Af bókarkápu:
Stórt seglskip er statt í sjávarháska um miðjan vetur undan klettóttri strönd. Skipverjar hamast við að berja ísinn og biðja til Guðs, allir nema einn: Sá sem er bundinn við stórsigluna og formælir heiminum, almættinu og lífinu. Hann er líka sá eini sem kemst af. 400 árum síðar er beðið eftir að hann stígi á svið ...
Túristi er ferðasaga. Leiðsögumaðurinn heitir Stefán Máni og slóðin liggur um lendur ástarinnar, um refilstigu bókmenntanna og dularfulla afkima mannsins. Ferðalöngunum er búið rúm á hóteli með leynihólfum og myrkum kjallara sem geymir margklofna rithöfunda og býður upp á drauga fortíðar í matinn. Og okkur eru sagðar sögur: sögur innan í sögum sem aftur eru sögur því við erum túristar og leiðsögumaðurinn búinn að þramma þennan veg í 400 ár.
Úr Túrista:
Það var nótt...
Einhvernveginn svona á hún að byrja, nýjasta skáldsaga Eyvindar. Epískt stórvirki ssem hann er búinn að vinna að með hléum í á annað ár og ber vinnutitilinn Fuglinn Fönix.
Aðalpersóna sögunnar er þessi ungi maður, sem (samkvæmt glósum Eyvindar) er: hávaxinn og sterkur, eins og fjöllin í kringum hann. Dökkur yfirlitum og dimmur til augnanna, eins og nótt hinna myrku miðalda, sem er tími hans. Heiftugur og óvæginn, eins og óveðrið, sem dregur hann til sín. Tómur af lífsgleði og kaldur að innan, eins og þessi drungalegi afdalur sem hann elst upp í.
Þessi ungi maður er ennþá nafnlaus þegar hér er komið sögu. Hann spratt fram ljóslifandi í huga Eyvindar löngu áður en örlagaþrungin saga hans tók að mótast. Og þetta hrikalega umhverfi, það fylgdi honum alveg frá upphafi. Rétt eins og svört skinnklæðin, há kinnbeinin, þykkar varirnar, köld augun og axlarsítt hárið.
Einfari, tautaði Eyvindur um leið og hann bætti nokkrum glósum um þetta hugarfóstur sitt í dökkbláa stílabók, sem fáeinum mánuðum síðar var orðin útkrotuð spjaldanna á milli. Ekki maður orða, heldur gjörða. Heillandi, en hættulegur. Andhetja. Átrúnaðargoð?
Hugmyndin um einhversskonar epíska ferðasögu skaut snemma upp kollinum í tilgerðarlegum og alvöruþjökuðum huga höfundarins, þar sem aðalpersónan ferðaðist frá einum stað, A - afdalnum, til annars staðar, B, sem væri þá andstæða hins fyrri. Til dæmis stórborg. Línan á milli þessara tveggja póla sögunnar væri þá meginkafli bókarinnar, sem á yfirborðinu væri viðburðarík saga af ferðalagi ungs manns sem ómenntaður og allslaus leggur einn af stað á vit örlaganna, en væri á sama tíma nokkurs konar innra ferðalag sálarinnar. Þroska eða andþroskasaga sama einstaklings, sem tekst á við ýmsar þrautir og lendir í ævintýrum og lærir smám saman að þekkja skráðar og óskráðar reglur hins stóra heims. Eða þá að hann semur jafnóðum sínar eigin reglur og beygir heiminn að vilja sínum, í stað þess að láta fortíð sem hann þekkir ekki laga sig að vilja þeirra sem hana sköpuðu.
En hver yrði hans vilji? Hvernig reglur myndi svona manngerð semja jafnóðum handa sjálfum sér?
Það færi ef til vill mest eftir því í hvaða aðstæðum hann lenti á ferð sinni. Hvers konar fólk hann kæmist í kynni við á leiðinni. Og hvernig hann, ókunnugur maðurinn, kæmi til með að vinna úr þeim aragrúa upplýsinga - lyga, sanninda, vísbendinga, svipbrigða og sögusagna, ssem hann hlyti óhjákvæmilega að taka á móti á löngu ferðalagi sínu um vegi og vegleysur ókunnugs lands, þar sem hættur og freistingar leynast við hvert fótmál.
Að öllum líkindum var lykilinn að sögunni allri að finna í óskrifuðum lokakafla hennar.
(28-29)