Um uppljómanir & árstíð í helvíti
Í þessari bók er safnað saman frægustu ljóðaflokkum Rimbauds og hafa þýðendur skipt með sér verkum þannig að Sigurður Pálsson þýðir prósaljóðasafnið Uppljómanir en Sölvi Björn Árstíð í helvíti og ýmis ljóð í bundnu máli.
úr uppljómunum
Ég er uppfinningamaður, verðleikar mínir eru aðrir en allra hinna sem á undan mér komu; sem tónlistarmaður hef ég jafnvel fundið eitthvað sem kalla mætti lykil ástarinnar. Um þessar mundir er ég herramaður í beisklegri sveit undir dempuðum himni, ég reyni að koma tilfinningunum í uppnám með minningum um betlandi bernsku, lærlingstímann eða þegar ég birtist á tréklossunum, rifrildin, fimm eða sex sambandsslit og stundum gleðskapur þar sem þvermóðskan kom í veg fyrir að ég samlagaðist félögunum. Ég sakna ekki minnar gömlu hlutdeildar í hinum guðdómlega gáska: dempað loftið í þessari beisklegu sveit styrkir mjög hroðalegar efasemdir mínar. En þar sem ekki er lengur hægt að láta efasemdirnar verða að veruleika, og reyndar er ég ofurseldur nýju hugarróti - þá geri ráð fyrir því að verða mjög viðsjárverður brjálæðingur.
(bls. 30)