Menningarverðlaun DV fyrir árið 2013 verða afhent þriðjudaginn 11.mars í Iðnó klukkan 17.00. Í ár eru verðlaun veitt í níu flokkum.
Sex bækur eru tilnefndar til menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir árið 2013. Dómnefnd skipuðu Sigmundur Ernir Rúnarsson, rithöfundur og formaður dómnefndar, Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikkona og bókmenntafræðingur, og Hrafn Jökulsson, rithöfundur og skáld.
Eftirtaldar bækur eru tilnefndar til verðlaunanna í ár.
Sindri Freysson: Blindhríð
Blindhríð er vel heppnaður og eftirminnilegur sálfræðitryllir. Sagan er spaugileg og martraðarkennd í bland við óvænta og vel ígrundaða framvindu. Stíllinn er jafn litríkur og hann er kraftmikill og skemmtilegur. Blindhríð er án efa heilsteyptasta bókin í höfundarverki Sindra og ætti að færa honum aukinn fjölda lesenda í framtíðinni.
Sigrún Pálsdóttir: Ferðasaga
Hér er á ferðinni er einstaklega vel skrifuð og áhugaverð saga sem hrífur lesandann með sér í hugstæða og harmræna för. Höfundur siglir vandrataða leið milli staðreynda og skáldskapar með viðkvæman og tregafullan efniviðinn. Þótt sagan sé átakanleg eru hún líka mjög heillandi og hæfir látlaus og fallegur stíllinn inntakinu afar vel.
Eva Rún Snorradóttir: Heimsendir fylgir þér alla ævi
Heimsendir fylgir þér alla ævi er einkar skemmtileg ljóðabók sem nær jafnframt að snerta við lesandanum. Nýr og ferskur höfundur bregður upp svipmyndum sem allar tengjast beint eða óbeint ónefndri blokk. Ljóðin eru fyndin, falleg, óvænt, sönn, óhugnanleg, angurvær og óþægileg og er þá margt enn ósagt.
Sjón: Mánasteinn
Mánasteinn er ótrúlega vel heppnuð skáldsaga. Stíllinn er undurfagur og sagan sjálf er seiðandi, óhugnanleg og á köflum nístandi og óþægilega sannfærandi. Hún er stutt en sterk og heilu kvikmyndirnar birtast jafnóðum í öllum þeim sterku myndum sem höfundur dregur upp. Tvímælalaust sterkasta sögusmíðin á fjölbreyttum rithöfundarferli Sjón.
Þorsteinn frá Hamri: Skessukatlar
Þjóðskáldið frá Hamri er löngu fullnuma í þeirri list að segja margt í fáum orðum. Í Skessukötlum slípar hann steinvölu sína til fulls. Ljóðin eru í senn fáguð, meitluð, beitt og margræð. Glíman við orðin nær hér nýjum hæðum þar sem höfundur notar ljóðformið til að velta upp áleitnum spurningum um ljóðið og allan þess kynngimátt.
Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir: Stúlka með maga
Hér er komin heillandi saga sem leiftrar af frásagnargleði. Hún hrífur lesandann með sér í vangaveltum um innkaupamiða jafnt sem ástríðufull sendibréf. Höfundur rekur ættir sínar út frá fjölbreyttum heimildum og skáldar allt um kring. Hér tekst lesandinn á loft og stekkur fyrirhafnarlítið á milli alda og landshluta.
Fræðibækur og rit almenns efnis
Einnig er tilnefnt í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Í dómnefndinni sátu Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, ritstjóri og formaður, Guðni Tómasson, listsagnfræðingur, og Oddur Ingólfsson, prófessor við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.
Eftirfarandi fræðirit eru tilnefnd til verðlaunanna í ár.
Hjörleifur Stefánsson: Af jörðu – Íslensk torfhús
Veglegt verk, fagurlega myndskreytt og löngu tímabært, um hlut Íslands í sögu hússins á jörðinni, torfbæinn. En einnig önnur jarðvegsmannvirki, byggingarefnið torf, vinnsluaðferðir og tækni. Þróunarsaga torfhúsagerðar rakin og aðferðir nágrannaþjóða okkar við þessa húsagerðarlist kynntar til sögunnar. Einnig segist höfundur verksins vilja kveikja áhuga arkitekta og annarra húsagerðamanna á handverki þessarar einstöku byggingarhefðar því hún búi yfir töfrum sem byggingarlistamenn nútímans geti fært sér í nyt. Áhugasamur almenningur nýtur ekki síður góðs af þessu verki, heima í stofu eða á ferð um landið.
Sölvi Björn Sigurðsson: Stangveiðar á Íslandi og Íslensk vatnabók
Fjallað um stangveiði í ám og vötnum á Íslandi frá öllum hliðum, á öllum tímum og í öllum ám sem nöfnum tjáir að nefna. Fræðandi og skemmtilegar veiðisögur, fróðleikur og heimildir um allt sem lýtur að stangveiði á Íslandi. Verkið er í tveimur bindum, fyrra er helgað stangveiðunum sjálfum en það síðara vötnum og ám. Áhugaverður fróðleikur, bæði fyrir stangveiðimenn og þá sem unna íslenskri náttúru.
Sigrún Pálsdóttir: Friðrik og Sigrún – Ferðasaga
Saga hjónanna Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar sem héldu í framhaldsnám í læknisfræði í Bandaríkjunum 1940 en fórust ásamt þremur börnum sínum á leið heim með Goðafossi árið 1944. Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur byggir bókina meðal annars á bréfum og dagbókum sem hjónin héldu, beitir aðferðum sagnfræðinnar og dregur um leið upp myndir af umbrotatímum í Íslandssögu 20. aldar, bandarísku samfélagi, íslenskri fjölskyldu á erlendri grund og örlögum hennar í síðari heimsstyrjöldinni.
Árni Daníel Júlíusson og Jónas Jónsson: Landbúnaðarsaga Íslands
Saga bændasamfélagsins og atvinnugreinarinnar frá upphafi byggðar til okkar daga og gott betur því byrjað er á mannkynssögubyrjuninni. Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur skrifaði fyrri bindin tvö um sögu landbúnaðar á Íslandi fram á 20. öld en Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri seinni bindin tvö um landbúnað á 20. öld. Jónas lést árið 2007 og er Árni Daníel einnig myndaritstjóri Landbúnaðarsögunnar og bjó bindi Jónasar til prentunar ásamt Helga Skúla Kjartanssyni sagnfræðingi. Stórfróðlegt og félagssögulegt verk og aðgengilegt fyrir áhugasama, jafnt fræðimenn sem óbreytta.
Vilhelm Anton Jónsson: Vísindabók Villa
Undur vísindanna lifna við. Vilhelm Anton Jónsson, Villi, opnar skilningarvit lesenda sinna með skoðun og skilgreiningu á til dæmis eðlis-, efna-, jarð- og stjörnufræði. Framsetningin er forvitnileg og leitin að töfrum vísindanna er höfð að leiðarljósi. Bókin er full af fróðlegum upplýsingum og tilraunum til heimabrúks fyrir forvitna og fróðleiksfúsa á öllum aldri, – einkum og sér í lagi þá sem kunna að óttast raunvísindi. Bókin hentar jafnt þeim sem þekkja vel inn á þennan botnlausa undraheim og þeim sem eru rétt að fóta sig í samfélagi manna.
Á heimasíðu DV má sjá heildarlista tilnefninga í öllum flokkum: DV.is