Beint í efni

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2012

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur tilkynnt hvaða tíu höfundar eru tilnefndir til Viðurkenningar Hagþenkis 2012. Verðlaunaupphæðin er kr. 1.000.000 og tilkynnt verður hver hlýtur viðurkenninguna í mars, við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum, sem hefur fundað síðan um miðjan október og kynnt sér útgáfu ársins 2012. Í ráðinu sitja: Ólafur K. Nielsen náttúrufræðingur og formaður ráðsins, Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Fanney Þórsdóttir lektor í sálfræðideild HÍ, Haraldur Ólafsson mannfræðingur. Verkefnastjóri er Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis. Eftirfarandi höfundar og bækur eru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis 2012: • Árni Kristjánsson  Innra augað. Sálfræði hugar, heila og skynjunar. Háskólaútgáfan. Umsögn viðurkenningaráðs: Vandað fræðirit um hlutverk heilastarfssemi í sjónskynjun sem nýtist jafnt nemendum sem almennum lesendum. • Ásta Bergljót Stefánsdóttir og Guðrún Pétursdóttir Andlitsmeðferð og efnafræði snyrtivara. Iðnú bókaútgáfa. Umsögn viðurkenningaráðs: Tímabært námsefni þar sem fjallað er um eitt meginsvið snyrtifræðinnar á skýran hátt. • Dr. Gunni Stuð vors lands. Saga dægurtónlistar á Íslandi. Sögur útgáfa. Umsögn viðurkenningaráðs: Verkið er merkilegt framlag í máli og myndum um þátt dægurtónlistar í menningarlífi Íslendinga. • Gunnar Þór Bjarnason Upp með fánann. Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Mál og menning. Umsögn viðurkenningaráðs: Aðgengileg umfjöllun um pólitískt umrót ársins 1908 og ólík sjónarmið um tengsl Íslands og Danmerkur. • Gunnar F. Guðmundsson Pater Jón Sveinsson. Nonni. Bókaútgáfan Opna. Umsögn viðurkenningaráðs: Glæsileg og vönduð ævisaga sem varpar nýju ljósi á örlög unglings sem var sendur út í heim til að nema guðfræði og varð víðlesnasti rithöfundur Íslendinga fyrr og síðar. • Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson Eldað og bakað í ofninum heima. Góður matur – gott líf. Vaka-Helgafell Umsögn viðurkenningaráðs: einstaklega falleg og vel unnin bók um mat og matargerð, leiðarvísir að betra lífi. • Jón Ólafsson Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. JPV útgáfa. Umsögn viðurkenningaráðs: Áhrifamikil og gagnrýnin greining á kommúnismanum og Gúlagi Sovétríkjanna sem afhjúpar varnarleysi hins almenna borgara. • Sigrún Helgadóttir, Freydís Kristjánsdóttir og Guðmundur Ó. Ingvarsson Víkingaöld. Árin 800-1050. Námsgagnastofnun. Umsögn viðurkenningaráðs: Auðlesinn texti og lýsandi myndefni fléttast vel saman og er góð kynning á margþættu samfélagi víkingaaldarinnar. • Sigurður Reynir Gíslason Kolefnishringrásin. Hið íslenska bókmenntafélag. Umsögn viðurkenningaráðs: Eitt mikilvægasta umhverfisvandamál samtímans, hlýnun jarðar af mannavöldum, krufið til mergjar. • Steinunn Kristjánsdóttir Sagan af klaustrinu á Skriðu. Sögufélag. Umsögn viðurkenningaráðs: Í verkinu er rakin aðdragandi og framvinda merkilegs forleifauppgraftar og fléttað inn sögulegum fróðleik og tilraunum til túlkunar svo úr verður spennandi saga studd góðum ljósmyndum.