Tryggvi Emilsson rithöfundur (1902-1993) bjó hér í Blesugrófinni frá 1947 til 1956. Æviminningar hans eru mikilvæg heimild um líf og baráttu verkafólks á Íslandi á tuttugustu öld en þetta eru bækurnar Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan. Þær komu út á árunum 1976 – 1979 og voru tvær fyrstu bækurnar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Í þriðja bindinu lýsir Tryggvi meðal annars merkilegri uppbyggingu Blesugrófarinnar, en hann og fjölskylda hans voru meðal fyrstu íbúa hverfisins og bjó Tryggvi í húsi sem kallað var Gilhagi og stóð á grasbala milli húsanna sem nú eru númer 15 og 17. Í gangstéttinni milli þessara húsa stendur grenitré sem Tryggvi gróðursetti þar árið 1952.
Tryggvi og fjölskylda hans voru meðal þúsunda sem flykktust til höfuðborgarinnar á fimmta áratug tuttugustu aldar, en hingað komu þau frá Akureyri.
„Líklegt má telja að nafnið Blesugróf hafi orðið til vegna þess að blesótt hryssa hafi borið þar sín bein og fundist þar dauð eftir harðan vetur, kannski hefir hún ekki haft þrek til að kasta folaldi vegan megurðar, kaldir vetur léku þarfasta þjóninn oft æði grátt.”
Tryggvi Emilsson: Fyrir sunnan
Blesugrófin var byggð upp af efnalitlu fólki í lok stríðsáranna sem setti niður kofa eða byggði við þá sem fyrir voru. Gilhagi var til að mynda upphaflega baðhús fyrir breska herinn en Tryggvi breytti því í tvíbýlishús eins og lesa má af lýsingu hans í bókinni. Á hernámsárunum stóð braggahverfið New Mercur Camp þar sem nú er Blesugróf. Landið var utan skipulags en þar höfðu risið nokkur býli upp úr 1930 auk sumarbústaða. Vestan við byggðina lá vegur sem var kallaður Útvarpsstöðvarvegur eða Breiðholtsvegur og var byggðin um skeið kölluð Breiðholtshverfi. Byggðin hélt áfram að þéttast þar til nýtt íbúahverfi var skipulagt á svæðinu í byrjun sjöunda áratugarins. Allnokkur húsanna frá upphafsárum hverfisins standa enn en önnur, líkt og Gilhagi, hafa vikið.