Kristín Ómarsdóttir á evrópskri ljóða- og ljósmyndasýningu í Berlín
Listamaðurinn Sergey Shabohin frá Hvíta Rússlandi er sýningarstjóri ljósmyndasýningarinnar What‘s the Point of Poetry sem opnar í Berlín laugardaginn 8. júní 2013. Þar gefur að líta ljósmyndir af ljóðskáldum frá 39 löndum og svör þeirra við þessari spurningu, en meðal skáldanna er Kristín Ómarsdóttir. Sýningin er í Akademie der Künste, sal 3, á Hanseatenweg 10 og stendur hún til 15. júní.
Literaturwerkstatt Berlin stendur að sýningunni í samvinnu við listamenn og stofnanir í þátttökulöndunum og var Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO aðili að sýningunni fyrir hönd Íslands ásamt skáldkonunni Kristínu Ómarsdóttur. Að sögn aðstandenda sýningarinnar var markmiðið að kanna svar skálda við þeirri spurningu sem sífellt dynur á listamönnum, þ.e. til hvers listin sé en flestir þeirra kannast eflaust við spurningar þar sem þeir eru krafðir réttlætingar á vinnu sinni. Hér er gerð tilraun til að svara þessari spurningu frá sjónarhorni skálda frá ólíkum löndum og er það von sýningarstjórans að sýningin verði hvati að umræðu um ljóðlistina og tilgang hennar. Skáldin eru öll ljósmynduð með rauða hettu á höfði með svar sitt við spurningunni ritað á kröfuspjald á móðurmáli hvers og eins. Þýðing fylgir síðan með í sýningarskrá.
Sýningin er hugsuð sem farandsýning og mun hún því fara á flakk á milli einhverra þátttökulandanna eftir sýningartímann í Berlín. Enn er óljóst hvort og hvenær hún kemur til Íslands.
[caption id="attachment_4990" align="alignnone" width="300" caption="Kristín Ómarsdóttir. Ljósmynd: Davíð Kjartan Gestsson"]
[/caption]
Skáldin sem taka þátt í sýningunni eru:
Arian Leka (Albanía), Teresa Colom (Andorra), Rudik Gevorgyan (Armenía), Sophie Reyer (Austurríki), Nijat Mammadov (Aserbaídsjan), Volha Hapeyeva (Hvíta Rússland), Xavier Roelens (Belgía), Senadin Musabegović (Bosnía og Hersegóvina), Mina Stoyanova (Búlgaría), Ivan Herceg (Króatía), Constantinos Papageorgiou (Kýpur), Ondřej Buddeus (Tékkland), Martin Glaz Serup (Danmörk), Sabine Scho (Þýskaland), Joanna Ellmann (Eistland), Harri Hertell (Finnland), Fabienne Yvert (Frakkland), Paata Shamugia (Georgía), Yannis Stiggas (Grikkland), Petra Szőcs (Ungverjaland), Máighréad Medbh (Írland), Kristín Ómarsdóttir (Ísland), Claudio Pozzani (Ítalía), Maria Vilkoviskaya (Kasakstan), Sergey Moreino (Lettland), Hansjörg Quaderer (Lichtenstein), Laurynas Katkus (Litháen), Luc Spada (Lúxemborg), Keith Borg (Malta), Nikola Madzirov (Makedónía), Alexandru Vakulovski (Moldavía), Tanja Bakić (Svartfjallaland), Tsead Bruinja (Holland), Cornelius Jakhelln (Noregur), Patryk Zimny (Pólland), José Mário Silva (Portúgal), Svetlana Cârstean (Rúmenía), Stanislav Lvovsky (Rússland), Leif Holmstrand (Svíþjóð), Michael Fehr (Sviss), Dragana Mladenović (Serbía), Martin Solotruk (Slóvakía), Aleš Šteger (Slóvenía), Martí Sales (Spánn), Ömer Erdem (Tyrkland), Sabrina Mahfouz (Bretland) and Ostap Slyvynsky (Úkraína).
Sjá nánar um
What's the Point of Poetry á vef Literaturwerkstatt Berlin.