Akureyri er að verða afar vinsæll vettvangur glæpasagna, en nokkrar af glæpasögum Árna Þórarinssonar gerast þar (og sjónvarpssería byggð á einni þeirra), að ógleymdri (Íslendinga)sögu Þórunnar Valdimarsdóttur, Kalt er annars blóð. Og nú fetar bókavörðurinn Þorsteinn G. Jónsson í fótspor þeirra, en hann hefur það umfram þessa höfunda að vera búsettur á Akureyri, og starfa á einum glæpavettvanginum, Amtsbókasafninu.
Þrenna er því mikil bókasafnabók og telst í raun tæplega til formlegrar bókaútgáfu, því höfundurinn gefur hana út fyrst og fremst sjálfum sér til ánægju - en er svo örlátur að leyfa bókasafnsfólki að njóta þeirrar ánægju með sér. Að öðru leyti hefur bókin ekki verið sett í almenna dreifingu.
Í öllum þeim hasar sem myndast í kringum ‘jólabókaflóðið’ er svo ágætt að fá í hendur bók sem er ekki háð æstum markaðsöflum og virkar því á einhvern hátt ‘saklaus’, já, þetta er allt til gamans gert og það er gaman að skrifa bækur og lesa bækur. Punktur. Og það var virkilega gaman að lesa bók Þorsteins, því hún er skemmtilega skrifuð og dáldið snjöll glæpasaga (obbolitlar holur í plottinu) um morðingja sem gengur laus í Akureyrarbæ og virðist heltekinn af tölunni þrír.
Sagan hefst á Amtsbókasafninu, nema kvað, en þar er ráðist á fyrsta fórnarlambið, starfsmann sem er að ljúka vaktinni og hlakkar til að fara heim til konu og barns. Tvö ungmenni eru svo myrt um nóttina og eftirgrennslan lögreglu gefur til kynna að kona sé viðriðin málið.
Þrenna er stutt og snörp bók og áherslan er ekki síður lögð á að skapa tilfinningu fyrir bæjarlífinu og bæjarbúum, ekki síst í krafti lögregluliðsins sem er fjölbreyttur hópur. Fyrir fastagesti Akureyrar er gaman að fylgjast með og hitta fyrir veitingastaði og götur enda er öll sviðsetning vel heppnuð og afslöppuð. Grimmd morðingjans er svo skemmtilega ýkt, sérstaklega þegar hann er kominn í samband við lögregluna og hótar frekari manndrápum, jafnframt því að hringla fer í beinagrindum í skápum...
Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2011