Beint í efni

Annað líf

Annað líf
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2000
Flokkur
Skáldsögur

Úr Öðru lífi:

Eftir þrjá mánuði var heimili Guðmundar og Napassorn orðið skringilegt sambland af íslensku sveitaheimili og austrænu hofi. Hillurnar svignuðu undan litríkum drekum, íslenska fánanum á silfurstandi, Búddastyttum, skítugum verkfærum, appelsínugulum kertum, rjúpu eftir Guðmund frá Miðdal, kínverskum lukkufroski, öðru bindi af Íslenskum samtíðarmönnum og gylltum andlitsgrímum með illskusvip. Á milli hillunnar og Lazy boy stóls var risastór fíll og fyrir framan fílinn var handunnin motta í fullkomnu ósamræmi við brúnt gólfteppið. Amerískt leðursófasettið var einnig í hrópandi mótsögn við stofuborð úr mahóní, fínlega útskorið og skreytt hvítum drekum á hornunum. Á hvítum veggjunum hékk málverk merkt Stórval, bleikur pappablævængur sem sýndi gróðursæla jörð, ljósmynd af ryðguðu bárujárnshúsi og yfir myndunum trónaði altari með kertum, reykelsi og ávöxtum.

(s. 75)

 Er ekki allt í lagi, Nok? spurði Sinjai. Ertu með eitthvað í auganu?
 Napassorn opnaði augun og svaraði hratt: Jú, allt í lagi, ég er bara þreytt. Hlakkar Bjössi til að fara til Tælands?
 Já, honum finnst svo gaman þar, svaraði Sinjai og fyllti munninn eina ferðina enn af brauði, majonesi og hangikjöti.
 Veit hann að þú varst gleðikona? Sinjai kinkaði kolli en yppti öxlunum kæruleysislega um leið. Napassorn sá að hún forðaðist umræðuefnið svo hún fór út í aðra sálma og sagði ákveðin: Mig langar að hætta í spítalaeldhúsinu og fá vinnu í fiskinum eins og þú.
 Úff, það er ekki gaman. Köld verksmiðja og vond lykt: klór og fiskifýla í bland.
 Mér er alveg sama, andvarpaði Napassorn en rómurinn var ekki jafn ákveðinn og augnabliki áður. Því næst varð henni litið út um gluggann; það var rok að vanda, rigningarúði og frá slikja þakti umhverfið - og hún stundi: Það er svo sjaldan sól á Íslandi.
 Sinjai brosti: Aldrei sól, bara rigning og snjór.
 Fúlt fólk, sagði Napassorn.
 Sumir en ekki allir, leiðrétti Sinjai og flissaði sem varð til þess að Napassorn hélt upptalningunni áfram: Vondur matur.
 Nei, maturinn er góður, sagði Sinjai og sló sældarlega á magann á sér. En húsin eru ljót.
 Já, samsynnti Napassorn og þær hlógu. Þegar hláturinn fjaraði út leit Sinjai athugul á vinkonu sína. Hana grunaði að Napassorn væri einmana og þótti verst að geta ekki oftar verið með henni.

(s. 86)

Fleira eftir sama höfund

Gifting

Lesa meira

Stjórnlaus lukka

Lesa meira

Vetrarsól

Lesa meira

Algjört frelsi

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Daarginds

Lesa meira

Folket i kjällaren

Lesa meira

Dem i kælderen

Lesa meira

Tryggðarpantur

Lesa meira