Beint í efni

Ragnheiður Gestsdóttir

Æviágrip

Ragnheiður Gestsdóttir fæddist í Reykjavík þann 1. maí 1953. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973 og prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum 1979. Ragnheiður stundaði einnig nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Ragnheiður starfaði sem kennari í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu um árabil og var ritstjóri hjá Námsgagnastofnun frá 1990 – 1996. Hún hefur bæði myndskreytt og skrifað bækur fyrir börn og unglinga, en fyrsta bók hennar, Ljósin lifna, kom út árið 1985. Ragnheiður hefur endursagt og myndskreytt þekkt íslensk ævintýri, meðal annars Söguna af Hlina konungssyni. Unglingasögur hennar hafa vakið mikla athygli og hlaut Ragnheiður Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2005 fyrir Sverðberann. Sama bók hlaut Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur árið 2004 en Ragnheiður fékk einnig sömu verðlaun fyrir unglingabókina 40 vikur árið 2001 og Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Leik á borði árið 2000. Þá heiðraði IBBY á Íslandi hana fyrir ritstörf með Vorvindum félagsins árið 2005.

Ragnheiður hefur einnig skrifað bækur fyrir fullorðna og hlaut hún Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir skáldsöguna Farangur árið 2022.

Ragnheiður Gestsdóttir býr í Hafnarfirði. Hún er gift og á fjögur uppkomin börn.

Útgefandi: Mál og menning.