Beint í efni

Ungfrú Ísland

Ungfrú Ísland
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Ég rýni út um gluggann. Bjó ekki skáldkona á þessum bæ? Niðaði ekki einmitt í æðum hennar þessi kolgráa, straumþunga á, full af sandi og leðju? [...] Það var svo mikið óyndi í henni að eitt ljósbjart vorkvöldið hvarf hún ofan í silfurgráan hylinn í ánni. Tilhlökkunin yfir því að fá nýorpin svartfuglsegg nægði henni ekki, því hún var hætt að sofa. Hún fannst í silungsneti við brúna, vængstýft skáld var dregið á land í gegnsósa pilsi, með lykkjufall á sokkum, maginn fullur af vatni.
- Hún eyðilagði netið, sagði bóndinn sem átti lögnina. Ég lagði fyrir silung en möskvarnir voru ekki gerðir fyrir skáldkonu.
Örlög hennar voru í senn víti til varnaðar og eina fyrirmynd mín að kvenkynsrithöfundi.
Annars voru skáld karlkyns.
Ég lærði af því að segja engum hvað ég hugðist fyrir. (bls. 26-27)

Auður Ava sýnir enn og aftur lágstemmda skáldskaparsnilli og einstaka næmni fyrir mannlegri tilveru í sjöttu skáldsögu sinni, Ungfrú Ísland. Að þessu sinni fetar Auður nýjar slóðir og stekkur aftur til ársins 1963 þar sem hún segir frá lífi Heklu Gottskálksdóttur. Hekla er bóndadóttir úr Dölunum, uppalin á slóðum Laxdælu, og hefur verið ætlað að verða skáld allt frá því hún sá nöfnu sína gjósa fjögurra ára gömul. Sagan hefst þegar Hekla situr í rykugri sérleyfisrútu á leið til Reykjavíkur og reynir að ráða sig fram úr Ulysses eftir James Joyce með hjálp orðabókar. Hún ætlar sér að verða skáld en veit betur en að hafa hátt um fyrirætlanir sínar. Skilaboð heimsins til Heklu eru skýr: skáld eru karlkyns. Ójafnvægið er undirstrikað þegar eldri maður sest við hliðina á henni og þykir það sérstakt að Hekla skuli vera að lesa erlenda bók. Hann býður henni að taka þátt í Ungfrú Íslandi en Hekla afþakkar og fær fallega kveðju á móti: “Mikið helvíti eruð þér sætar í svona köflóttum síðbuxum.”

Rútuferðin í upphafi verksins setur tóninn fyrir það sem koma skal. Hekla kemur sér fyrir í Reykjavík sem getur reynst konum erfið er ætla feta sína eigin leið í lífinu. Hún fær sér vinnu á Borginni við uppvörtun og sinnir um leið skáldskapnum eins mikið og hún kemst upp með, en ræðir enn skrifin ekki við neinn nema sína allra nánustu. Hekla er heillandi persóna en um leið fjarlæg. Hún er sögumaður og þungamiðja verksins en tregða hennar til að tjá sig um drauma sína og langanir smitast út í frásögn verksins. Óræðni Heklu veitir sögunni aukna dýpt þar sem lesandinn er stöðugt að máta mögulega persónu Heklu við lýsingar hennar á því sem verður á vegi hennar. Ungfrú Ísland segir frá raunum Heklu við að fóta sig í tilverunni en hverfist að mestu um samskipti hennar við þrjár mikilvægustu manneskjurnar í lífi hennar; æskuvinkonuna Íseyju sem er orðin húsmóðir í Reykjavík, samkynhneigða sjómanninn Jón John og kærasta Heklu, sjálftitlaða skáldið Starkað. Í gegnum samskipti Heklu við hvert þeirra bregður fyrir mismunandi hliðum á persónu Heklu ásamt því að sérkenni og efnistök skáldskapar Auðar Övu eru undirstrikuð.

Í samtölum Heklu og Íseyjar fær ástin til listarinnar að blómstra. Hekla fer reglulega í heimsókn í litlu kjallaraíbúð Íseyjar í Norðurmýri þar sem hún býr með eiginmanni sínum og kornungri dóttur. Oftar en ekki beinir Ísey samtalinu að list, skáldskap og tjáningu og heldur einræður um óstjórnlega löngun hennar til að skapa. Skáldskapurinn brýst ósjálfrátt fram og hún er farin að halda uppdiktaða dagbók þar sem hún skráir það sem gerðist og gerðist ekki yfir daginn. Í óhefluðum eintölum Íseyjar nær Auður að draga fram hvernig listin og hversdagsleikinn þrífast hvort á öðru og eiga í stöðugu samspili. Það er ekkert nýtt að rithöfundar geri skáldskapinn sjálfan að umfjöllunarefni sínu en mér hefur alltaf fundist nálgun Auðar frískandi og án allrar tilgerðar. Fyrir Íseyju á sköpun til að mynda ekkert skylt við móðurhlutverkið og hana dreymir martraðir um að eignast fleiri börn. Sýn Auðar á fegurð í orðum er lágstemmd og heiðarleg og hún forðast að lofsyngja skáldskap -- og gerir hreinlega grín af þeirri nálgun í verkinu. Sköpunin sem brýst um í Heklu og hinni listsveltu Íseyju á lítið sem ekkert skylt við rembinginn sem Starkaður og Mokkaskáldin fást við. 

Ísey verkar líka sem spegill á líf Heklu, andstæða en um leið hin hliðin af sama lífi. Þær ólust báðar upp á Dölunum en Ísey varð ólétt ung, giftist og gerðist húsmóðir í Reykjavík. Samfélagið ætlaðist til þessa af Heklu en ef hún hefði farið þá leið hefði hún orðið jafn þjökuð og listsvelt eins og Ísey. En við það að fara sína eigin leið er Hekla á skjön við samfélagið og hún fellur augljóslega ekki í mót samtímans. Hún finnur því til mikillar samkenndar með vini sínum Jóni John, en hann er ástandsbarn og “hómósexúalisti” sem á sér hvergi samastað í heiminum. Jón John hefur unun af því að sauma en neyðist til að vinna fyrir sér á sjó þar sem komið er fram við hann á hrottalegan hátt vegna kynhneigðar hans. Vinátta þeirra er einstök og ver þau fyrir umheiminum. Jón John hvetur Heklu áfram í skrifunum, gerir allt sem hann getur til að styðja hana og er þakklátur fyrir þann andlega stuðning sem hún veitir honum. Hekla, Ísey og Jón John eru öll lifandi dæmi um óréttlæti sem grundvallast í skaðlegum hugmyndum um samband kynjanna -- en hvað er merkilegt eða nýstárlegt við að benda á að konur og hommar hafi átt bágt á síðustu öld? Öllum ætti að vera augljóst að valdahlutföllin milli kynjanna voru og eru skökk og í skáldskap má oft draga samasem merki milli hins augljósa og hins óáhugaverða. Til hvers að að eyða orðum í það sem liggur í augum uppi? En það er einmitt í þeim tilfellum sem ljós Auðar skín sem skærast. Hún hefur alltaf eitthvað nýtt að segja og setur hlutina í nýtt samhengi, hvort sem það er um skáldskap, kynhlutverk eða eitthvað allt annað. Hún fléttar kúgun kvenna saman við fáránleika karlmennskuhugmynda ásamt því að sýna breidd upplifana persóna af báðum kynjum. 

Starkaður er til að mynda að mörgu leyti dæmigerður karlmaður þar sem hann er svo upptekinn af sjálfum sér og eigin ágæti að honum yfirsést að Hekla er líka manneskja með sínar eigin hugmyndir og skoðanir. Starkaður er heltekinn af skáldskap og nýtur þess að deila sérlega fallegum setningum og ljóðum með Heklu, en hann er mest fyrir íslenska höfunda og skilur lítið í áhuga Heklu á skrítnum erlendum höfundum. Hann ber ómælda virðingu fyrir skáldskaparsnilli Mokkaskáldanna, hópi karlmanna sem eyðir meiri tíma í að „vera skáld“ en að skrifa, og heyrir varla þegar Hekla laumar inn gagnrýni á þá. Þrátt fyrir þetta tekst Auði Övu að gera Starkað að sympatískri persónu þar sem hegðun hans sprettur ekki úr illkvittni heldur frekar fáfræði og einfaldleika. Karlmennska og kvenleiki eru fjölbreytileg hugtök í meðferð Auðar Övu og í Ungfrú Ísland bregður fyrir mýkri hlið karlmennskunnar sem Auður hefur tekist á við í fyrri verkum sínum, líkt og í Ör (2016) og Afleggjaranum (2007). Samband Heklu og Starkaðs er aðeins eitt dæmi um hvernig Auði tekst að vera ekki ásakandi eða prédika lausnir. Þess í stað vekur hún samkennd og sýnir alvarleika aðstæðna með því draga ekki upp svarthvíta mynd. 

Þrátt fyrir að Auði Övu takist einstaklega vel upp með að fjalla um málefni kynjanna má ekki smætta verk hennar niður í kynjapólitík, það er aðeins ein hlið af fjölbreyttum skáldskap hennar. Ég á enn eftir að ræða eitt mikilvægasta höfundareinkenni Auðar Övu og helsta styrkleika Ungfrúar Íslands: húmor. Kímnigáfan gerir söguna sérlega skemmtilega aflestrar og sameinar ólíka þræði verksins. Litlir brandara og sérkennileg atvik leynast víða í textanum og skjóta upp kollinum þegar maður á síst von á því, jafnvel í miðri frásögn af sjálfsmorði eins og í textabrotinu í upphafi þessarar umfjöllunar. Mikið er um einfaldar senur sem eru bráðfyndnar á lágstemmdan hátt og verða enn ánægjulegri þegar þær koma manni að óvörum, eins og þegar æsispenntir rútufarþegar að reyna að koma auga á Halldór Laxness keyrandi á glæsikerru en sjá þess í stað konu með börn undir stýri -- eða tilgerðin sem fylgir glæstum og þjóðlegum nöfnum Mokkaskáldanna á borð við Daða Draumfjörð og Ægi skáldajökul. Með sinn einstaka húmor að vopni afbyggir Auður Ava einnig staðalímyndir og grefur undan gefnum hugmyndum, hvort sem það er að gera heilagleika snillingsskálda hlægilegan eða sýna fram á fáránleika þess að konur séu undirokaðar í samfélaginu.

Bækur Auðar Övu eru fullar af leiftrandi lágstemmdum prósa, fallegum myndum og hárfínum bröndurum sem skjóta upp kollinum þegar maður á síst von á þeim. Ungfrú Ísland stenst allar væntingar og er ánægjuleg viðbót í höfundarverk eins besta skálds Íslands. 

 

Már Másson Maack, 2018