Beint í efni

Auðnin

Auðnin
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Auðnin er fjórða skáldsaga Yrsu fyrir fullorðna og jafnframt fjórða bókin um lögfræðinginn Þóru og hinn þýska  félaga hennar Matthew en saman leysa þau flókin glæpamál. Í upphafi sögunnar er Matthew, sem nú er fluttur til Íslands og farinn að sjá um öryggismál hjá Kaupþingi, fenginn til að rannsaka hvarf tveggja manna á Grænlandi. Mennirnir voru að vinna fyrir íslenskt fyrirtæki sem sett hefur upp rannsóknarstofu í norð-austurhluta landsins, til að kanna landsvæði undir hugsanlega námuvinnslu og bankinn á hagsmuna að gæta varðandi starfsemina.  Þetta er þó ekki fyrsta mannshvarfið sem tengist starfsmönnum fyrirtækisins. Nokkrum mánuðum áður hafði kona sem starfaði á rannsóknarstofunni einnig horfið sporlaust, en talið var að hún hefði orðið úti. Matthew fær Þóru í lið með sér og ásamt ritaranum Bellu og fjórum öðrum fara þau til norðaustur Grænlands að rannsaka málið. Tveir af ferðafélögunum hafa áður starfað í þessari afskektu  rannsóknarstöð og smátt og smátt kemur ýmislegt í ljós varðandi samskipti starfsmannanna þar, ekki allt jafnfallegt.

Sagan gerist að mestu á nokkrum dögum á Grænlandi í mars 2008. Höfundi tekst mjög vel að fanga andrúmsloft einangrunar og kulda, sérstaklega í upphafi sögunnar þegar hópurinn kemur í yfirgefna rannsóknarstöðina og fer að kynna sér aðstæður innan dyra og utan. Starfsmennirnir sem áður störfuðu þar og bjuggu voru einangraðir vikum saman og fljótlega kemur í ljós að á vinnustaðnum hefur þrifist einelti af verstu gerð. Þegar við þetta bætist svo fjandskapur íbúanna á svæðinu sem telja að bölvun hvíli á staðnum er ekki von á góðu.  

Eins og í fyrri bókunum um Þóru er hún í forgrunni og lesendur sjá þennan afskekta hluta Grænlands og íbúana þar og starfsmenn rannsóknarstöðvarinnar með hennar augum. Það er líka oft stutt í kaldhæðnina, t.d. í lýsingu á búnaði Þóru sem hafði pakkað í skyndi eftir hvítvínsdrykkju með vinkonu sinni, og í samskiptum ritarans Bellu við ferðafélaga sína. Frásögnin er brotin upp af sögu Arnars, fyrrum starfsmanns fyrirtækisins á Grænlandi, sem nú er kominn aftur til Reykjavíkur og heygir baráttu við Bakkus og eigin samvisku.  Grænlendingarnir sem við sögu koma falla alveg að þeirri ímynd sem við fáum af þessari nágrannaþjóð okkar úr sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum. Annars vegar alkohólistarnir og hins vegar gömlu veiðimennirnir sem trúa á mátt landsins og forfeðranna. Yrsu tekst hins vegar að vekja samúð með þessu fólki, sérstaklega konunum, en eins og í fyrri bókum hennar eru þær mun eftirminnilegri persónur en karlarnir. Konurnar eru gerendur í sögunni, hleypa af stað atburðarás og ráða því hvernig hún endar.

Að ósekju hefði mátt stytta söguna aðeins með því að þjappa textann betur, en þrátt fyrir þetta smánöldur er Auðnin hin besta afþreying í skammdeginu – og virkar án efa jafnvel í sólinni í sumar.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2008