Um þýðinguna
A Ripple From the Storm eftir Doris Lessing í þýðingu Hjartar Pálssonar.
Heimsstyrjöldin síðari er í algleymingi. „Gakktu í herinn og heiminn færðu að sjá,“ syngja strákarnir, og stúlkurnar fara heldur ekki varhluta af styrjaldarlífinu. Marta Quest hefur yfirgefið eiginmann sinn og dóttur og eignast pilt í flughernum að elskhuga. Vissan um að hann verði sendur á vígstöðvarnar og að hamingjudagar þeirra eigi sér kvöld, eykur einungis á ljóma þeirra. Þau eru systkini í alþjóðlegu bræðrabandi ungra róttæklinga, þau trúa á heimsbyltinguna og fyrirlíta þjóðfélag Suður-Afríku sem þau hrærast í. Bók þessi er sjálfstætt framhald bókanna Marta Quest og Í góðu hjónabandi sem út hafa komið á íslensku. Veðraþytur er þriðja bindið af fimm í þeim meistaralega sagnabálki sem Doris Lessing nefndi síðar Börn ofbeldisins. Þetta er ástríðufull þroskasaga - saga nútímakonu í átökum við samvisku sína og samtíð.
Úr Veðraþyt
Nú horfði hann á Jasmine eins og sá sem er við því búinn að verða svikinn. „Jackie,“ sagði Jasmine ákveðin þótt röddin væri óstyrk, „þú veist að þú átt ekki að tala svona við Afríkana á almannafæri. Við erum öll að reyna að fara svo varlega.“ Jackie leit á William og Mörtu í von um stuðning, en fann að hans var ekki að vænta og skimaði þess í stað glottandi upp í loftið. „Ef þú þarft að tala við afríska samherja skaltu koma með þá hingað upp þar sem enginn sér til.“ „Þessi maður er á við allan hópinn,“ sagði Jackie. „Hann er búinn að keyra mig nokkrum sinnum í bæinn. Hann hefur eðlislægan skilning á grundvallaratriðum stjórnmálanna.“ „En Jackie, auðvitað hefur hann það. Málið snýst ekki um það.“ Jasmine var gráti nær. William kom henni til aðstoðar. „Svona, Jackie, þetta er tóm helvítis tjara.“ „Liðþjálfinn á ekki að brúka kjaft,“ sagði Bolton liðsforingi hlæjandi. Þessi gamli brandari varð til þess að þau fóru að hlæja og við það létti öllum. Marta sagði: „Þú lofaðir að koma hingað í gærkvöldi svo að við gætum öll rætt hvernig best væri að taka á málum á fundinum í kvöld. En nú er varla mikill tími til útskýringa, eða hvað, Jackie?“ „William er búinn að segja það sem segja þarf,“ sagði Jackie í léttum tón og fór að klæða sig í einkennisjakkann og hneppa hann að sér. Það varð þögn og Jackie horfði á þau glottandi til þess að fá þau til þess að gera skyldu sína og gagnrýna hann enn frekar. Vonbrigðin leyndu sér ekki í rómnum þegar Jackie sagði: „Klukkan er átta. Við verðum að koma okkur á fundinn.“ Taskan með lesmálinu lá opin á borðinu. Jackie Bolton leit á það með hendur í vösum. „Hvar eru marxísku ritin?“ spurði hann ákveðinn. „Við tókum ákvörðun um það,“ sagði Jasmine gallhörð. „Engin marxistarit á fundunum hjá Bandamannahjálpinni. Það er röng baráttuaðferð.“
(s. 9-10)