Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru árviss viðburður að hausti. Verðlaunin, sem eingöngu eru veitt fyrir ljóðahandrit, hafa gert sitt á liðnum árum til að vekja athygli á bæði nýjum höfundum og ljóðlistinni sjálfri almennt. Því ber að fagna. Handhafi verðlaunanna í ár er Jón Hjartarson, hingað til helst þekktur sem leikari þó hann hafi einnig sinnt ýmsum skrifum. Í bókinni Troðningar stígur hann hins vegar í fyrsta sinn fram sem ljóðskáld. Það dylst þó ekki lesandanum að hér fer enginn nýgræðingur í ljóðaskrifum - hér er ort af öryggi og tærleika, næmi og reynslu sem og ást og þekkingu á tungumálinu.
Á milli sviða
Umfjöllunarefni og þemu ljóðanna eru um margt klassísk. Árstíðirnar og samband manns og náttúru leika hér stór hlutverk sem og tungumálið og sjálfur tíminn. Ljóðin eru afar meitluð, hér er ekki bruðlað með bókstafi, engu er ofaukið og hvert orð skiptir máli. Útkoman er því afar tær en það þýðir ekki að ljóðin séu einföld því við ítrekaðan lestur finnur lesandinn í þeim eitthvað sem hann sá ekki áður, eitthvað sem breytir upplifun hans og skilningi. Þetta hlýst ekki síst af því að eitt helsta einkenni ljóðanna eru andstæðupör sem og einhvers konar hreyfing eða samsláttur - hreyfing frá einu sviði til annars eða samsláttur tveggja sviða.
Vinin
þar sem umferðin flæðir
ákafast um borgina
með gný úr lofti
nið af hraðbraut
er friðland fugla
þegar sumri hallar
vappa ég
stíginn um varpið
í driti og
háum gróðri
og tíminn verður fugl
sem flýgur hægt
Hér er ort af kunnáttu. Titill ljóðsins, "Vin", sem líkt og allir titlar bókarinnar er fyrsta orð fyrstu ljóðlínu, skapar ákveðna spennu í samhengi við orðin borg og gnýr í næstu línum. Hér myndast strax andstæður, eitthvað sem ekki fer saman. Orð sem vekja andstæðar tilfinningar og hugrenningartengsl hjá lesandanum halda svo áfram í næstu línum þar sem talað er um hraðbraut og friðland. Lesandanum er á þessum punkti ljóst að hann er að öllum líkindum staddur í Vatnsmýrinni, því pólitíska þrætuepli Íslendinga, og ljóðið fer frá því að vera náttúrumynd yfir í eitthvað meira og víðfeðmara. Hér er einu sviði teflt gegn öðru, ein mynd/merking lögð yfir aðra; flug fugla og véla, hávaði manngerðra farartækja og hin hljóðlausa hreyfing fuglsins, hraði nútímans og hægur árstíðabundin taktur náttúru og dýra. Áhrifin vekja með lesandanum tilfinningu fyrir að vera staddur á tveim stöðum samtímis, í tveimur heimum sem ganga illa í efnasamband. Lokalínurnar um tímann, tilvísun í persneska skáldið Omar Kayyam, draga lesandann svo aftur að titlinum: náttúran er vin í vélvæddri eyðimörk hraðans.
Slóðin sem við fetum, slóðin sem við skiljum eftir okkur
Titill bókarinnar, Troðningar, talar beint inn í meginstef ljóðanna. Ljóðmælandi er gjarnan á göngu um íslenska náttúru, kennileiti sem lesandinn þekkir, en hér er einnig vísað til þeirra sem tróðu slóðina, forfeðra, skálda og landsfeðra. Bókin orkar því á köflum sem landakort um innri og ytri heima og ást á landinu og því sem þar grær og lifir skín í gegn á nánast hverri síðu; landið er „áttavitinn okkar fagri í norðri“ þar sem hraungambrinn „heklar klæði eins og móðir breiðir sæng yfir ungann sinn“ og fegurð jökulsins er slík að „augun fjötrast“. Á köflum kveður þó við þyngri tón. Það er engin fjöður yfir það dregin að maðurinn er ekki eins og hver önnur vera á vappi í hinum friðsama heimi náttúrunnar, hann er þvert í mót boðflenna, sá sem raskar rónni, jafnvel þó hann vandi sig.
Hljóð úr steini
og hér ertu þá
vinurinn
brýnir gogginn á nibbu
við vatnið
þín veröld veit ég
geng varlega um
án þess að raska mosa
án þess að að grugga tjörn
þú gjóar á mig
augnbliki
heldur áfram að brýna
það brestur í grjótinu
heyrist
farðu, farðu, farðu
aftur, aftur, aftur
inn í skóginn
inn í hellinn
það er ég sem lifði af
þú komst miklu, miklu seinna
svo ertu floginn
Lokalína ljóðsins skilur lesandann eftir með þá spurningu hver það sé sem er floginn? Er það fuglinn sem flýgur út úr myndinni eða er þetta ásökun til handar manninum sem hefur yfirgefið náttúruna? Svikið heimkynni sín? Viðlíka tón um svik mannsins má finna víðar og með enn afdráttarlausari hætti. Hér birtist maðurinn til dæmis ekki sem saklaus ferðalangur heldur sem afl sem skilur eftir sig slóð eyðileggingar og ógnar ekki bara náttúrunni heldur eigin tilvist.
Við menn
erum ekki risaeðlur
það þarf ekki loftstein
til að breyta okkur í fugla
við erum á skeiði
sjálfbærrar tortímingar.
Upphafslínur ljóðsins leika sér með líkingu sem við þekkjum úr daglegu máli – að kalla einhvern risaeðlu gefur í skyn að viðkomandi sé gamaldags og ekki í takt við tímann. Í framhaldinu er bent á með íronískum hætti að sem tegund höfum við hins vegar farið fram úr okkur í þróun, ef svo má að orði komast – við erum fullfær um að eyða okkur sjálf. Mannskepnan er á pari við hvaða náttúruhamfarir sem er.
Tæknin, afdrifaríkasta framlag mannsins til eigin tilveru, stingur sér víða niður í ljóðunum og ljóðmælandi virðist hugsi yfir áhrifum hennar á líf okkar og hegðun. Hraði tækninnar er í andstöðu við heim náttúrunnar sem við æðum um á nagldekkjum með háuljósin kveikt en tökum samt ekki eftir umhverfi okkar eða öðru fólki. Rafmagnið og afsprengi þess hinn stafræni heimur birtist stundum sem þil milli manns og náttúru, líkt og í ljóðinu „Á að líta“, þar sem þeirri spurningu er varpað upp hvort mikilvægara sé „að sjá sig um eða sjást á myndinni?“ Tæknin verður einnig að máttlausu tóli þegar kemur að því að fanga náttúruna í orð þar sem ljóðmælandi reynir að lýsa haustinu en orðin „fjúka af skjánum eins og fis“. Síðar er svo leikið með þá hugmynd hvernig tæknin mótar hugsun okkar, jafnvel þó við gerum okkur ekki grein fyrir því sjálf.
Alvöru
skáld gáfust upp á vorinu
þegar rafmagnið kom
götuljósin vekja ekki með koss
bjart í öllum bænum
margur sneri sér þá
að rökkrinu
í huganum
húmdökkum skuggum
tilbrigðum í
haustlaufinu
gengin spor
því alvara lífsins
verðu fæstum ljós
fyrr en
öllu er lokið
Ljóðmælandi Troðninga er á stöðugri hreyfingu í tíma og rúmi og mörg af sterkari ljóðum bókarinnar bera með sér söknuð eftir einfaldari veröld, friðsællri veröld sem teflt er gegn hraða nútímans. Kannski verður líðan hans best lýst með orði sem hann notar sjálfur í ljóðinu „Í Bjarneyjum; strandaglópur“. Fyrir þá sem upplifa sig álíka utan vega í titrandi heimi rafbylgjanna ætti bókin því að vera kærkomin vin.
Töfrar tungumálsins
Það er dapurleg staðreynd að orðaforði fólks fer minnkandi og margt er að glatast úr málinu, til að mynda orð sem tengjast náttúrunni og veðurfari. Eins og sjá má á þeim ljóðum sem birt eru ofar er hér fagurlega farið með íslenskt mál og unun að lesa. Textinn er á engan hátt tyrfinn eða upphafinn en orð eins og „útsynningur“, „geldingadvöl“, „kólga“, „birkiþrastarsveimur“ og „bjóð“ minna mann óneitanlega á að maður er illa talandi á eigin tungu.
Áhrifamætti og efni heillar ljóðabókar verður seint komið fyllilega til skila nema með beinni reynslu. Ekki síst þegar um er að ræða verk sem er bæði heildstætt og vel hugsað, líkt og það verk sem hér hefur verið til umfjöllunar. Höfundur Troðninga gæti hæglega verið að lýsa ljóðlistinni þegar hann segir: „hið augljósa er aldrei skáldlegt / það sem er upplýst er um leið afgreitt“. Lesendur eru því einatt hvattir til að leggja sjálfir í ferð um þær slóðir íslenskrar tungu og náttúru sem Troðningar bíður upp á og njóta þannig ferðalagsins til fulls.
Hrafnhildur Þórhallsdóttir, nóvember 2021