Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar Gísladóttur og kom út í byrjun sumars. Fyrsta ljóðabók hennar, Leyndarmál annarra, kom út árið 2010 og hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Þá hefur Þórdís einnig skrifað tvær barnabækur um þau Randalín og Munda og starfað við þýðingar. Velúr er stórskemmtileg bók er hefur að geyma ljóð sem fjalla um sameiginlegt minni og sértækar minningar því tengdu, skáldaðar persónur er lesendur gætu vel þekkt úr eigin lífi og samtíma og hversdagsleg málefni sem teflt er gegn hinu háleita er einkennir svo oft ljóðlistina. Það síðastnefnda tel ég að endurspeglist í titli bókarinnar, Velúr, en skilgreining á því efni úr ungmennatímaritinu Monitor birtist aftan á ljóðabókinni: „Velúr er eitt af þessum efnum sem maður ýmist elskar eða hatar. Hefur það þótt nokkuð hallærislegt síðustu ár en kemur nú sjóðheitt inn.“ Að vissu leyti má ímynda sér að ljóðið hafi svipaða stöðu í huga ljóðmælanda. Hún virðist hafa tvíbenta afstöðu til ljóða og finnst þau hallærisleg þegar þau verða of háleit og uppskrúfuð.
En við frekari eftirgrennslan er hið háleita aðeins ein og ansi þröng skilgreining á ljóðinu. Hin öra og frjósama útgáfa ljóðabóka í samtímanum ber þess vitni að ljóð geta, mega og eiga að vera alls konar og fjalla um allt milli himins og jarðar. Hið merkingarsnauða hversdagslíf á heima í ljóðum jafnt og stórkostleg, hárómantísk og ódauðleg hugtök á borð við ást, sorg, hatur og bræðralag. Og í orðinu „velúr“ birtist sama tvíræðna merkingarmyndin því orðið vísar í sömu andrá í efni og klæði sem margir tengja við fyrri tíma klassík og stórar sögulegar persónur á borð við Lúðvík 14. en að sama skapi á svokallaða velúrgalla sem þykja... tja ekki eins klassískir. Og höfundur Velúr hvetur okkur til að hugsa um ljóðið á sama hátt; tengja það við hefðina og háleitar hugmyndir en jafnframt hið hversdagslega og tíðindalausa sem einkennir líf okkar flestra.
Ljóðin í Velúr eru skemmtilega nútímaleg, fyndin og gera oft grín að sjálfum sér og ljóðahefðinni í leiðinni. Ljóðmælandi skilur sig til dæmis frá háleita náttúruljóðinu í „Fólk“ sem hefst svo:
Í þessu ljóði er ekki þorstlát jörð
sem teygar sumarregn
og ekkert kvöldhúm eða þytur í asparlaufum.
(...)
Eins og áður sagði virðist ljóðahefðinni oftar eignuð viðfangsefni og þemu sem jafnast á við augnablik sem þrungin eru merkingu en koma kannski ekki svo oft fyrir í hinu tíðindalausa hversdagslífi. Hér gerir höfundur einmitt hinum augnablikunum skil; þessum merkingarsnauðu en síendurteknu sem bera vott um hversu stór hluti af lífi okkar flestra er tilbreytingalítill. Eitt af uppáhalds ljóðunum mínum í Velúr, „Melankólía fyrir miðaldra“, endurspeglar einmmit þessa afstöðu en þar gerir ljóðmælandi stólpagrín af sjálfri sér, veruleika sínum og þessum andlausu augnablikum sem við upplifum svo oft í hvunndeginum:
Líklega er ég hvergi
eins fjarri draumum mínum
og á mesta annatíma
í umferðarsultu
í Ártúnsbrekkunni
í skammdeginu.Nema ef vera skyldi
á KFC í Mosfellsbæ.
Ljóð Þórdísar einkennast af meinhæðni sem felur í sér ákveðna gagnrýni. Ljóðið „Misvísandi skilaboð“ beinir sjónum að þeim margvíslegu skilaboðum sem konur fá þegar þær lesa ýmiss konar lífstílsblogg og tímarit. Slíkir miðlar eru fyrirferðamiklir í samtíma okkar og skapa staðalímyndir sem lesendur eru fengnir til að máta sig við. Þórdís dregur fram þann fáránleik sem felst í slíkum staðalímyndum og tilraunum til að lifa eftir stöðluðum hugmyndum. Í ljóðinu kemur til að mynda fram að það þyki ekki kvenlegt að borða beikon en að sama skapi er það álitið of kvenlegt að drekka hvítvín í stað bjórs. Ljóðmælandi ávarpar sögupersónu í ljóðinu sem fær nafnið Sigríður Dögg og er ímynd meðalkonunnar sem hrærist í flóknum heimi staðalímynda í lífstílstímaritum.
Svipaðar sögupersónur koma ítrekað fyrir en ljóðin „Margrét“, „Sonja“, „Svala Ósk“ og „Kristbjörg“ eru allt grátbroslegar frásagnir og lýsingar af konum sem bera þessi nöfn. Þrátt fyrir að persónurnar séu skáldaðar gætu lesendur vel kannast við svipaðar týpur úr eigin lífi. Margrét er til að mynda eldri kona sem er dálítið áttavillt í nútímanum, skilur ekki fullkomlega fésbók og hefur aldrei þorað að smakka sushi. Sonja er eldri frænka ljóðmælanda sem safnar stelli og keðjureykir (og á dóttur sem heitir Petra og er kynjakattaræktandi og sjálfstætt starfandi dáleiðandi í Hveragerði!) en Svala Ósk er leynilega ástfangin af Degi B. Eggertssyni og ætlar að kíkja til hans í vöfflukaffi á Menningarnótt. Sorglegasta sagan er af Kristbjörgu sem í örvæntingu sinni hringir í Vinalínuna. Sögunni fylgir blaðaúrklippa sem er einmitt auglýsing frá Vinalínunni en með sögu Margrétar fylgir auglýsing fyrir sólarlandarferð til Mallorca. Blaðaúrklippurnar, sem gætu verið fengnar á timarit.is, auka raunsæi frásagnanna og tengja þær enn skýrar við sameiginlegt minni lesenda sem muna eftir þessum fyrirbærum og tengja þar af leiðandi sögurnar af konunum við eigið líf og tíma sem þeir muna eftir.
Fleiri ljóðum í Velúr er stillt upp á móti blaðaúrklippum sem tengja þau við samfélagið utan við ljóðheiminn. Blaðaúrklippurnar endurspegla hér sameiginlegt minni sem höfundur tekst á við og leikur sér með. Vitund ljóðmælanda birtir sértækt sjónarhorn á minninguna sem hún deilir með öðrum af sömu kynslóð og/eða úr sama samfélagi. Blaðaúrklippurnar móta einnig sameiginlegt minni því umfjöllunin um tiltekin atburð stýrir að vissu leyti upplifun okkar á atburðinum og síðar hvernig við munum hann. Sem dæmi má nefna ljóðið „1980 1“ en við hlið þess er blaðaúrklippa frá 9. desember 1980 sem geymir frétt af morði Johns Lennons. Ljóðið sjálft lýsir hefðbundnum dögum á þessum tíma í lífi ljóðmælanda og um leið annarra barna sem gengu í Landakotsskóla á sama tíma. Lífið gengur sinn vanagang með skammdegi og klausturbjöllum sem vekja skólabörnin á morgnana. Í skólanum eru pervertískir kennarar (sem minnir einnig á nýlega fjölmiðlaumfjöllun) og einn daginn er allt í einu búið að skjóta John Lennon.
Hinn sögulegi atburður tengir ljóðið við ákveðinn tíma án þess að merkingu atburðarins séu gerð nánari skil né túlkuð í ljósi „eftirávitneskju“. Þetta stílbragð, að nýta forsíður gamalla dagblaða til að ramma inn hinn sögulega tíma, þekkist úr sögulegum textum, t.d. ævisögum. Þá er það vel þekkt í sjálfsævisögum að höfundur velti fyrir sér forsíðum dagblaða frá fæðingardegi sínum til að sýna fram á hið sértæka persónulega minni og sögu manneskjunnar, frammi fyrir hinu sameiginlega minni og opinberu sögu stóru atburðanna. Hér mátar ljóðmælandi sig við hinn opinbera sögulega atburð og varpar um leið ljósi á hið sameiginlega minni út frá sínu persónulega og sértæka sjónarhorni. Ljóðið kallast einnig á við tvíburaljóðið „1980 II“ þar sem talin eru upp hin ýmsu vörumerki – Camel, Prince Albert, Freemans, Rafha, landi í kók (sem má næstum því teljast vörumerki) – sem ljóðmælandi tengir sig við og finnst lýsandi fyrir upphaf níunda áratugarins.
Margræðni minnisins, sem felur í sér samspil ólíkra sögulegra tíma og tekur á sig vofukennt form, verður einnig að yrkisefni í ljóðinu „Vonarstrætisvagn“. Þar er ólíkum sögulegum tímum att saman. Ljóðið hefst í nútímanum og segir frá manneskju sem ferðast í strætisvagni og handfjatlar smartsíma en ljóðið rifjar einnig upp það ötula starf sem fram fór í húsinu númer 12, við sömu götu, á tímum Theódóru og Skúla Thoroddsen, í húsi sem síðar varð flutt á Kirkjustíg. Til hliðar við ljóðið er svo blaðaúrklippa úr gömlu dagblaði sem sýnir auglýsingu um lækni næturinnar, Katrínu Thoroddsen, sem stödd var í sama húsi. Ljóðið sýnir þannig fram á hvernig vissir staðir verða „vofulegir“ því þeir eru sögusvið margra ólíkra tíma, stórra og smárra atburða, sem ýmist eru liðnir, eiga sér stað í samtímanum eða eiga eftir að gerast – og eins húsa sem búið er að flytja eða á eftir að byggja.
Að lokum langar mig að ljúka umfjölluninni um Velúr á hluta úr öðru uppáhalds ljóði, sem ennfremur sýndi mér fram á að Þórdís er vaxandi skáld í spennandi þróun, og að önnur ljóðabókin hennar er jafnvel efnisríkari og kröftugri en sú fyrri. Eftir ferðalag um ólíka sögulega tíma og bráðfyndnar en á sama tíma meinhæðnar mannlýsingar og frásagnir, birtir höfundur ljóð sem er hárbeitt blanda af húmor og alvöru, en er fyrst og fremst mannlegt. Ljóðið „Jæja, Friedrich“ er skrifað til Nietzsche og gegn hugmyndum hans um ofurmennið:
(...)
Það sem drepur þig ekki rekur þig á fætur
Um miðja nótt
Til að mylja í þig heilan pakka af Ballerínukexi
(...)Það sem drepur þig ekki gerir þig að nýrri manneskju
brothættri og harðari,
hugsanlega verri manneskju
en varla neitt sterkari.Það sem drepur þig ekki gerir þig veikari
og drepur þig svo sjálfsagt á endanum.
Vera Knútsdóttir, nóvember 2014