Beint í efni

Tilraunin um Tindra

Tilraunin um Tindra
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar er Tindri miðill að gera allt vitlaust meðal betri borgara í Reykjavík. Mikil firn og undur eiga sér stað á fundum í Tilraunafélaginu, félagi sem stofnað var utan um Tindra og hæfileika hans. Konráð Gíslason Fjölnismaður kemur þar fram og stjórnar fundum, þótt látinn sé, enda starfar millibilsmaðurinn Tindri mitt á milli lifenda og dauðra. Stólar og borð svífa upp undir loft, allra þjóða kvikindi mæta þar og mæla digrum karlarómi eða syngja skrækum kvenröddum án þess að nokkur sjái annan en miðilinn. Sjálfur lendir hann í ýmsum hremmingum á fundunum, t.a.m. fjarlægja andarnir handlegg hans eitt kvöldið og skila honum ekki aftur fyrr en í fundarlok.

Þótt Tindri sé „í tísku“ og ýmsir haldi ekki vatni yfir mikilfengilegum hæfileikum hans, þá eru tilraunirnar aðhlátursefni margra og vakað er yfir hverju skrefi miðilsins í von um að hann fari offari og geri mistök, sem hann gerir á  köflum, til dæmis þegar ódauðir menn birtast hjá honum á fundum.

Að kynda hús með sorg

Í hópi þeirra sem skeptísk eru á yfirburði Tindra miðils eru Jannes, héraðslæknir Reykvíkinga og kona hans Mekkín sem eru nýkomin til borgarinnar frá Akureyri. Jannes er trúleysingi og staðhæfir að eftir dauðann taki ekkert við nema myrkrið. Hann hefur megna skömm á „andatrúarmönnunum“ sem hann telur stunda misbeitingu minninga um dáið fólk og „kynda hús sín með annarra sorg“ (122).

Í fyrstu er þeim hjónum bannað að sitja fundi í Tilraunafélaginu, þar sem vantrú þeirra þykir hafa truflandi áhrif á millibilsmanninn. En samkvæmt Einari J. Kvaran, aðalsprautu Tilraunafélagsins, eru vísindi og trú á dularheiminn ekki andstæður heldur hliðstæður og því átti að vera hægt að sanna að atburðirnir á fundum Tindra væru raunverulegir. Hann eyðir því allmiklu púðri í að fá Jannes lækni til þess að sitja fundina - og leyfir honum að gera allar þær ráðstafanir sem honum hugnast til þess að útiloka að um svikastarfsemi sé að ræða. Að tilraunum loknum stendur til að Jannes birti niðurstöður sínar opinberlega.

Skáldskapur og veruleiki

Millibilsmaður er af áhugaverðri bókmenntategund. Eins og höfundur segir í stuttum en skorinorðum formála, þá eru „líkindi við veruleikann, raunverulegt fólk og viðburði“ ekki tilviljun, þótt textinn sé skáldskapur. „Margt byggir á heimildum, prentuðum og óprentuðum, einkum hið ótrúverðugasta, og sumt er þaðan beint komið.“

Í formálanum segir ennfremur að bókin sé tileinkuð minningu langafa og langömmu höfundar, Guðmundar Hannessonar og Karólínu Margrétar Sigríðar Ísleifsdóttur Breiðfjörð.

Guðmundur er sá sem nefndur er Jannes í sögunni, en hann var sannkallað ofurmenni á sinni tíð. Sérlega hæfileikaríkur læknir sem rétt var hálfnaður með læknanámið þegar hann aflimaði fársjúkan mann í heimahúsi og bjargaði þar með lífi hans. Prófessor við háskólann, alþingismaður, frumkvöðull í ýmsu og með óbilandi áhuga á skipulagsmálum. Á legstein Guðmundar Hannessonar er letrað að hans eigin ósk: Hann kenndi Íslendingum að byggja hlý hús.

Helstu persónur verksins eru þau Jannes læknir og Mekkín kona hans, Tindri millibilsmaður, Einar J. Kvaran og Húnbogi Níelsson hjá Tilraunafélaginu og ógæfuparið Konkordía og Zakarías, sem kemur töluvert við sögu – og skapar bæði fjör og nauðsynlega fjölbreytni.

Stundum eru breytingarnar á nöfnum hinna „raunverulegu“ persóna smávægilegar, eins og t.d. að Einar H. Kvaran sé látinn heita Einar J. Kvaran í bókinni. Húnbogi Níelsson er Haraldur Níelsson. Jannes Guðmundur Jannesson í stað Guðmundur Hannesson og Mekkín Karólína Margrét Sigríður Ísólfsdóttir Breiðfjörð er augljóslega Karólína Margrét Sigríður Ísleifsdóttir Breiðfjörð. Að Indriði miðill heiti Tindri er svo beinlínis stórfyndið, en „Jeg heiti Tindri vegna þess að það ljómaði svo skært í augum mér nýbornum. Ég tindra.“ (195)

Millibilsmaðurinn

Indriði miðill átti sannkallaðan rokkstjörnutíma hér í Reykjavík í upphafi aldarinnar. Í riti Þórbergs Þórðarsonar um Indriða Indriðason, sem einfaldlega ber heitið Indriði miðill (1942) segir að hann hafi verið einn af stórkostlegustu miðlum sem uppi hafa verið – og það á öllum sviðum miðildómsins. „Raddmiðill, ritmiðill, flutningamiðill og líkamningamiðill og afburðamaður, gæddur alþjóðlegum mikilleik, í öllum þessum greinum.“

Þórbergur segir að á árum hinna svokölluðu tilraunafunda hafi almenningur í höfuðstaðnum talið allt sem þar fór fram einskonar djöflakukl og svartagaldur, ef ekki vísvitandi svik og loddaralistir. Ekki er heldur dregin á það dul í bók Hermanns að Tindri hafi átt erfitt – bæði vegna ofsókna sem hann varð fyrir og að fundirnir hafi tekið mikið á hann líkamlega. Indriði/Tindri veiktist svo kornungur af berklum og dó.

Vel viðeigandi er að síðasta máltíð afburðamannsins Tindra miðils í Millibilsmanni skuli vera stykki af steiktum fiski – það sem sjálfur Frelsarinn borðaði fyrir himnaför sína.

Frægustu sögurnar af Indriða eru teknar inn í bókina, samanber það sem áður segir um það þegar handleggurinn var tekinn af honum í millibilsástandi. Það er sagt frá Jóni Einarssyni draug úr Vestmannaeyjum, orðljótum og andstyggilegum sjálfsmorðingja sem ofsótti hann lengi. Sagan segir að Jón draugur hafi tekið óstinnt upp að Indriði miðill talaði um hann í gáskafullum tón þegar hann sá hann fyrst – og hafi ákveðið  að hefna sín á honum. Franska söngkonan var vinsæl á fundum sem og norski læknirinn. Að ógleymdum Hallgrími Péturssyni og Edward Grieg. Enda til þess tekið í sögunni að frægir hafi verið duglegri en aðrir að birtast á fundum.

Harmurinn og fyndnin

Millibilsmaður er bráðfyndið verk, þótt lífsins harmur sé líka til staðar – og fíngerður sláttur hans alls staðar í bakgrunni.

Sumir kaflar eru svo skringilegir að manni finnst einhvern veginn að þeir séu á skjön og fari út fyrir efnið, en um leið skipti þeir eiginlega öllu máli. Eins og t.a.m. kaflinn sem segir frá því í löngu máli þegar Mekkín, hin myndlistarmenntaða læknisfrú, bregður sér með skipi til Kaupmannahafnar og er ósátt við að maður hennar kveðji hana ekki almennilega, en standi þess í stað á skrafi við skáld og (hugsanlegar) portkonur. Hún sendir honum langt og mergjað skammarbréf. Jannes maður hennar sendir bréf til baka, þar sem hann bregst við reiðinni og hún sendir enn eitt, þar sem hún undirstrikar það sem hún vildi sagt hafa og bregst við svarbréfinu ... Þessi tilskrifelsi eru hrikalega fyndin og koma Tilraunafélaginu og Tindra miðli lítið við, en er vel til þess fallið að dýpka skilning lesandans á sambandi þeirra hjóna. Líka er undirstrikað í bréfunum það sem er minna fyndið, en það eru djúpar tilfinningar Mekkínar vegna þess sem er stöðugt þrætuefni hjónanna. Efasemdarmaðurinn Jannes neitar að láta skíra börn þeirra, en þau Mekkín hafa misst eitt barn vöggudauða. Á þeirri tíð var dauðinn sífellt yfirvofandi – ekki komust öll börn á legg. Óttinn er sínálægur. Í bréfi Mekkínar segir: „Jeg get ekki högsað mjer að eiga annað barn sem deyr frá mjer óskírt. Leif þarf að skíra“ (147).

Það söðar í mjer ...

„Gætt er ósamræmis í nafngiftum og rithætti, í takt við tíðarandann,“ segir í formála Hermanns Stefánssonar. Og það er gert. Gullaldartunga þess tíma er full af dönskuslettum og skemmtilegheitum. Flámæli, sem nú hefur nánast verið útrýmt, er látið halda sér og stólpakvenmaðurinn Mekkín er greinilega afar flámælt:

„Það söðar í mjer eins og í bandóðri býflugu, söðar máske af högsunum um aukaatriði og smáatriði sem verð að mikilvægum stórviðburðum og aðalatriðum, jeg má ekki láta söða svona í mjer, ójú, víst, jeg má láta suða í mjer þegar mjer sjálfri sýnist ...“ (131)

En einnig „í takt við tíðarandann“ færist flámælið undan þegar á að festa það á bók. Stundum söðar og í annan tíma suðar.

Það er upplausn og stríðni í tungumálinu og öllu ægir saman. Hver skrifar eins og honum lætur best og lítið um málfarslöggur eða kvað?

Trúarlíf apa

Höfundur hefur auga fyrir alls lags kúríósum. Apar tveir sem bera nöfnin Job og Gamalíel (annar prýðir kápu bókarinnar) og Jannes fékk senda með skipi frá Kína þegar hann bjó á Akureyri eru til umfjöllunar og hugað að tilfinningum þeirra. Jannes fullyrðir að annar apinn hafi dáið úr „andlegu slysi“, sem er miklu fallegra heiti en áfallastreituröskun, sem allir kjamsa á nú á dögum.

„Svo dó Job úr harmi. Þá lagðist hryggðin yfir Gamalíel. Gátu apar verið sorgmæddir? Höfðu þeir hugmyndir um annað líf? Hvernig vita þeir að dáinn api kemur ekki aftur? Hvert er trúarlíf apa?“ (203)

Það verður að viðurkennast að lesandinn sem hér skrifar datt í afar óviðeigandi gír og langaði í sífellu að vita hvað væri satt og hvað „skáldað“ í bókinni. Sú iðja Íslendinga að lesa bækur með símaskrána við höndina, eins og einhvern tíma var haldið fram að við gerðum, er auðvitað löngu úrelt. Nú flettir maður þessu bara öllu upp í Tímarit.is og Íslendingabók.

Apamálið er eitt af því sem er með miklum ólíkindum, en reynist þó hafa átt sér stað „í alvörunni“. Það sannar ljósmyndin, eða hvað? Og hvað fleira er sannað í þessari bók? Lét Jannes G. Jannesson læknir  sannfærast um yfirburði Tindra miðils eftir vetursetu á tilraunafundum?

Millibilsmaður er afar óvenjuleg bók og sérlega áhugaverð. Reykjavík andatrúarmanna og skeptíkera þeirra fyrir rúmum hundrað árum stendur í huga lesandans ljóslifandi að lestri loknum. Tíðarandanum miðlar höfundurinn af stakri fagmennsku, það er sindrandi fjör og gáski í textanum og af frásögninni stafar ástúð í garð umfjöllunarefnisins.
 

Þórunn Hrefna, nóvember 2022