eins og Kjúklingaflóttinn, Maurar og Skrekkur eru ekki síður ætlaðar fullorðnum, ef mið er tekið af tvíræðum – eða margræðum – samtölum og atburðum. Þannig eru enn ein mörkin að raskast og nú er ráðist að sjálfum tímanum, árunum sem aðskilja börn og fullorðna. Margir gætu sjálfsagt séð ógn í þessu nýjasta syndrómi póstmódernismans, þarsem hugleysið og dugleysið er orðið svo algert að menn flýja firrtan veruleikann á vit furðusagna og ævintýra, inn í ljúfan heim talandi leikfanga og sjálfsstæðra skordýra. Bjartsýnismanneskjan ég gleðst hinsvegar yfir þessari þróun og tel fólki ákaflega hollt að komast í snertingu við sitt innra barn á þennan hátt (og losna í leiðinni við að framleiða svosum eitt).
Eins og áður sagði fellur Blíðfinnur Þorvaldar í flokk barnaefnis sem hentar ekki síður fullorðnum, enda fjallar bókin beinlínis að hluta til um þær hættur og þá sorg sem felast í því að missa út úr höndum sér ímyndunarafl barnsins. Það er að segja, slíkur er ytri rammi sögunnar í minni akademónsku túlkun. Sagan segir af vængjuðu smáverunni Blíðfinni sem einn daginn finnur Barn í bakgarði sínum. Blíðfinnur og Barnið verða vinir og leika sér saman í mörg ár með þriðja félaganum, Smælkinu, þangað til einn daginn að Barnið hverfur óvænt. Blíðfinnur er óhuggandi og leggur af stað í mikla hættuför til að bjarga vini sínum. Á leið sinni um heiminn rekst hann á pytt sem étur öll hljóð, loðna Gúbba sem hugsa bara um mat, Klóbíta sem klóra og bíta og loks Akademóna, sem þrífast helst á hugmyndum annarra og elska rykugar bækur. Af öllum skrýmslum skógarins eru Akademónarnir verstir, þeir eru einskonar vampýrur sem ganga af Smælkinu dauðu, og þeir eru greinilega skyldir mér og öðrum þeim sem um bækur fjalla. (Og ég er ekkert sár, Þorvaldur.)
Þegar Blíðfinnur hefur gengið heiminn endilangan án þess að finna Barnið örvæntir hann og ætlar að fyrirfara sér en þá tekur hinn póstmóderníski texti við og bjargar honum með hjálp barnslegra lesanda sem höfundur ákallar sér til hjálpar. Blíðfinnur heyrir barnsrödd kalla og snýr aftur heim. Þar finnur hann Barnið, nú háaldrað, sem hefur loks tekist að rata aftur inn í bernskuheim ímyndunaraflsins og deyr þar ánægt.
Þannig gerir Þorvaldur lesandann að þátttakenda að póstmódernískum hætti, sem er, þegar betur er að gáð, kannski ekki svo framúrstefnulegur eftir allt, því þátttöku lesenda hefur alltaf verið krafist í barnabókum. Heimur Blíðfinns er ævintýraheimur bernskunnar, þaðan sem börn hverfa þegar þau fullorðnast, eins og Barnið útskýrir fyrir Blíðfinni. En þessi heimur er ekki bara þægileg vagga ævintýra og veruleikaflótta, heldur á hann sér sína eigin tilveru, sem er ekki síður hættuleg en veruleikinn utan hans, eins og ferðalag Blíðfinns sýnir. Þemu sem þessi eru kunn úr öðrum barnabókum sem einnig höfða til eldri lesenda. Bækur Astrid Lindgren um bróður minn Ljónshjarta og elsku Míó minn eru að sama skapi bækur sem takast á við veruleika barnsins á mun þroskaðri hátt en flestir fullorðnir þora. Einnig má minna á Söguna endalausu eftir Michael Ende, en líkt og Blíðfinnur krefst sú bók þátttöku lesandans. Þar segir frá ævintýraheimi barnanna sem er í útrýmingarhættu vegna þess að öll fantasía er að deyja út meðal barna og ævintýralandið því bókstaflega að hverfa í ginnungagap óljósrar ógnar. Að akademónskum hætti er nauðsynlegt að minnast á að það er hægt að sjá Söguna endalausu sem beint andsvar við ofgnótt realískra barnabóka á áttunda áratugnum, þarsem félagslegur veruleiki reið húsum og gelti að börnum.
Þorvaldur er greinilega ofurmeðvitaður um margröddun sögu sinnar, eins og berlega kemur í ljós í fótnótum eða tölumerkingum sem skýra ýmis fyrirbæri og atburði sögunnar, en tilheyra frekar akademónum en börnum. Og hann fellur heldur ekki í þá gryfju að gera söguna of allegóríska eða táknræna, að því leyti sem hvert fyrirbæri á sér mótvægi í mannheimum. Blíðfinnur er langtþvífrá að vera eins gagnsær og vængirnir hans fínlegu, hann er margræður líkt og kortið óræða sem hann – og lesandinn – fylgja í leit að Barninu.
Tveimur árum síðar kom út langþráð framhald sögunnar um Blíðfinn, Ert þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð. Sagan er sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar og segir frá Blíðfinni sem er orðinn einn í sínum ævintýraheimi eftir örlagaþrungna atburði fyrri bókarinnar. En einn daginn finnur Blíðfinnur illa slasaða dverga í skóginum og hjúkrar þeim til heilsu og eignast þarmeð góða vini. Honum veitir ekki af að eiga góða vini því illar verur, narrarnir, sitja um að valda Blíðfinni skaða. Þeir ræna honum og setjast að í húsi hans og nú stendur það upp á dvergana að bjarga vini sínum úr klóm þessara skuggavera. Eins og í fyrri bókinni er hérna á ferðinni einstakur ævintýraheimur, sem minnir mig mjög á heim múmínálfanna – en bækur um þá tel ég ekki síður vera fyrir fullorðna en börn. Hugmyndaflug Þorvaldar er auðugt og fer hér saman við líflega nýsköpun í tungumáli.
Það er athyglisvert að sjá að myndlistarmenn hafa verið nokkuð áberandi í íslenskum bókmenntaheimi undanfarin ár. Höfundar eins og Þorvaldur, Sigurður Guðmundsson, Ragna Sigurðardóttir, Haraldur Jónsson og Björg Örvar hafa komið fram á bókmenntasviðið og oft á tíðum er það svo að þessir höfundar, með sinn myndlistarbakgrunn, takast af meiri krafti og þori á við ögrandi hugmyndir og skila þeim skemmtilega frá sér. Líkt og í tilfelli Þorvaldar eru þessir höfundar oft að takast á við hefðbundin bókmenntaform og tungumálið á nýjan hátt og eru ófeimnir við að glæða sögur sínar ævintýraleik og skrýtnum uppákomum.
Bækur Þorvaldar um Blíðfinn eru einstakar í íslensku bókmenntasamfélagi, hvort sem snýr að barnabókum eða skáldskap ætluðum fullorðnum. Úrvinnsla hans á ævintýraheimum barnabókmennta, þjóðsögum og fantasíum er bæði óvenjuleg og ögrandi og virkar sérlega vel í samspili við þann leik sem Þorvaldur gerir sér að tungumálinu.
© Úlfhildur Dagsdóttir 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Gerður Kristný: „Maríusögur Þorvaldar“
Viðtal við Þorvald Þorsteinsson
Mannlíf, 12. árg., 3. tbl. 1995
Gunnar J. Árnason: „Þorvaldur Þorsteinsson : listamaður í gangvirki samfélagsins“
Skírnir, 175. árg., (haust). 2001, s. 589-598
Hannes Sigurðsson og Sigvaldi Júlíusson (ritstj.): Sjónþing. Þorvaldur Þorsteinsson
Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 1999
Kristín Viðarsdóttir: „Samtíðarskáld“
Börn og menning, 13. árg., 2. tbl. 1998, s. 28-30
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ævintýrin fjalla um kjarna mennskunnar : samtal við Þorvald Þorsteinsson um Blíðfinn“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 14-25
Um einstök verk
Bein útsending
Jón Viðar Jónsson: „Rýr uppskera af íslensku hausti“
Frjáls verslun, 58. árg., 10. tbl. 1997, s. 72-74
Engill meðal áhorfenda
Árni Ibsen: „Ör saga ástar og leiks“
Skírnir, 169. árg., (haust). 1995, s. 507-519
Ert þú Blíðfinnur?: Ég er með mikilvæg skilaboð
Katrín Jakobsdóttir: „Sigur ljóssins“
Börn og menning, 16. árg., 1. tbl. 2001, s. 27-28
Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó
Silja Aðalsteinsdóttir: „Ég vitja þín, æska“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 2. tbl. 1999, s. 141-144
Silja Aðalsteinsdóttir: „Barndommens spor : Blidfinn er vistnok et meget lille væsen men han søger efter noget ganske særligt“
Nordisk litteratur 1999, s. 41, 82-83
Kim Skotte: „Kunsten at imponere Miss World“
Politiken 2002, 118. árg. (nr 94, Torsdag 3. januar, 2. sektion): s. 9
Úlfhildur Dagsdóttir: „Í fylgd barnsins“
Börn og menning, 14. árg., 2. tbl. 1999, s. 19-20
Sekt er kennd
Halla Sverrisdóttir: „Strákar um stráka til stráka“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 118-122
Skilaboðaskjóðan
Jón Yngvi Jóhannsson: „Í ævintýraskóginum. Um textatengsl í Skilaboðaskjóðunni“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 3. tbl. 1995, s. 73-85
Silja Aðalsteinsdóttir: Raddir barnabókanna : greinasafn, s. 137-151
Reykjavík: Mál og menning, 1999
Þórdís Gísladóttir: „Leyst frá skjóðunni: Skilaboðaskjóðan í Þjóðleikhúsinu“ (leikdómur)
Börn og menning 2007, 22. árg., 2. tbl. bls. 36-7.
Greinar og viðtöl við Þorvald hafa einnig birst í öðrum tímaritum og dagblöðum.
Verðlaun
2001 – Heiðurslisti IBBY (International Board on Books For Young People): Ert þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð
2000 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, besta barnabók ársins: Ert þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð
2000 – Viðurkenning úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins
1999 – Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó
Tilnefningar
2002 – Norrænu barnabókaverðlaunin: Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó og Ert þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð
1993 – Menningarverðlaun DV
Blíðfinnur - allar sögurnar
Lesa meiraMi chiamo Blidfinn ma puoi chiamarmi Bobo
Lesa meiraVotter til bestefar - en julefortelling
Lesa meiraLífið - notkunarreglur
Lesa meiraDer kleine Blidfinn in grosser Gefahr
Lesa meiraSekt er kennd
Lesa meiraBlíðfinnur og svörtu teningarnir: Lokaorrustan
Lesa meiraJag heter Snällbert. Men du får gärna kalla meg Bebbe
Lesa meiraSveinstykki
Lesa meira