Magnað myrkur! er yfirskrift Vetrarhátíðarinnar sem stendur yfir frá 6. til 15. febrúar.
Bókmenntaborgin og Sundhöll Reykjavíkur bjóða upp á afslappaða kvöldstund á hátíðinni.
Vetrarhátíð í Reykjavík verður sett annað kvöld og stendur hún yfir til 15. febrúar. Markmið hátíðarinnar er að lýsa upp mesta skammdegið í febrúar með viðburðum og uppákomum af ýmsu tagi, stórum sem smáum, og er yfirskrift hátíðarinnar
Magnað myrkur!
Byggingar og almenningsrými verða lýst upp með fjölbreyttum hætti á meðan hátíðinni stendur og fjöldi viðburða mun eiga sér stað um alla borg. Jón Gnarr borgarstjóri mun setja Vetrarhátíð með því að tendra tíu ljósaverk samtímis, eftir innlenda og erlenda listamenn, annað kvöld klukkan 19.30 í garði Listasafns Einars Jónssonar.
Meginstoðir Vetrarhátíðar 2014 eru Safnanótt, Sundlauganótt og Ljósalistaverk.
Ljós, ljóð og sögur í Sundhöllinni
Bókmenntaborgin og Sundhöll Reykjavíkur bjóða upp á afslappaða kvöldstund á Sundlauganótt, laugardaginn 15. febrúar. Sundhöllin verður opin frá kl. 20 – miðnættis og er frítt inn. Sundlaugagestir geta hlustað á ljóðaupplestur mætra skálda, ofan og neðan vatnsborðsins, og verður laugin böðuð sérstakri birtu í tilefni kvöldsins.
Milli kl. 20 – 22 verður hægt að njóta ljóða og ljósa í svífandi léttu þyngdarleysi, með hjálp sérstaks flotbúnaðs frá fyrirtækinu Float. Þessi einfaldi búnaður er ný íslensk hönnun sem hjálpar fólki að njóta fljótandi slökunar, losa um streitu og upplifa endurnærandi stund í kyrrð vatnsins.
Milli kl. 21 - 22 munu svo skáldin Björk Þorgrímsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Æsa Strand Viðarsdóttir og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir lesa úr verkum sínum fyrir pottagesti á útisvæði Sundhallarinnar.
Frekari upplýsingar dagskrána má finna á
Facebook síðu og
viðburðadagatali Bókmenntaborgarinnar. Nánari upplýsingar um einstaka dagskrárliði Vetrarhátíðar er að finna á heimasíðu hátíðarinnar
vetrarhatid.is.