Æviágrip
(Vilborg) Yrsa Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 24. ágúst 1963. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1983, lauk B.Sc.-prófi frá Háskóla Íslands í byggingarverkfræði 1988 og M.Sc.-prófi í sömu fræðum frá Concordia University í Montreal í Kanada 1997. Yrsa starfar sem byggingarverkfræðingur við framkvæmdaeftirlit á Kárahnjúkum auk þess sem hún stundar ritstörf.
Yrsa sendi frá sér sína fyrstu barnabók, Þar lágu Danir í því, árið 1998. Árið 2000 hlaut hún Viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY, fyrir bókina Við viljum jólin í júlí og 2003 hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir söguna Biobörn. Fyrsta skáldsaga Yrsu fyrir fullorðna, glæpasagan Þriðja táknið, kom út hjá bókaútgáfunni Veröld 2005. Ári síðar kom svo út sagan Sér grefur gröf þar sem lögfræðingurinn Þóra heldur áfram að fást við dularfull sakamál og síðan hafa fleiri sögur um Þóru bæst í hópinn. Útgáfuréttur bókanna um Þóru hefur verið seldur til fjölmargra landa og hafa þær komið út í þýðingum víða um heim. Fyrsta spennusaga Yrsu þar sem Þóra er ekki í aðalhlutverki er Ég man þig (2010).
Yrsa hefur tvívegis hlotið Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun fyrir bækurnar Ég man þig (2011) og DNA (2015). Árið 2020 var hún tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabókina fyrir bókina Herra Bóbo, Amelía og ættbrókin og til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur (2020) fyrir sömu bók.
Yrsa býr á Seltjarnarnesi. Hún er gift og á tvö börn.
Forlag: Veröld.
Um höfund
Segja má að rithöfundaferill Yrsu Sigurðardóttur sé tvískiptur: Hún skrifaði í fyrstu barnabækur en hefur í seinni tíð snúið sér alfarið að glæpasögum. Hér á vefnum birtast því tvær yfirlitsgreinar: Sú fyrri er eftir Ingu Ósk Ásgeirsdóttur um barnabækur Yrsu og birtist fyrst árið 2002. Sú síðari er eftir Úlfhildi Dagsdóttur, hún fjallar um glæpasögur Yrsu og birtist árið 2013.
Grein Ingu Óskar hefst hér fyrir neðan; grein Úlfhildar kemur í kjölfar hennar, en hana má líka lesa með því að smella hér.
Um barnabækur Yrsu Sigurðardóttur
Á árunum 1998-2001 hafa komið út þrjár barnabækur og ein unglingabók eftir Yrsu Sigurðardóttur þannig að segja má að hún fari kröftuglega af stað sem rithöfundur. Fyrsta bókin heitir Þar lágu Danir í því (1998), önnur Við viljum jólin í júlí (1999), sú þriðja heitir hvorki meira né minna en Barnapíubófinn, Búkolla og bókarránið (2000) og loks er það B10 (2001). Sögurnar eru sjálfstæðar en forsíður þeirra allra státa af myndum eftir Arngunni Ýr, sem jafnframt myndskreytir þrjár fyrstu bækurnar, og það gefur þeim svipað yfirbragð. Auk þess sýna myndirnar stelpur í forgrunni enda eiga fyrstu þrjár sögurnar það sameiginlegt að aðalpersónur þeirra og sögumenn eru stelpur, um það bil 11 ára gamlar, en í B10 eru aðalpersónurnar nokkuð eldri. Sögur Yrsu eru samt ekki dæmigerðar „stelpusögur“, stelpurnar hjá Yrsu eru kraftmiklar, hugmyndaríkar og klárar. Þær hafa orðið og láta hvorki löggur né blaðamenn stjórna frásögn sinni né hefta orðaflauminn.
Sögurnar eru fyrst og fremst skemmtisögur sem ættu að höfða til lesenda af báðum kynjum og tel ég aldur aðalpersónanna, 11 ár, geta gefið ákveðið viðmið um aldur lesenda, en skortur hefur verið á íslenskum samtímasögum fyrir börn og þó sérstaklega unglinga. Aftur sker B10 sig úr, markhópur hennar er heldur eldri krakkar. Sögurnar gerast allar í Reykjavík og nágrenni og lýsa aðstæðum nútímafólks, flóknum fjölskyldumynstrum og alls kyns tískufyrirbrigðum á gamansaman hátt sem jafnframt felur í sér ádeilu. Ádeilan felst ekki síst í því að ekki er litið á fitubrennslu, skattsvik og vandræði fullorðna fólksins sem vandamál heldur sjálfsagða og eðlilega hluti frá sjónarhorni stelpnanna; hinir fullorðnu eru léttgeggjaðir, upplausnin eðlilegt ástand.
Sögur Yrsu hafa verið skilgreindar sem ærslasögur og bera þær augljós einkenni farsans. Einn misskilningurinn rekur annan og enginn endir er á hrakförum persónanna. Textinn einkennist af ýkjum og persónurnar eru fyrst og fremst staðlaðar týpur. Bygging sagnanna er mjög markviss en aðalsöguþráðurinn er stöðugt rofinn af útúrdúrum sem bæði vekja eftirvæntingu og óþol hlustanda/lesanda líkt og lögreglumannsins í Þar lágu Danir í því:
Lögreglumaðurinn er greinilega búinn að fá nóg af þessari sögu. Hann réttir skyndilega úr sér og segir valdsmannslega, „Jæja, nóg um það góða. Haltu nú áfram að lýsa atburðarrás dagsins í dag. Ekki viljum við eyða allri nóttinni í þetta.“ (29)
Yrsu tekst þó blessunarlega að halda útúrdúrum innan hæfilegra marka þannig að þráðurinn helst óslitinn. Sömuleiðis finnst mér hún halda jafnvægi hvað brandara varðar, nokkrir fljóta með en sem betur fer er fyndni sögunnar fólgin í skemmtilegum lýsingum, gálgahúmor og samtölum. Mér varð ekki um sel þegar ég las lýsingar á Alzheimersjúkum öfum, mömmu sem sýndi kuldaleg viðbrögð við hræðilegum meiðslum eiginmanns síns, klámblaðalestri sumra pabbanna og lýsingar á nektardansi karlkyns fatafellu. Síðan varð mér ljóst að um minn eigin tepruskap var að ræða því allar persónur sagnanna eru settar undir sama hatt, stelpurnar tala um foreldra, afa og ömmur og aðra án þess að flækja sig í „svona talar maður ekki um fullorðið fólk“, „virða skaltu föður þinn og móður“ og þess háttar boð og bönn. Hvað klámið varðar er það stöðugt sýnilegri hluti tilveru okkar og hispursleysi höfundar er bráðfyndið, t.d. þegar Theodóra í Við viljum jólin í júlí ætlar að stytta rúmliggjandi föður sínum stundir:
Ég byrja að þýða enska textann sem er viðtal við einhverja konu. „Mér finnst mest æsandi að klæðast ofurlitlum nærbuxum úr blúndu og sitja berbrjósta úti á svölum fyrir augum allra.“ Lengra kemst ég ekki því pabbi hrekkur upp dreyrrauður og hrifsar af mér tímaritið með heilu hendinni. „Lestu eitthvað annað í guðanna bænum,“ segir hann og ég sé glitta í forsíðuna. Framan á er mynd af berri konu. Úpps, klámblað, hugsa ég og kíki á kápuna á hinu blaðinu sem liggur á náttborðinu áður en ég byrja að lesa úr því. Það er vísindatímarit á íslensku svo mér ætti að vera óhætt. (18)
Sömuleiðis er sýn Glódísar í Nú lágu Danir í því á fötlun Palla vinar síns hressandi, laus við óþarfa vorkunnsemi:
„Hann Páll vinur þinn virðist taka fötlun sinni vel,“ grípur lögreglumaðurinn fram í. „Hvað meinarðu,“ segi ég hálf pirruð yfir því að vera trufluð þegar ég var loks komin á skrið. „Palli er ekkert fatlaður. Það bara vantar á hann fót. Hann hefur alltaf verið bara með einn. Maður getur ekki verið fatlaður nema að það gerist eftir að maður fæðist. Í umferðarslysi eða svoleiðis. Hefurðu ekki séð auglýsingarnar í sjónvarpinu?“ Ég er hissa á því að löggan viti ekki betur. (38)
Íslenskum rithöfundum, sérstaklega spennusagnahöfundum, hefur verið legið á hálsi að geta ekki búið til pottþétta sögufléttu (plott) og oft hefur handritið verið talið veikasti hlekkur íslenskra kvikmynda. Hvort þessi gagnrýni er réttmæt eða ekki treysti ég mér ekki til að dæma um en ég fullyrði að hún á ekki við Yrsu Sigurðardóttur því í þessum fjórum sögum tekst henni ótrúlega vel að láta mjög flókinn söguþráð ganga upp.
Sögurnar eru mjög jafnar að gæðum og þótt þær fjalli um ólíka atburði eru þær keimlíkar, jafnvel svo að auðvelt er að blanda þeim saman. Í fyrsta lagi er rödd aðalpersóna og sögumanna í öllum sögunumsvipuð, þær segja frá skondnum atvikum, samtöl eru áberandi og framsetningin dálítið talmálsleg og einstaka slangur slæðist með, svo sem „Kræst“ og „Ó boj.“ Í öðru lagi eru aðrar persónur oft áþekkar milli bóka svo sem ruglaðir afar, amasamir nágrannar, þreytandi systkini, grænmetisætur, kæruleysislegir feður og yfirstressaðar mæður. Það hversu ýktar manngerðirnar eru forðar persónunum frá því að verða klisjukenndar og fyrir vikið verða þær raunsærri, hversu öfugsnúið sem það kann að virðast. Í þriðja og síðasta lagi er bygging sagnanna lík, í Við viljum jólin í júlí er formáli sem myndar ramma, verið er að rifja upp sögu sem hófst 7 árum áður og í tveim næstu er um rammafrásagnir að ræða. Í Þar lágu Danir í því er Glódís í yfirheyrslu hjá lögreglunni og í Barnapíubófinn, Búkolla og bókarránið er Freyja í brúðkaupi föður síns óafvitandi að fræða blaðamann „Séð og heyrt“ um hvarf Jónsbókar, rán á dýrum úr Húsdýragarðinum og um Bergþór fyrrverandi fanga og „barnapíu“ þeirra systkina. Frásögn Freyju er óslitin en saga Glódísar er rofin af athugasemdum lögreglumannsins sem jafnframt eru skáletraðar. Sögunum er öllum skipt upp í marga stutta kafla sem flestir segja frá einu atviki tengdu aðalatburðarás. Þannig er fast haldið utan um frásögnina enda ekki vanþörf á þar sem ótal þræðir koma saman í endann og eins gott að einbeita sér að lestrinum þar sem spennan nær hámarki. Í lokin er svo tryggilega gengið frá lausum endum og ímynda ég mér að ungir lesendur sem venjulega eru ofurnákvæmir kunni vel að meta það. Í B10 mætti kannski segja að um línulega frásögn sé að ræða, hún minnir dálítið á spretthlaup í stíl. Í upphafi er okkur gert ljóst að lausn sögunar verði fullkomnuð þegar tveimur markmiðum er náð, annað markmiðið er ferming aðalpersónunnar Hallgerðar og hitt afhjúpun styttu en það mál útskýri ég ekki frekar væntanlegra lesenda vegna. Þessi tvö mál tvinnar Yrsa stórkostlega vel saman.
B10 sker sig nokkuð úr bókum Yrsu, hún er frekar ætluð unglingum en börnum þótt slíkar skilgreiningar séu ætíð varasamar. Vinkonurnar Hallgerður og Sonja sem eru á fermingaraldri dragnast með systkini sín á eftir sér, oftast til trafala en á öðrum stundum til heilla. GSM símar eru notaðir óspart og SMSað þegar það á við. Strákar eru á sveimi í kringum þær stöllurnar og ekki bara til að leika sér við í brennó. Hallgerður og systir hennar Bríet búa einar hjá föður sínum sem hefur verið ekkill um alllangt skeið. Hann er ótrúlegur klaufi við allt heimilishald (kannski svolítil klisja) og grillar til að mynda í nánast öll mál.
Sem fyrr er Yrsa lagin við að koma ýmsum samfélagsmálum inn í textann, sýn barnanna á óréttlætið í þjóðfélaginu er oft á tíðum ótrúlega einföld en sönn, til dæmis þegar félagana vantar peninga og Sonju verður að orði:
Það væri æði. Þannig er það hjá Dísu sem býr í næsta húsi við okkur. Hún er ekki beint heppin. Mamma hennar og pabbi eru rosalega rík af því að þau áttu einhverja fiska í sjónum. Pælið í því. Þau gátu selt fiskana, meira að segja áður en þau veiddu þá, og fyrir þvílíkt mikla peninga að það mætti halda að þau hefðu fengið borgað í ítölskum lírum. (68)
B10 endar svo á stórkostlegan hátt en þar eru tveir drepfyndnir, örstuttir eftirmálar sem draga saman „úrslitin“ í „spretthlaupinu“ sem ég talaði um hér að framan.
Söguþráður bókanna verður flóknari frá bók til bókar og Yrsa virðist sífellt ná betri tökum á forminu. Svart-hvítar teikningar Arngunnar Ýrar eru stílfærðar og dálítið hráar (B10 er ekki myndskreytt), þær falla vel að textanum og gefa bókunum léttara yfirbragð. Bækur Yrsu taka sig mátulega alvarlega og ég tel hraðar og fyndnar sögur sem þessar sem jafnframt eru skrifaðar á góðu máli mjög hvetjandi fyrir börn og unglinga.
© Inga Ósk Ásgeirsdóttir, 2002
Glæpir og myrkraverk – um glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur
Yrsa Sigurðardóttir hafði gefið út nokkrar hressilegar barnabækur þegar hún skipti um lið og fór að skrifa glæpasögur (sjá grein Ingu Óskar Ásgeirsdóttur hér á vefnum). Reyndar var síðasta barnabók hennar, fyrir umskiptin, með glæpsamlegu ívafi, en Biobörn (2003) segir frá því að vegna mistaka gamals skólaritara lenda trassarnir Anna Lísa og Raggi í hópi ofurgreindra barna sem boðið er til námskeiðs í frumkvöðlasetri á vegum líftækni fyrirtækisins Biobörn. Þegar þangað er komið sjá trassarnir strax að eitthvað er ekki eins og það á að vera, og bæta síðan góðu heilli gráu ofan á svart með því að setja allt í upplausn – og finna út úr ýmsum grunsamlegum atburðum í leiðinni. Þess má svo geta að Biobörn hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin.
Fyrsta glæpasaga Yrsu, Þriðja táknið (2005), vakti ekki síst athygli fyrir það að áður en bókin kom út hafði hún verið seld til annarra landa. Á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir, í nóvember 2013, lýsti Yrsa því hvernig henni hefði í fyrstu fundist hún knúin til að bæta inn lundum og hvalaskoðunarferðum, en tókst að taka sig á og klára bókina eftir þeim línum sem upphaflega höfðu verið lagðar. Þegar skáldsagan kom svo út hlaut hún afar lofsamlega dóma gagnrýnenda, ekki síst fyrir þann létta tón sem einkennir verkið, en sá er ættaður beint úr barnabókunum.
Þetta, í bland við næsta ævintýralegt viðfangsefni, gerir það að verkum að saga Yrsu sver sig í ætt við reyfara, og þá á ég við sögur sem taka sjálfar sig ekki of hátíðlega. Söguþráðurinn er á þá leið að ungur þýskur nemi finnst látinn í Árnagarði, augun hafa verið fjarlægð úr líkinu. Fjölskyldan fær lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur í málið, en hún álítur að lögreglan sé á rangri leið í rannsókn sinni. Með lögfræðingnum er svo fulltrúi fjölskyldunnar, þýski fyrrum lögreglumaðurinn Matthew. Þóra er fráskilin tveggja barna móðir svo hér er strax komin dulítil ástarsaga inn í plottið, alveg í reyfarastílnum. Í ljós kemur að erlendi neminn var allsérstakur í háttum, hann hefur stundað líkamsbreytingar á sjálfum sér með tilheyrandi götunum og ristum í húð sína og að auki er hann sagnfræðinemi með sérstakan áhuga á galdrafárinu og pyntingum. Þetta galdramál blandast svo mjög inní rannsókn málsins og því er bókin full af sögulegum upplýsingum um ýmis málefni tengd galdri.
Aðalpersónan, lögfræðingurinn Þóra, er nokkuð skemmtileg og minnir á margar af kvenhetjum barnabóka höfundar. Samspil hennar við hinn stífa og pjattaða þjóðverja er fyndið og gefur verkinu hæfilega léttúðugan tón, mitt í öllu galdrafárinu. Vinahópur hins myrta er helst til stereótýpískur, undarlegir ‚gotharar‘, en þegar kemur að kennurum og starfsfólki Árnagarðs dregur Yrsa upp margar skemmtilegar smámyndir.
Þóra Guðmundsdóttir heldur svo áfram að vera aðalpersóna í flestum glæpasögum Yrsu, í félagi við hinn þýska Matthew. Hún birtist á ný í Sér grefur gröf (2006), Ösku (2007), Auðninni (2008), Horfðu á mig (2009) og Brakinu (2011). Auk þessara hefur Yrsa sent frá sér þrjár sögur án Þóru, Ég man þig (2010), Kulda (2012) og Lygi (2013).
Glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur hafa frá upphafi einkennst af því sem kalla mætti samslætti hins forneskjulega, í formi hins yfirnáttúrulega, og hins nútímalega, en sögurnar gerast allar í samtímanum. Yrsa er sú eina af íslenskum glæpahöfundum sem hefur markvisst notað sér þjóðsagnaarf til að gæða sögur sínar dálitlum aukahryllingi og að því leyti standa sögur hennar nærri hrollvekjunni. Vissulega reynast myrkraverkin í mörgum tilfellum eiga sér eðlilegar skýringar og þar fetar Yrsa í fótspor höfunda gotnesku skáldsögunnar, sem á átjándu öld spiluðu einmitt mjög á þessi mörk hins yfirnáttúrulega með því að láta allskyns dularfulla atburði gerast, en finna þeim svo að lokum raunsæar skýringar. Ekki stóðustu þó allar þessar skýringar og í sumum tilfellum var ekki endilega reynt að láta þær standast.
Reimleikar eru það sem setur af stað atburðarás annarar glæpasögu Yrsu, Sér grefur gröf, en kaupandi jarðar á Snæfellsnesi telur að eitthvað undarlegt sé á kreiki á heilsuhóteli sem hann hefur byggt þar. Hann biður Þóru að koma og skoða gamla pappíra sem fundust í eldra húsi á jörðinni og þar með er hún á ný komin út í rannsókn dularfulls máls. Arkitekt heilsuhótelsins finnst látin og grunur leikur á að ekki sé allt með felldu um það og inn í söguþráðin fléttast ýmsar tilvísanir til myrkraverka úr fortíðinni. Nánar tiltekið hefst sagan á því að árið 1945 er fjögurra ára gamalt stúlkubarn lokað inni í jarðhýsi og ætlað að deyja þar. Lesandinn fræðist meira um einkalíf Þóru, sem hún hefur hafið samband við hinn þýska Matthew, auk þess sem sextán ára sonur hennar, nýbakaður faðir veldur flækjum í tilverunni. Allt skapar þetta hæfilega reyfarakennt andrúmsloft, húmorinn er jafnvel enn meira í fyrirrúmi en í fyrstu bókinni og umhverfið vel nýtt til áhrifamikillar sviðsetningar.
Hið yfirnáttúrulega er öllu fyrirferðarminna í Ösku, en hún gerist að hluta til í Vestmannaeyjum. Mannshöfuð finnast í kjallara húss sem grafið hefur verið upp úr öskunni, en ástæðan fyrir því að Þóra flækist í málið er að eigandi hússins hafði gert kröfu um að fá að skoða kjallarann áður en aðrir færu þar inn. Inn í málið blandast svo dauði konu sem hefur unnið hjá fegrunarlækni, en sú hefur sjálf látið gera á sér fegrunaraðgerðir. Eins og í Sér grefur gröf eru það atburðir úr fortíð, að þessu sinni frá því skömmu fyrir gos, sem blandast í málið. Ritarinn Bella leikur hér öllu stærra hlutverk en áður, en hún á það til að velgja Þóru undir uggum með ‚goth‘ útliti sínu, stórreykingum og all sérstæðum vinnubrögðum, sem felast aðallega í því að koma sér hjá þeirri vinnu sem henni leiðist – sem er nokkurnveginn allt sem lýtur að ritarastarfinu.
Í Auðninni er það þó Þóra sjálf sem er ekki alveg með allt á hreinu þegar hún pakkar niður fyrir ferð til Grænlands, en þangað fer hún á vegum vinnuveitenda Matthews, til að kanna stöðu mála hjá námafyrirtæki. Að sjálfsögðu er eitthvað undarlegt á reiki og að sjálfsögðu skellur á óveður – sögusviðið er eftir alltsaman hinar ófyrirsjáanlegu norðurslóðir. Þóra og Matthew og fleiri eru meira eða minna innilokuð í húsi námafyrirtækisins og þar myndast stemning sem minnir á hina klassíska hrollvekju The Thing (1951, 1982, 2011), þó minna sé um fálmara.
Það er því ljóst að glæpasögur Yrsu eru mjög blandaðar hrollvekjandi þráðum, en hlutur hrollvekjunnar hefur síðan aukist. Eins og áður segir reynast hinir yfirnáttúrulegu atburðir oftar en ekki eiga sér raunsæislegar orsakir, en þó er jafnframt ljóst að nærvera þeirra ljær verkunum dálítið dulúðugt yfirbragð sem ekki verður svo auðveldlega útskýrt í burtu. Þetta er einmitt einkenni gotnesku skáldsögunnar, en þar reynast jarðtengdu skýringarnar ekki alltaf fyllilega sannfærandi. Gotnesku skáldsögurnar urðu uppspretta frægrar kenningar bókmenntafræðingsins Tzvetans Todorovs um fantasíu (Introduction à la littérature fantastique (1970) / The Fantastic: A Structural Approach to a Literary Genre (1973)). Samkvæmt Todorov felst fantasían ekki í hinu ævintýralega eða óröklega, heldur einmitt í efanum um hvort eitthvað yfirnáttúrulegt hafi gerst, bilinu milli skýringarinnar og atburðarins, ef svo má segja.
Eitt frægasta dæmið um þessa kenningu Todorovs er saga bandaríska rithöfundarins Henry James, The Turn of the Screw frá 1898, en þar er sagt frá barnfóstru sem heldur að fyrri fóstra barnanna og vafasamur félagi hennar ásæki börnin handan grafar. Það er þó aldrei ljóst hvers eðlis málið er, því ýmislegt í sögunni bendir til að allir þeir sem upplifa draugaganginn, börnin sem segjast sjá draugana, og fóstran sem á við tilfinningaleg átök að stríða, séu ekki sérlega áreiðanlegir sögumenn.
Það er ýmislegt í fimmtu glæpsögu Yrsu, Horfðu á mig, sem kallast á við þessa þekktu draugasögu, en þar segir einmitt frá barni sem virðist ásótt af draugi fyrrum barnfóstru sinnar, en sú hafði látist í hörmulegu slysi einmitt þegar hún var á leiðinni í barnapössun. Stúlkan var keyrð niður af ókunnum ökumanni sem síðan hvarf af vettvangi og fannst aldrei.
Þetta er þó ekki það mál sem lögfræðingurinn Þóra fæst við, en hún hefur verið ráðin af dæmdum barnaníðingi til að taka upp mál ungs manns með Downsheilkenni sem var fundinn sekur um að brenna sambýli sitt til grunna með þeim afleiðingum að fimm manns létust. Báðir eru þeir vistaðir á réttargeðdeildinni á Sogni en þar fæst barnaníðingurinn meðal annars við að gera við gamlar tölvur, en þó siðblindan geri hann ófæran um mannleg samskipti þá kann hann vel á tækni. Nútímatækni kemur víða við í sögunni, en sambýlið var sérlega vel búið ýmiskonar tækni til að aðstoða hina fötluðu og allt spilar þetta sérlega vel saman í áhrifamikilli og skemmtilegri glæpasögu sem er án efa besta saga Yrsu til þessa.
Samband Þóru og hins þýska Matthew virðist nú vera orðið nokkuð stabílt, þó það setji vissulega strik í reikninginn að foreldrar Þóru, sem hafa misst allt í kreppunni, flytji inn í bílskúrinn til þeirra. En það þýðir þá að Matthew tekur heilmikinn þátt í rannsókninni með ágætis árangri. Þóra virðist eiga ágætt með að setja sig inn í heim hinna fötluðu, sérstaklega hefur hún áhuga á einhverfum pilti sem fórst í eldinum, enda má segja að hún hafi nokkra reynslu af slíku, því snyrtimennska Matthew nálgast það að vera ekki alveg heilbrigð.
Inn í málið blandast svo sögur annarra meðlima sambýlisins, auk starfsfólks, en í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist þar. Það er sérstaklega fjölskylda hins einhverfa sem vekur athygli Þóru, en faðir hans er áhrifamikill í pólitík. Ungur útvarpsmaður fær óþægilegar upphringingar í þátt sinn. Stúlka sem liggur lömuð á spítala kemur líka við sögu og þannig spinnur höfundur vef ólíkra aðila sem virðast fastir í neti undarlegra atburða. Í bakgrunni er svo kreppan, en sambýlið er staðsett í einu af hálfbyggðu hverfunum sem græðgisvæðingin setti af stað. Þannig er hinum fötluðu skapað táknrænt umhverfi, utan alfaraleiða.
Í viðtölum vegna Horfðu á mig, talaði Yrsa Sigurðardóttir um að hana langaði til að skrifa bók sem væri meira í ætt við hrollvekju en glæpasögu. Næsta ár uppfyllti hún þau loforð, nýja bókin Ég man þig, er meiri draugasaga en glæpasaga, þó vissulega komi glæpir og glæpsamlegt athæfi við sögu.
Ég man þig inniheldur í raun tvær sögur sem eru sagðar til skiptis. Fyrst er lesandinn kynntur fyrir þremur manneskjum, hjónunum ungu, Kristínu og Garðari, og vinkonu þeirra Líf, sem er nýorðin ekkja. Þau hafa fest kaup á yfirgefnu húsi á Hesteyri á Vestfjörðum og ætla að gera það að sumarhóteli. Í upphafi sögunnar stefna þau á vikudvöl að vetrarlagi til að vinna í húsinu, sem er í slæmu ásigkomulagi. Geðlæknirinn Freyr er aðalsöguhetja hinnar sögunnar, en hann hefur flutt á Ísafjörð til að flýja slæmar minningar, en sonur hans hvarf sporlaust þremur árum áður. Hjónabandið leystist upp í kjölfarið og fyrrum eiginkonan virðist veik á geði.
Saga Freys byrjar sem hefðbundin glæpasaga úr litlu þorpi, það eru framin skemmdarverk í skólanum og aldraður sjúklingur Freys rifjar upp að samskonar skemmdarverk voru framin áratugum áður. Freyr byrjar að kanna málið í félagi við lögreglukonuna Dagnýju sem hann hrífst af. Hann kemst meðal annars að því að nokkru áður en skemmdarverkin voru framin hafði drengur horfið sporlaust úr þorpinu. Málið minnir hann því dálítið á eigin harmleik og forvitni hans eykst. Allt virðist þetta svo tengjast sjálfsmorði konu sem gerist á svipuðum tíma og skemmdarverkin og svo fara ýmsir dularfullir atburðir að láta á sér kræla.
Saga sumarhússins í eyðiþorpinu er hinsvegar meiri draugasaga alveg frá upphafi. Unga fólkið finnur vonda lykt, bein undir palli og verður vart ýmissa undarlegra hljóða. Skipstjórinn sem sigldi með þau yfir hafði enda gefið í skyn að þarna væri eitthvað undarlegt á seyði og allir góðir lesendur vita að þegar gamlir karlar taka til máls í svona sögum hafa þeir rétt fyrir sér. Fljótlega verða þau vör við dreng sem virðist uppspretta vandræðanna. Eitthvað eru samskiptin stirð, sérstaklega milli kvennanna tveggja, og ekki skánar ástandið þegar batteríin úr símunum tæmast fyrirvaralaust og þeim verður ógerlegt að hringja á hjálp.
Yrsa nýtir hér margskonar efni, allt frá þjóðsögum til nútímahrollvekja. Þjóðsagnastefin birtast í hinum ýmsu merkjum um reimleika og af tilvísunum til nýrra efnis má nefna þekktar draugahússögur eins og The Haunting of Hill House (1959) eftir Shirley Jackson (sem var innblástur sögu Stephen King, The Shining (1977)). Annað stef úr þjóðsögunum eru draumar en jafnframt spilar nútímatækni hlutverk (draugahvísl er tekið upp á kvikmyndavél og farsíma). Húmorinn er heldur ekki fjarri, þó myrkrið sé mikið. Hér má einnig finna gotnesk stef um leyndarmál fortíðar og beinagrindur í skápum. Allt spilar þetta vel saman og Yrsu tekst afskaplega vel upp í þessari sögu um leyndardóma fortíðarinnar. Þó viðbrögð þeirra Kristínar, Garðars og Lífar væru á stundum nokkuð ótrúverðug, þá ber að hafa í huga að þar fylgir Yrsa þekktri og kærri hefð hrollvekjunnar, en hún krefst þess einmitt að alltaf þegar persónur í hættu hafa val, þá velja þær rangt.
Enn annar þáttur sögunnar er svo kreppan, en ástæðan fyrir örvæntingarfullum aðgerðum á húsinu er sú að Garðar hefur tapað öllu í kreppunni, þar á meðal starfinu, og þau hjónin eru tæknilega gjaldþrota. Líf er hinsvegar vel stæð, meðal annars vegna þess að maður hennar tapaði minna og skildi að auki eftir sig væna líftryggingu. Yrsa notaði kreppuna líka á sannfærandi hátt sem umgjörð um Horfðu á mig, og hér virkar þessi bakgrunnur jafnvel enn sterkari, sem kaldur veruleiki andspænis hinum kuldalegu reimleikum.
Í þessu má enn á ný sjá ýmis kunnugleg ummerki hrollvekjunnar, en eitt einkenna hennar er einmitt vinna með sterkar andstæður og venjulegt fólk í ómögulegum aðstæðum.
Yrsa er aftur á kunnuglegum slóðum í Brakinu, en þar er Þóra enn á ný aðalsöguhetjan, með Bellu í eftirdragi. Mannlaus snekkja stímir á bryggju við Reykjavíkurhöfn og ýmis ummerki eru um dramatíska atburði. Sömuleiðis virðist eitthvað ókennilegt á sveimi og að sjálfsögðu koma flókin fjármál og kreppan við sögu. Sagan er að hluta til sögð af ungum manni, Ægi, sem er um borð í snekkjunni og þar fær lesandinn innsýn í atburðarásina fram að strandinu. Yrsa nýtir þetta víða í sögum sínum, að láta raddir annarra persóna segja hluta sögunnar, þann hluta sem snýr að glæpamálunum.
Þóra er aftur fjarri góðu gamni í næstu tveimur bókum Yrsu, Kulda og Lygi, en báðar sverja sig í ætt við hinn hrollvekjandi anda sem er ríkjandi í Ég man þig. Kuldi gerist að hluta til á afskekktu upptökuheimili, en sagan þar er úr nálægri fortíð, sögð af ungri konu sem ræður sig þar sem matselja. Í nútímanum fer maður, eiginlega fyrir tilviljun, að kynna sér skýrslur um þetta upptökuheimili, og er það sett í samhengi við gagnrýni á slíkar stofnanir sem hefur verið áberandi undanfarin ár. Jafnframt er hann að takast á við erfiðleika heima fyrir, en barnsmóðir hans er tiltölulega nýtlátin, að því er virðist eftir hörmulegt slys, og dóttirin glímir við afleiðingar þessa.
Eins og áður segir er Þóra ekki til staðar í Lygi, en þó er sú bók meira í ætt við hefðbundnar glæpasögur en Ég man þig og Kuldi. Hér er það lögreglukonan Nína sem tekst á við sorg eftir að eiginmaður hennar reynir sjálfsmorð, með þeim afleiðingum að hann liggur í varanlegu dauðadái. Nína sættir sig illa við að hann hafi ætlað að farga sér, auk þess sem hún fær ekki af sér að slökkva á vélunum sem halda líkama mannsins lifandi. Hún fær það starf að fara í gegnum geymslur fullar af gömlum skjölum, flokka þau og henda því sem ekki er lengur þörf fyrir að geyma. Þar rekst hún á blað úr skýrslu með nafni eiginmannsins, sem hafði verið tekin þegar hann var barn. Í kjölfar þessa fer hún að reyna að kynna sér það mál og fljótlega verður ljóst að ekki er allt sem sýnist. Samtímis fer fram tveimur sögum, annarsvegar af fjórmenningum sem eru strandaglópar á stærsta drangi Þrídranga og hinsvegar segir frá ungum hjónum, Nóa og Völu, sem koma heim úr fríi og komast að því að eitthvað er ekki eins og það á að vera heima, en þau höfðu haft íbúðaskipti við bandarísk hjón. Í fyrstu virðist sem um eitthvað dularfullt sé að ræða, en en svo kemur á daginn að óþægindin eru af manna völdum. Vala hefur verið að fá óþægileg bréf og það sýnir sig að fleiri hafa fengið slík, þar á meðal nýlátinn lögfræðingur, sem hafði óvænt framið sjálfsmorð, og eiginmaður Nínu.
Nína er aðalpersóna bókarinnar og sú sem rekur saman þræðina. Hún er frekar tragísk persóna, en bæði Kuldi og Lygi eru mun alvarlegri bækur en fyrri verk Yrsu, án þess þó að vera lausar við húmor. Nína er heltekin af sorg, en er samt ekki tilbúin að gefast upp. Hún upplifir sjálfa sig sem miðlungsgóðan lögreglumann og íhugar að hætta í starfinu, en ofan á sorgina fæst hún við afleiðingar þess að hafa kært vinnufélaga fyrir óviðeigandi framkomu. Þessu er ekki vel tekið og því endar hún í kjallaranum. Hér er því tekið á kunnuglegum þemum, stöðu kvenna innan lögreglunnar. Þessi söguþráður er því frekar jarðbundinn og einkennist að mestu leyti af umfjöllun um hversdagsleg mál.
Andspænis Nínu eru svo ungu hjónin Nói og Vala en þau lifa hinu fullkomna lífi, allavega á yfirborðinu. Nói átti erfiða æsku og leggur mikla áherslu á að skapa sér og fjölskyldu sinni öryggi og því verður heimkoman, með sínum dularfullu uppákomum, honum sérlega óþægileg. Það er í þessari sögu sem hvað mest er af dulúð og óhugnaði.
Þriðji söguþráðurinn, af fjórmenningunum á dranganum, er svo einskonar sálfræðitryllir, en þar er það ljósmyndarinn Helgi sem lesandinn fylgir eftir. Hann kemur með í ferðina á síðustu stundu og fljótlega verður ljóst að honum kemur ekki vel saman við Ívar, manninn sem bauð honum með. Þarna skapast áhrifamiklar aðstæður innilokunar en svæðið sem þau hafa til umráða á dranganum er afar lítið og hætturnar hvarvetna, þverhnípið er allt um kring og óveður bætir ekki úr skák.
Samskipti fólksins hríðversna, ekki síst eftir að einn þeirra hverfur og skilur eftir sig blóðugan bakpoka. Glæpir fortíðar koma smátt og smátt fram og lausnin virðist nokkuð fyrirsjáanleg en óvæntur snúningur undir lokin er áhrifamikill og styrkir verkið.
Eins og áður segir er Nína sú persóna sem mest vinna er lögð við og því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort Yrsa sé hér að kynna nýja hetju til sögunnar, en það er ekki óalgengt innan glæpasagnahefðarinnar að höfundar séu með fleiri en eina línu eða seríu í gangi. Það má finna ákveðna þreytu á Þóru í Brakinu, húmorinn er orðinn ofurlítið endurtekningasamur og hin óþolandi Bella æ sympatískari (án þess þó að það sé endilega ætlunin?). Þó væri eftirsjá að þeim stöllum og flóknu fjölskyldulífi lögfræðingsins. Persóna Nínu gefur góða möguleika á annarskonar nálgun á glæpasagnaformið sem víkkar út svið Yrsu sem höfundar og býður upp á kærkomna hvíld frá Þóru, hvíld sem vonandi verður til þess að hún snýr endurnærð aftur á vettvang, alltaf jafnundrandi á því hvað henni tekst að flækja sig í furðuleg mál.
úlfhildur dagsdóttir, desember 2013
Greinar
Almenn umfjöllun
Yrsa Sigurðardóttir: „Úr smiðju höfundar“
Börn og menning, 19. árgangur, 1. tbl. 2004, s. 28-29
Um einstök verk
Aflausn
Vera Knútsdóttir: „Einelti og hefndir á tímum samfélagsmiðla“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Aska
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Fjöldamorð í Eyjum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2008, 3. árg., 2. tbl. bls. 123-34.
Barnapíubófinn, Búkolla og bókarránið
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Svartur húmor við hæfi barna“
Börn og menning, 16. árg., 1. tbl. 2001, s. 24-26
Biobörn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Únglingarnir í skóginum: Biobörn, Strandanornir og Svalasta 7an“
Börn og menning, 19. árg., 1. tbl. 2004, s. 10-11
Brakið
Ingvi Þór Kormáksson: „Brakið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Brúðan
Þorgeir Tryggvason: „Lengi tekur sjórinn við“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
DNA
Ingvi Þór Kormáksson: „DNA“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ég man þig
Auður Aðalsteinsdóttir: „Draugar fortíðar“
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 14.
Auður Aðalsteinsdóttir: „Ískaldur hrollur“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 11.
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 201-10.
Úlfhildur Dagsdóttir: „... kannski reimt um nætur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kuldi
Helga Birgisdóttir: „Hráslagaleg og hrollvekjandi saga“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 24.
Lygi
Vera Knútsdóttir: „Myrkrið veit“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ásta Gísladóttir: „Um sannleika og lygi í glæpsamlegum skilningi“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., haust/vetur, bls. 5.
Sogið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Svikamylla og samantekin ráð“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sér grefur gröf
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Morð undir jökli“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Við viljum jólin í júlí
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Svartur húmor við hæfi barna“
Börn og menning, 16. árg., 1. tbl. 2001, s. 24-26
Þar lágu Danir í því
Inga Ósk Ásgeirsdóttir: „Svartur húmor við hæfi barna“
Börn og menning, 16. árg., 1. tbl. 2001, s. 24-26
Verðlaun
Verðlaun
2021 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Bráðin
2015 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: DNA
2011 - Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Ég man þig
2003 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Biobörn
2000 - Viðurkenning IBBY samtakanna: Við viljum jólin í júlí
Tilnefningar
2021 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki frumsaminna bóka á íslensku: Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin
2017 – Blóðdropinn, íslensku glæpasagnaverðlaunin: Aflausn
2011 - Glerlykillinn: Norrænu glæpasagnaverðlaunin: Ég man þig
Ég læt sem ég sofi
Lesa meiraÉg læt sem ég sofi er fjórða og síðasta bókin um lögreglumennina Karó og Tý og réttarmeinafræðinginn Iðunni en serían hófst á Lok, lok og læs.Frýs í æðum blóð
Lesa meiraNágrannaerjur í Grindavík, þar sem tvenn hjón takast á, fara úr böndunum. Ung kona er óvænt ráðin sem afleysingakokkur á loðnuskip og brátt fara undarlegir atburðir að gerast um borð. Og torkennilegur beinafundur á sér stað í Reykjavík. Ólíkir þræðir fléttast saman í glæpasögu þar sem ekki er allt sem sýnist.Gættu þinna handa
Lesa meiraLögregluteymið sem Yrsa Sigurðardóttir kynnti til sögunnar í bók sinni Lok lok og læs snýr hér aftur og rannsakar flókið málLok, lok og læs
Lesa meiraHerra Bóbó, Amelía og Ættbrókin
Lesa meiraBráðin
Lesa meiraÞögn
Lesa meiraBrúðan
Lesa meiraThe Reckoning
Lesa meira