Beint í efni

Vængjahurðin

Vængjahurðin
Höfundur
Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Útgefandi
Viti menn
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er alltaf gaman að fá fagurbleika hluti í hendurnar. Að þessu sinni er það skærbleik ljóðabók, Vængjahurðin eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Bókin er fallega hönnuð, breið um sig og bleik (eins og áður hefur verið ýjað að), með mynd af hvítri vængjahurð framaná, aftaná er hvít útlínumynd af höfundi. Hönnunin gefur til kynna léttan og kíminn tón, gleði og leik. Og ljóðin í bókinni einkennast svo einmitt af slíkri tóntegund.

Í gegnum tíðina hefur mér fundist Elísabet afskaplega mistækur rithöfundur. Ég hef verið mjög hrifin af mörgu, en síður af öðru. Það er því alltaf með nokkurri varúð sem ég opna bækur frá henni; ég veit aldrei hverju ég á von á. Að þessu sinni gerði útlitið mig forvitna og glaða – og lestur ljóðanna gladdi mig líka. Ljóðin eru yfir hundrað að tölu, eins og segir á titilsíðu, 108 til að vera nákvæm, og eru númeruð. Þau eru öll stutt, yfirleitt einungis tvær línur, en eru þó ekki hækur, frekar einskonar myndbrot sem raðast saman í eina óljósa heild, sem er einfaldlega ástin, saga af ást, eða lýsing á ást. Í þeim lýsingum má finna margar skrýtnar og skemmtilegar myndir eins og í ljóði 26, en þar segist ljóðmælandi viljað hafa bláar flísar á baðinu áður en hún orti þessi ljóð: "en núna helst bleikar með blómum, ég er biluð." Þannig er skáldkonan alltaf að fjalla um það að skrifa ástarljóð um leið og hún lýsir ástinni, eitt ljóðið hljómar svo: "Þegar ég hugsa um þig langar mig,/til að yrkja kínverskt ljóð, klúrt." Vængjahurðin birtist svo undir lokin: "Eina nóttina opnar þú fyrir mér vængjahurð/í draumi." Oft á tíðum eru ljóðin einfaldar og í raun hversdaglegar myndir eins og þessi með vængjahurðina, en þegar þær raðast upp í heild er útkoman falleg.

Vængjahurðin er gleðigjafi í skammdeginu, jafnt að utan sem innan.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003