Beint í efni

Torfhildur Hólm

Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm (1845-1918) er jafnan kölluð fyrsti atvinnurithöfundur Íslands þar sem hún hlaut skáldalaun fyrst íslenskra höfunda. Nafninu á skáldastyrknum, sem Alþingi veitti henni árið 1889, var að vísu breytt í „ekknabætur“ þar sem skáldalaununum var harðlega mótmælt. Sjálf sagði Torfhildur í bréfi frá aldamótunum  1900 að hún hafi verið fyrsta konan hér á landi sem „… náttúran dæmdi til þess að uppskera hina beisku ávexti gamalla, rótgróinna hleypidóma gegn litterær dömum.“

Torfhildur skrifaði einkum sögulegar skáldsögur, en þar var hún einnig brautryðjandi þar sem slíkt hafði ekki tíðkast hér áður. Að auki fetaði Torfhildur ótroðnar slóðir þegar hún fyrst íslenskra kvenna gaf út og ritstýrði tímariti en hún hóf útgáfu tímaritsins Draupnis árið 1891. Draupnir var dægurtímarit fyrir konur og birtust gjarna í því fréttir af kvennabaráttunni í Bandaríkjunum.

Torfhildur bjó í Ingólfsstræti 18 síðustu æviárin, en hún lést úr spænsku veikinni árið 1918.

Á vefnum Snerpa.is er að finna söguna „Týndu hringarnir“ eftir Torfhildi.

Ljósmynd frá Ingólfsstræti snemma á öldinni 1900 og sést hús Torfhildar vel á myndinni.