Uppsprettan auglýsir eftir handritum, sem aldrei hafa verið flutt á sviði áður. Þau mega vera mest 8 blaðsíður að lengd, eða 8 blaðsíðna heilsteypt atriði. Því miður eru einleikir ekki leyfðir og hver höfundur má einungis senda inn eitt handrit. Engar aðrar kröfur eru gerðar. Uppsprettan er nokkurs konar skyndileikhús. Leikstjórar fá handrit í hendur nokkrum tímum fyrir upphaf einu æfingarinnar. Æfing með leikurum eru einungis þrír tímar. Svo er sýnt! Þetta form er mikil ögrun fyrir alla sem að verkunum koma og verða þá til töfrar og litlir gullmolar líta dagsins ljós. Uppsprettan stuðlar að því að kynna ný leikskáld, kappsama leikstjóra og hugaða leikara. Allir þátttakendur þurfa að stíga út fyrir þægindaramman og ögra sjálfum sér! Nefnd skipuð reyndu leikhúsfólki mun lesa handritin og velja svo úr þau þrjú handrit sem þeim þykir best og verða sett á svið í Tjarnarbíói þann 7. apríl næstkomandi. Handritin verða send til nefndarinnar án þess að höfundar verði nafngreindir, en hinsvegar verða höfundar verkanna þriggja, sem valin verða, nafngreindir á sýningarkvöldinu og á Facebook-síðu Uppsprettunnar. Leikstjórarnir fá handritin í hendurnar u.þ.b. sólarhring fyrir frumflutning, og fá þá einnig að vita hvaða rými þeir eru að vinna með og hvaða leikhóp. Þeir hafa svo daginn til að hanna uppsetninguna og finna til leikmuni, búninga eða hvað sem þeir vilja, og leysa úr þeim áskorunum sem felast í handritinu, rýminu og/eða leikhópnum. Leikararnir fá handritin einnig í hendurnar sólarhring fyrir. Um kvöldið, eða þremur klukkutímum fyrir frumflutning, fá leikstjórarnir svo að byrja að vinna með leikurunum í æfingarými sem verður opið fyrir gesti og gangandi til að fylgjast með. Þremur tímum seinna er svo útkoman sýnd. Þeir sem hafa áhuga á að senda inn handrit hafa frest til miðnættis þriðjudaginn 18. mars næstkomandi og þeir sem hafa áhuga á að taka þátt hafa til miðnættis 4. apríl að senda inn umsókn ásamt ferilskrá. Senda skal inn umsóknir á spretturupp@gmail.com. Meiri upplýsingar finnast á Facebook-síðu verkefnisins.
Uppsprettan auglýsir eftir handritum
