Pétur og Halla við hliðina - Fjöruferðin og Afi sterki - Hættuför að Hlíðarvatni eru léttlestrarbækur úr Ljósaseríunni, sem er bókaflokkur ætlaður byrjendum í lestri. Bækurnar eru báðar mátulega langar, rétt rúmar 50 síður hvor, og í frekar litlu broti sem þægilegt er að halda á. Textinn er stærri og línubilið rýmra en gengur og gerist og henta þær því mjög vel fyrir þá sem eru að byrja að lesa bækur með meiri texta en myndum. Báðar bækurnar eru myndskreyttar þó að textinn sé mun fyrirferðarmeiri en myndirnar. Hættuför að Hlíðarvatni er önnur bókin um Afa sterka en áður hefur komið út Afi sterki og skessuskammirnar.
Pétur og Halla við hliðina segir frá Pétri sem fer oft einn í fjöruna til að leika sér og safna fallegum steinum. Mamma hans vill ekki að hann sé þar einn að leik og segir honum hrikalega sögu um það hvernig flóðið geti komið manni að óvörum, og hættunni sem stafar af því. Pétur lofar að leika sér ekki þar framar, en þegar skellibjallan Halla sem býr við hliðina á honum fréttir af fjörunni og fallegu steinunum vill hún endilega fara þangað að skoða. Pétur reynir að tala Höllu ofan af því en sér sig á endanum tilneyddan til að fara með og passa upp á hana. Fyrr en varir eru þau búin að koma sér í mikil vandræði og hrakspár mömmu Péturs virðast ætla að rætast, en þá berst hjálp úr óvæntri átt. Tónninn í sögunni er frekar alvarlegur, hún fer hægt af stað en spennan magnast eftir því sem líður á og byggist upp jafnt og þétt. Lýsingarnar á háskanum sem þau lenda í eru mjög grípandi og með hinni óvæntu lausn í lokin tekst að kalla fram gæsahúð hjá lesandanum. Sagan er þannig bæði spennandi og svolítið hrollvekjandi og heldur athygli lesandans að fullu fram á síðustu síðu.
Afi sterki – hættuför að Hlíðarvatni segir svo frá afa Magna og Aroni Magna sem ætla að skella sér saman í veiðiferð að Hlíðarvatni. Afi segir Aroni Magna margt fróðlegt á leiðinni þangað, þar á meðal um nykurinn, þjóðsagnaveruna sem hefur stundum lokkað fólk til sín í djúpið. Hann telur samt litla hættu á að þeir rekist á nykurinn í þessari ferð, því flestar sögurnar af honum séu bara uppspuni. En afi reynist ekki sannspár, vatnið geymir ýmsar hættur og Aron Magni verður að taka á öllu sem hann á til að sigrast á óvætinum úr djúpinu. Afi sterki er framanaf notaleg og hugljúf frásögn af sambandi Arons Magna og afa Magna. Afi Magni er umhyggjusamur og góður afi og Aron Magni lítur mikið upp til hans. Samtöl þeirra eru áhugaverð og bera merki um gagnkvæma virðingu og hlýju. Tungumálið sem afi Magni notar er á köflum svolítið fornt en Aron Magni spyr hann út úr þegar hann skilur ekki orðin og það tekst ágætlega til við að skýra erfið og gömul orð sem eru líklega ókunn ungum lesendum. Þegar líður á söguna eykst spennan, þeir Magnarnir hafa áður barist við þjóðsagnaverur og haft betur en nú þarf Aron Magni að standa á eigin fótum og bjarga afa sínum og sýna bæði hugrekki og styrk í háskalegum aðstæðum.
Sögurnar segja báðar frá venjulegum krökkum sem lenda í hættulegum aðstæðum og glíma við illviðráðanleg öfl, hvort sem það er náttúran eða illir vættir. Báðar sækja að einhverju leyti innblástur í heim þjóðsagna og eiga það sameiginlegt að vera grípandi og skemmtileg viðbót við sístækkandi flóru léttlestrarbóka.
Ég hlakka til – Mig langar er um margt óvenjuleg myndabók sem er hugsuð fyrir börn á leikskólaaldri. Bókin á að kenna notkun tveggja sagna sem vilja vefjast fyrir mörgum, „að langa“ og „að hlakka til“. Bókinni er skipt í tvennt og eru sagnirnar teknar fyrir í sínum helmingnum hvor þar sem þær eru kynntar með einföldum textum. Uppsetningin er frumleg; „ég hlakka til“ er til umfjöllunar á nokkrum opnum í fyrri helmingnum en þegar komið er að miðju þarf lesandinn að loka bókinni, snúa henni við og byrja aftur hinumegin frá til að kynnast betur hvernig „mig langar“ er notað. Á hverri opnu er í raun lítil örsaga þar sem er fjallað um hversdagslega hluti sem flestir kannast við: að hlakka til vorsins eða jólanna, að langa til að búa til snjókarl eða að langa í sund svo dæmi séu tekin. Myndirnar eru einfaldar og litríkar en þær eru reyndar flóknari en þær virðast í fyrstu og eru ýmis mynstur og áferðir áberandi þegar betur er að gáð, sem gæða myndirnar lífi og dýpt. Þær kallast á við textann, sem virkar knappur í fyrstu en er ótrúlega innihaldsríkur. Samspilið sem myndast milli mynda og texta er þannig til þess fallið að vekja bæði forvitni og ímyndunarafl þess sem les eða hlustar.
Foreldrar sem eru fastir í símum og spjaldtölvum og gefa sér ekki tíma fyrir börnin sín eru orðnir algengt umfjöllunarefni barnabóka, enda veruleiki sem mörg börn kannast við og fullorðnir líka ef út í það er farið. Í Stelpan sem ákvað að flytja upp á fjall nær Þrúður, sem er á leikskólaaldri, engu sambandi við foreldra sína því þau eru alltaf upptekin við eitthvað annað og hafa engan tíma fyrir hana. Þrúður sér norðurljósaspá þar sem lofað er rosalegu sjónarspili en til að sjá norðurljósin vel og hafa sem best útsýni þarf eiginlega að flytja húsið upp á fjall. Þá þarf að ná fjölskyldunni frá snjalltækjunum og Þrúður hefur ýmis ráð til að koma því í verk. Söguþráður bókarinnar er mjög frumlegur og skemmtilegur, hver opna kemur á óvart og sagan tekur reglulega allt aðra stefnu en lesandinn á von á. Myndirnar eru lifandi og litríkar, fullar af smáatriðum sem bæta við söguna og má dunda sér við að skoða meðfram lestrinum. Textinn er sumstaðar hluti af myndunum og er fléttaður inn í þær til að leggja áherslu á ákveðin atriði og stundum þarf að snúa bókinni á ýmsa vegu til að lesa. Þetta heppnast yfirleitt mjög vel og nýtt sjónarhorn á myndirnar kallar fram önnur atriði sem þarf að skoða betur. Þrúður er áhugaverð og sterk persóna sem er gaman að lesa um og tekst með ævintýralegu ímyndunarafli og sannfæringu að vekja foreldra sína upp úr símunum, enda batnandi fólki best að lifa.
María Bjarkadóttir, desember 2017