Af bókarkápu:
Blálogaland er óvenjuleg frumraun ungrar skáldkonu sem hefur vakið athygli fyrir frumleg og falleg ljóð. Ljóðabókin skiptist í fjóra hluta sem heita: Jörð af jörðu, Vatn frá vatni, Loft úr lofti og Eldur um eld, en kaflaheitin kallast á við efni ljóðanna. Hér er meðal annars ort um öngþveiti í æðum, sofandi fjöll, fótkalda engla og ástina í fjarskanum.
Úr Blálogalandi:
Tunglið mitt
Í draumóravíddum alheimsins
er þetta eina tunglið
sinnar tegundar
fjarskalega ostkennt
og feimið
nema á haustkvöldum
þá tyllir það sér á öxl mína
kveðst þreytt
á að vera einlægt
háfleygt og fullt.
Handverk
Mæni upp í heillandi festingu himins
hugur sem snöggvast blendinn
víst er máninn faglega útskorinn
finnst þó eitthvað bogið ...
... heyr himna smiður,
þér láðist að naglhreinsa
Karlsvagninn!
(26-27)