Beint í efni

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Jórunn Sigurðardóttir, Máltæknisetur og Ljóðaslamm Borgarbókasafns verðlaunuð

Jórunn Sigurðardóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2013 fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember 2013. Sérstakar viðurkenningar fengu Máltæknisetur og Ljóðaslamm Borgarbókasafns fyrir stuðning við íslenska tungu. Máltæknisetur hlaut viðurkenninguna fyrir að stuðla að því að hægt sé að nota íslensku í nútímasamskiptatækni og Ljóðaslammið fyrir að efla áhuga ungs fólks á ljóða- og textagerð á íslensku. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og þá sem hljóta sérstakar viðurkenningar og rökstyður val sitt. Í ráðgjafarnefndinni sátu rithöfundarnir Gerður Kristný (formaður) og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Gunnþórunn Guðmundsdóttir dósent. Verðlaunin eru 700 þúsund kr. sem Íslandsbanki leggur til, skrautritað verðlaunaskjal og bókagjöf.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

„Með fjölbreyttri þáttagerð um áratuga skeið hefur Jórunn Sigurðardóttir miðlað okkur fréttum og fróðleik af menningu og listum. Áheyrileg, blæbrigðarík og kjarnyrt íslenska einkenna tungutak Jórunnar. Útvarpsþættir Jórunnar eru fleiri en tölu verður á komið en á meðal þeirra eru Aldarlok, þættir um erlendar samtímabókmenntir, Hjálmaklettur, þættir um og með íslenskum skáldum og rithöfundum, Seiður og hélog, þættir um samtímabókmenntir erlendar og íslenskar auk þess sem Jórunn hafði yfirumsjón með bókmenntaþættinum Skorningar sem hóf göngu sína árið 2010. Frá árinu 1995 hefur Jórunn, stundum ein og stundum með öðrum, annast þætti þar sem kynnt eru bókmenntaverk tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Frá haustinu 2012 hefur hún aðallega unnið að vikulegum þætti um bókmenntir, Orð um bækur. Jórunn vílar ekki fyrir sér að snara heilu köflunum úr heimsbókmenntunum ef þörf er á, enda afbragðs þýðandi. Meðal vandaðra þýðinga hennar sem hafa komið út á bók eru Mómó og Sagan endalausa eftir Michael Ende og margar af sögum austuríska verðlaunahöfundarins Christine Nöstlinger um Frans. Jórunn Sigurðardóttir hlýtur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu, þar sem hún hefur um áratuga skeið miðlað fregnum og fróðleik af menningu og listum á áheyrilegri, blæbrigðaríkri og kjarnyrtri íslensku.“

Ráðgjafarnefndin segir í greinargerð sinni um Máltæknisetur:

„Máltæknisetur er samvinnuverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það vinnur að mörgum mikilvægum rannsóknarverkefnum í máltækni og hefur hlotið til þess margvíslega styrki úr samkeppnissjóðum. Setrið var stofnað árið 2005 í kjölfar mikils rannsóknarverkefnis og hefur á þessum árum unnið að mjög brýnum verkefnum sem varða íslenska tungu og tækni samtímans. Setrið hefur þróað hugbúnað eins og þýðingakerfi milli ensku og íslensku og fleira sem lýtur að hvers kyns samvinnu tungumáls og tölvutækni í hagnýtum tilgangi. Þessi samvinna beinist að því að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Leitast er við að finna leið til að nota tölvutæknina í þágu tungumálsins annars vegar og tungumálið innan tölvutækninnar hins vegar. Sjaldan hafa slíkar rannsóknir verið jafn mikilvægar því þær gera okkur kleift að nota íslensku í nútíma samskiptatækni sem við styðjumst sífellt meira við í samskiptum við aðra. Almannarómur, eitt af viðamiklum verkefnum Máltækniseturs, var söfnun íslenskra raddsýna í samvinnu við Google og eru gögnin úr þeirri söfnun aðgengileg almenningi og eiga eftir að nýtast til að þróa ýmsan máltæknibúnað fyrir íslensku, eins og til dæmis talgreini.“

Ráðgjafarnefndin segir í greinargerð sinni um Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins:

„Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins fór fyrst fram árið 2008 og er nú orðið einn af árlegum viðburðum Safnanætur í Reykjavík. Þessi fjöruga og skapandi keppni er ætluð ungu fólki á aldrinum 15-25 ára og hvetur ekki aðeins til ljóða- og textasmíðar heldur líka til skapandi flutnings á efninu. Hvert ár er ákveðið þema valið og á meðal þeirra hafa verið spenna, væmni, sjálfstæði og myrkur. Lögð er áhersla á ljóðaflutning sem sviðslist og miðað við að flytjandi eða flytjendur fari með ljóðið samhliða tónlist, myndlist eða leiklist. Keppnin hefur vaxið ár frá ári og á vef safnsins sést fjölbreyttur og lifandi afrakstur frá þessum árum. Eitt af skilyrðum keppninnar er að ljóðið sé á íslensku og því hvetur þetta vel heppnaða framtak ungt fólk til frjórrar sköpunar á íslenskri tungu.“ Sjá nánar um Ljóðaslammið og upptökur af atriðum. Þess má geta að skráning er hafin í Ljóðaslammið 2014, en það fer fram á Safnanótt, föstudaginn 7. febrúar næstkomandi. Þemað verður að þessu sinni AF ÖLLU HJARTA.